the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Önnur Mósebók 6
1 En Drottinn sagði við Móse: "Þú skalt nú sjá, hvað ég vil gjöra Faraó, því að fyrir voldugri hendi skal hann þá lausa láta, fyrir voldugri hendi skal hann reka þá burt úr landi sínu."2 Guð talaði við Móse og sagði við hann: "Ég er Drottinn!3 Ég birtist Abraham, Ísak og Jakob sem Almáttugur Guð, en undir nafninu Drottinn hefi ég eigi opinberast þeim.4 Ég gjörði og við þá sáttmála, að gefa þeim Kanaanland, dvalarland þeirra, er þeir dvöldust í sem útlendingar.5 Ég hefi og heyrt kveinstafi Ísraelsmanna, sem Egyptar hafa að þrælum gjört, og ég hefi minnst sáttmála míns.6 Seg því Ísraelsmönnum: ,Ég er Drottinn. Ég vil leysa yður undan ánauð Egypta og hrífa yður úr þrældómi þeirra og frelsa yður með útréttum armlegg og miklum refsidómum.7 Ég vil útvelja yður til að vera mitt fólk, og ég vil vera yðar Guð, og þér skuluð reyna, að ég er Drottinn, Guð yðar, sem leysi yður undan ánauð Egypta.8 Og ég vil leiða yður inn í það land, sem ég sór að gefa Abraham, Ísak og Jakob, og ég vil gefa yður það til eignar. Ég er Drottinn.'"9 Móse sagði Ísraelsmönnum þetta, en þeir sinntu honum ekki sökum hugleysis og vegna hins stranga þrældóms.
10 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði:11 "Gakk á tal við Faraó, Egyptalandskonung, og bið hann leyfa Ísraelsmönnum burt úr landi sínu."12 Og Móse talaði frammi fyrir augliti Drottins og mælti: "Sjá, Ísraelsmenn vilja eigi gefa gaum að orðum mínum. Hversu mun þá Faraó skipast við þau, þar sem ég er maður málstirður?"13 Þá talaði Drottinn við Móse og Aron og fékk þeim það erindi til Ísraelsmanna og Faraós, Egyptalandskonungs, að þeir skyldu út leiða Ísraelsmenn af Egyptalandi.
14 Þessir eru ætthöfðingjar meðal forfeðra þeirra: Synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. Þetta eru kynþættir Rúbens.15 Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóhar og Sál, sonur konunnar kanversku. Þetta eru kynþættir Símeons.16 Þessi eru nöfn Leví sona eftir ættbálkum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí. En Leví varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall.17 Synir Gersons: Líbní og Símeí eftir kynþáttum þeirra.18 Synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel. En Kahat varð hundrað þrjátíu og þriggja ára gamall.19 Synir Merarí: Mahelí og Músí. Þetta eru kynþættir levítanna eftir ættbálkum þeirra.20 Amram fékk Jókebedar, föðursystur sinnar, og átti hún við honum þá Aron og Móse. En Amram varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall.21 Synir Jísehars: Kóra, Nefeg og Síkrí.22 Synir Ússíels: Mísael, Elsafan og Sítrí.23 Aron fékk Elísebu, dóttur Ammínadabs, systur Nahsons, og átti hún við honum þá Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.24 Synir Kóra: Assír, Elkana og Abíasaf. Þetta eru kynþættir Kóraíta.25 Og Eleasar, sonur Arons, gekk að eiga eina af dætrum Pútíels, og hún ól honum Pínehas. Þetta eru ætthöfðingjar levítanna eftir kynþáttum þeirra.26 Það var þessi Aron og Móse, sem Drottinn bauð: "Leiðið Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra."27 Það voru þeir, sem boðuðu Faraó, Egyptalandskonungi, að þeir mundu leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi, þessi Móse og Aron.28 Er Drottinn talaði við Móse í Egyptalandi,29 mælti hann til hans þessum orðum: "Ég er Drottinn! Seg Faraó, Egyptalandskonungi, allt sem ég segi þér."30 Og Móse sagði frammi fyrir augliti Drottins: "Sjá, ég er maður málstirður, hversu má Faraó þá skipast við orð mín?"