Christmas Day
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Habakkuk 1
1 Spádómur, sem opinberaður var Habakkuk spámanni.2 Hversu lengi hefi ég kallað, Drottinn, og þú heyrir ekki! Hversu lengi hefi ég hrópað til þín: "Ofríki!" og þú hjálpar ekki!3 Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni? Eyðing og ofríki standa fyrir augum mér. Af því koma þrætur, og deilur rísa upp.4 Fyrir því verður lögmálið magnlaust og fyrir því kemur rétturinn aldrei fram. Hinir óguðlegu umkringja hina réttlátu, fyrir því kemur rétturinn fram rangsnúinn.
5 Lítið upp, þér hinir sviksömu, og litist um! Fallið í stafi og undrist! Því að ég framkvæmi verk á yðar dögum - þér munduð ekki trúa því, ef sagt væri frá því.6 Sjá, ég reisi upp Kaldea, hina harðgjöru og ofsafullu þjóð, sem fer um víða veröld til þess að leggja undir sig bústaði, sem hún á ekki.7 Ægileg og hræðileg er hún, frá henni sjálfri út gengur réttur hennar og tign.8 Hestar hennar eru frárri en pardusdýr og skjótari en úlfar að kveldi dags. Riddarar hennar þeysa áfram, riddarar hennar koma langt að. Þeir fljúga áfram eins og örn, sem hraðar sér að æti.9 Allir koma þeir til þess að fremja ofbeldisverk, brjótast beint áfram og raka saman herteknum mönnum eins og sandi.10 Þeir gjöra gys að konungum, og höfðingjar eru þeim að hlátri. Þeir hlæja að öllum virkjum, hrúga upp mold og vinna þau.11 Þeir fá nýjan kraft og brjótast áfram og gjörast brotlegir, - þeir sem trúa á mátt sinn og megin.
12 Ert þú, Drottinn, ekki Guð minn frá öndverðu, minn Heilagi, sem aldrei deyr? Drottinn, þú hefir falið þeim að framkvæma dóm. Bjargið mitt, þú hefir sett þá til að refsa.13 Augu þín eru of hrein til þess að líta hið illa, og þú getur ekki horft upp á rangsleitni. Hví horfir þú á svikarana, hví þegir þú, þegar hinn óguðlegi uppsvelgir þann, sem honum er réttlátari?14 Og þannig hefir þú látið mennina verða eins og fiska sjávarins, eins og skriðkvikindin, sem engan drottnara hafa.15 Þeir draga þá alla upp á öngli sínum, hrífa þá í net sitt og safna þeim í vörpu sína. Fyrir því gleðjast þeir og fagna,16 fyrir því færa þeir neti sínu sláturfórn og vörpu sinni reykelsisfórn. Því að þau afla þeim ríkulegs hlutskiptis og ríflegs matar.17 Fyrir því bregða þeir sverði sínu án afláts til þess að drepa þjóðir vægðarlaust.