Christmas Eve
free while helping to build churches and support pastors in Uganda.
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Önnur Mósebók 7
1 Drottinn sagði við Móse: "Sjá, ég gjöri þig sem Guð fyrir Faraó, en Aron bróðir þinn skal vera spámaður þinn.2 Þú skalt tala allt sem ég býð þér, en Aron bróðir þinn skal flytja við Faraó, að hann gefi Ísraelsmönnum fararleyfi úr landi sínu.3 En ég vil herða hjarta Faraós og fremja mörg jarteikn og stórmerki í Egyptalandi.4 Faraó mun ekki skipast við orð ykkar, og skal ég þá leggja hönd mína á Egyptaland og leiða hersveitir mínar, þjóð mína, Ísraelsmenn með miklum refsidómum út úr Egyptalandi.5 Skulu Egyptar fá að vita, að ég er Drottinn, þegar ég rétti út hönd mína yfir Egyptaland og leiði Ísraelsmenn burt frá þeim."6 Móse og Aron gjörðu þetta. Þeir fóru að öllu svo sem Drottinn hafði fyrir þá lagt.7 Var Móse áttræður, en Aron hafði þrjá um áttrætt, er þeir töluðu við Faraó.
8 Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði:9 "Þegar Faraó segir við ykkur: ,Látið sjá stórmerki nokkur,' þá seg þú við Aron: ,Tak staf þinn og kasta honum frammi fyrir Faraó.' Skal hann þá verða að höggormi."10 Þá gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim, og kastaði Aron staf sínum frammi fyrir Faraó og þjónum hans, og varð stafurinn að höggormi.11 Þá lét Faraó og kalla vitringana og töframennina, og þeir, spásagnamenn Egypta, gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni:12 Kastaði hver þeirra staf sínum, og urðu stafirnir að höggormum. En stafur Arons gleypti þeirra stafi.13 En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.
14 Þá sagði Drottinn við Móse: "Hjarta Faraós er ósveigjanlegt. Hann vill eigi leyfa fólkinu að fara.15 Far þú á morgun á fund Faraós. Sjá, hann mun ganga til vatns. Skalt þú þá ganga í veg fyrir hann á árbakkanum, og haf í hendi þér staf þann, er varð að höggormi.16 Og þú skalt segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir sent mig til þín með þessa orðsending: Leyf fólki mínu að fara, að það megi þjóna mér á eyðimörkinni. En hingað til hefir þú ekki látið skipast.17 Svo segir Drottinn: Af þessu skaltu vita mega, að ég er Drottinn: Með staf þeim, sem ég hefi í hendi mér, lýst ég á vatnið, sem er í ánni, og skal það þá verða að blóði.18 Fiskarnir í ánni skulu deyja og áin fúlna, svo að Egypta skal velgja við að drekka vatn úr ánni.'"19 Þá mælti Drottinn við Móse: "Seg við Aron: ,Tak staf þinn og rétt hönd þína út yfir vötn Egyptalands, yfir fljót þess og ár, tjarnir og allar vatnsstæður, og skulu þau þá verða að blóði, og um allt Egyptaland skal blóð vera bæði í tréílátum og steinkerum.'"20 Móse og Aron gjörðu sem Drottinn hafði boðið þeim. Hann reiddi upp stafinn og laust vatnið í ánni að ásjáandi Faraó og þjónum hans, og allt vatnið í ánni varð að blóði.21 Fiskarnir í ánni dóu, og áin fúlnaði, svo að Egyptar gátu ekki drukkið vatn úr ánni, og blóð var um allt Egyptaland.22 En spásagnamenn Egypta gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni. Harðnaði þá hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.23 Sneri Faraó þá burt og fór heim til sín og lét þetta ekki heldur á sig fá.24 En allir Egyptar grófu með fram ánni eftir neysluvatni, því að þeir gátu eigi drukkið vatnið úr ánni.25 Liðu svo sjö dagar eftir það, að Drottinn hafði lostið ána.