the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Síðari kroníkubók 25
1 Amasía tók ríki, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jóaddan og var frá Jerúsalem.2 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, þó eigi með óskiptu hjarta.3 En er hann var orðinn fastur í sessi, lét hann drepa þá menn sína, er drepið höfðu konunginn föður hans.4 En börn þeirra lét hann ekki af lífi taka, heldur fór eftir því, sem ritað er í lögmálinu, í Mósebók, þar sem Drottinn mælir svo fyrir: "Feður skulu ekki láta lífið ásamt börnunum, og börn skulu ekki láta lífið ásamt feðrunum, heldur skal hver láta lífið fyrir sína eigin synd."5 Og Amasía stefndi Júdamönnum saman og skipaði þeim niður eftir ættum, eftir þúsundhöfðingjum og hundraðshöfðingjum úr öllum Júda og Benjamín. Síðan kannaði hann þá, tvítuga og þaðan af eldri, og komst að raun um, að þeir voru þrjú hundruð þúsund einvalaliðs, herfærir menn, er borið gátu spjót og skjöld.6 Hann tók og á mála hundrað þúsund kappa af Ísrael fyrir hundrað talentur silfurs.7 En guðsmaður nokkur kom til hans og mælti: "Þú konungur! Eigi skyldi Ísraelsher fara með þér, því að Drottinn er eigi með Ísrael, með neinum af Efraímsniðjum,8 heldur skalt þú fara einn saman. Gakk þú öruggur til bardaga, annars kann Guð að láta þér veita miður fyrir óvinum þínum, því að það er á Guðs valdi að veita fulltingi og láta veita miður."9 Amasía svaraði guðsmanninum: "Hvernig á þá að fara með þessar hundrað talentur, er ég hefi gefið Ísraelshersveitinni?" Guðsmaðurinn svaraði: "Það er á valdi Drottins að gefa þér miklu meira en það."10 Þá skildi Amasía frá hersveitina, er komin var til hans úr Efraím, til þess að þeir skyldu halda heimleiðis. Urðu þeir þá sárreiðir Júdamönnum og sneru heimleiðis ofsareiðir.11 En Amasía herti upp hugann, fór með menn sína, hélt til Saltdals og vann sigur á Seírítum, tíu þúsundum manns.12 En aðra tíu þúsund handtóku Júdamenn lifandi. Fóru þeir með þá fram á klettasnös og hrundu þeim ofan af klettasnösinni, svo að brotnaði í þeim hvert bein.13 Þeir af hersveitinni, er Amasía hafði látið aftur hverfa, svo að þeir eigi máttu fara með honum til bardagans, þeir réðust inn í Júdaborgir, frá Samaríu til Bet Hóron, drápu þar þrjú þúsund manns og rændu miklu herfangi.
14 En er Amasía var kominn heim eftir sigurinn yfir Edómítum, þá hafði hann með sér guði Seíríta og setti þá upp hjá sér svo sem guði. Laut hann þeim og brenndi reykelsi þeim til handa.15 Þá varð Drottinn reiður Amasía og hann sendi spámann til hans. Hann mælti til hans: "Hvers vegna leitar þú guða þjóðar þessarar, er eigi gátu frelsað þjóð sína úr hendi þinni?"16 En er hann talaði til hans, þá mælti konungur við hann: "Höfum vér gjört þig að ráðgjafa konungs? Hættu, eða þú verður barinn." Þá hætti spámaðurinn og mælti: "Nú veit ég, að Guð hefir afráðið að tortíma þér, fyrst þú breyttir svo og vilt eigi hlýða á ráð mitt."
17 Síðan réð Amasía Júdakonungur ráðum sínum og gjörði menn á fund Jóasar Jóahassonar, Jehúsonar, Ísraelskonungs, með svolátandi orðsending: "Nú skulum við reyna með okkur."18 Þá sendi Jóas Ísraelskonungur Amasía Júdakonungi þau andsvör: "Þistillinn á Líbanon gjörði sedrustrénu á Líbanon svolátandi orðsending: Gef þú syni mínum dóttur þína að konu. En villidýrin á Líbanon gengu yfir þistilinn og tróðu hann sundur.19 Þú hugsar: Ég hefi unnið mikinn sigur á Edómítum og þú hefir fyllst ofmetnaði. Sit þú nú kyrr heima! Hví vilt þú egna ógæfuna sjálfum þér og Júda til falls?"20 En Amasía gaf þessu engan gaum, því að svo var til stillt af Guði til þess að ofurselja þá fjandmönnunum, af því að þeir höfðu leitað Edómsguða.21 Þá fór Jóas Ísraelskonungur af stað, og varð fundur þeirra, hans og Amasía Júdakonungs, í Bet Semes, er liggur undir Júda.22 Beið Júda þar ósigur fyrir Ísrael, og flýðu þeir hver til síns heima.23 En Jóas Ísraelskonungur tók höndum Amasía Júdakonung, son Jóasar Jóahassonar, í Bet Semes, og fór með hann til Jerúsalem. Hann braut niður múra Jerúsalem, frá Efraímhliði allt að hornhliðinu, fjögur hundruð álnir.24 Því næst tók hann allt gull og silfur og öll áhöld, er fundust í musteri Guðs hjá Óbeð Edóm, svo og fjársjóðu konungshallarinnar og gíslana, og sneri síðan aftur heim til Samaríu.25 Amasía Jóasson Júdakonungur lifði fimmtán ár eftir dauða Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs.26 En það sem meira er að segja um Amasía, er frá upphafi til enda ritað í bók Júda- og Ísraelskonunga.27 Og upp frá því, er Amasía veik frá Drottni, gjörðu menn samsæri gegn honum í Jerúsalem. Flýði hann þá til Lakís, en þeir sendu á eftir honum til Lakís og létu drepa hann þar.28 Fluttu þeir hann síðan á hestum, og var hann grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg.