the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Nahúm 3
1 Vei hinni blóðseku borg, sem öll er full af lygum og ofríki og aldrei hættir að ræna.2 Heyr, svipusmellir! Heyr, hjólaskrölt! Hestar stökkva, vagnar þjóta!3 Riddarar geisa fram! Blikandi sverð, leiftrandi spjót! Fjöldi valfallinna manna og aragrúi af líkum, mannabúkarnir eru óteljandi, þeir hrasa um búkana.4 Vegna hins mikla lauslætis skækjunnar, hinnar fögru og fjölkunnugu, sem vélaði þjóðir með lauslæti sínu og kynstofna með töfrum sínum,5 - sjá, ég rís í gegn þér - segir Drottinn allsherjar - og ég vil bregða klæðafaldi þínum upp að framan og sýna þjóðunum nekt þína og konungsríkjunum blygðan þína.6 Ég skal kasta á þig saur og svívirða þig og láta þig verða öðrum að varnaðarvíti,7 svo að allir sem sjá þig, skulu flýja frá þér og segja: "Níníve er í eyði lögð! Hver mun aumka hana?" Hvar á ég að leita þeirra, sem vilji hugga þig?
8 Ert þú, Níníve, betri en Nó-Ammon, sem lá við Nílkvíslarnar, umkringd af vötnum, sem hafði fljót að varnarvirki, fljót að múrvegg?9 Blálendingar voru styrkur hennar og óteljandi Egyptar, Pútmenn og Líbýumenn voru hjálparlið hennar.10 Og þó varð hún að fara í útlegð, fara burt hernumin. Ungbörn hennar voru og rotuð til dauða á öllum strætamótum. Hlutum var kastað um hina göfugustu menn í borginni og öll stórmenni hennar voru fjötrum reyrð.11 Einnig þú skalt drukkin verða og þér sortna fyrir augum, þú skalt og leita hælis fyrir óvinunum.12 Öll varnarvirki þín eru sem fíkjutré með árfíkjum. Séu þau skekin, falla fíkjurnar þeim í munn, sem þær vill eta.13 Sjá, hermenn þínir eru orðnir að konum - landshliðum þínum hefir verið lokið upp fyrir óvinum þínum, eldur eyðir slagbröndum þínum.14 Aus vatni til þess að hafa meðan á umsátinni stendur! Umbæt varnarvirki þín! Gakk út í deigulmóinn og troð leirinn, gríp til tiglmótanna!15 Þar skal eldurinn eyða þér, sverðið uppræta þig. Hann skal eyða þér eins og engisprettur, og það þótt þér fjölgi eins og grasvörgum, þótt þér fjölgi eins og átvörgum.16 Kaupmenn þínir eru fleiri en stjörnurnar á himninum, en grasvargarnir skipta hömum og fljúga burt.17 Höfðingjar þínir eru eins og átvargar, herforingjar þínir eins og sægur af engisprettum, er liggja á akurgerðunum þegar kalt er. Þegar sólin kemur upp, fljúga þær burt, enginn veit hvað af þeim verður.18 Hirðar þínir blunda, Assýríukonungur, tignarmenn þínir sofa. Menn þínir eru á víð og dreif um fjöllin, og enginn safnar þeim saman.19 Engin svíun fæst við meini þínu, sár þitt er ólæknandi. Allir þeir sem heyra fregnina um þig, klappa lof í lófa, því að hver er sá, að eigi hafi vonska þín gengið yfir hann án afláts?