Christmas Eve
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Síðari kroníkubók 24
1 Jóas var sjö vetra gamall, þá er hann varð konungur, og fjörutíu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba.2 Jóas gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, meðan Jójada prestur lifði.3 Og Jójada tók tvær konur honum til handa, og hann gat sonu og dætur.4 Síðan ásetti Jóas sér að reisa við musteri Drottins.5 Stefndi hann þá saman prestunum og levítunum og sagði við þá: "Farið um Júdaborgir og safnið fé úr öllum Ísrael til þess að gjöra við musteri Guðs yðar, og skuluð þér vinda bráðan bug að erindi þessu." En levítarnir fóru að engu ótt.6 Þá kallaði konungur Jójada æðsta prest og sagði við hann: "Hvers vegna hefir þú eigi annast um að levítarnir heimti inn úr Júda og Jerúsalem skatta þá, er Móse, þjónn Drottins, lagði á Ísraelssöfnuð til lögmálstjaldsins?"7 Því að illkvendið Atalía og synir hennar hafa brotist inn í musteri Guðs og þar á ofan eytt öllum helgigjöfum musteris Drottins í Baalana.8 Síðan gjörðu menn kistu að boði konungs og settu hana fyrir utan hliðið á musteri Drottins.9 Var þá kunngjört í Júda og Jerúsalem, að færa skyldi Drottni skatt þann, er Móse, þjónn Guðs, hafði lagt á Ísrael í eyðimörkinni.10 Fögnuðu þá allir höfuðsmennirnir og allur lýðurinn og komu með skattinn og lögðu í kistuna, uns hún var full.11 Og í hvert sinn, er hann lét levítana fara með kistuna til umsjónarmanns konungs, þegar þeir sáu að féð var mikið orðið, þá kom kanslari konungs og umboðsmaður æðsta prestsins. Tæmdu þeir kistuna og fóru síðan aftur með hana á sinn stað. Gjörðu þeir svo dag eftir dag og söfnuðu ógrynni fjár.12 Og konungur og Jójada fengu það verkstjórunum, er stóðu fyrir vinnunni við musteri Drottins, en þeir leigðu steinhöggvara og trésmiði til þess að reisa við musteri Drottins, svo og járnsmiði og eirsmiði til þess að gjöra við musteri Drottins.13 Og verkstjórarnir unnu, svo að viðgjörðinni miðaði áfram hjá þeim, og færðu þeir musteri Guðs aftur í gott lag eftir ákveðnu máli og gengu vel frá því.14 Og er þeir höfðu lokið því, færðu þeir konungi og Jójada afganginn af fénu, og voru af því gjörð áhöld fyrir hús Drottins - áhöld til guðsþjónustu og fórnfæringa, skálar og gull- og silfuráhöld. Brennifórnir voru færðar í musteri Drottins alla ævi Jójada.
15 En Jójada varð gamall og saddur lífdaga, og hann dó. Var hann hundrað og þrjátíu ára gamall, er hann dó.16 Og hann var grafinn í Davíðsborg hjá konungunum, því að hann hafði breytt vel í Ísrael, svo og gagnvart Guði og musteri hans.17 En eftir andlát Jójada komu höfuðsmenn Júda og lutu konungi, og hlýddi þá konungur á þá.18 Og þeir yfirgáfu musteri Drottins, Guðs feðra sinna, og þjónuðu asérunum og líkneskjunum. Kom þá reiði yfir Júda og Jerúsalem fyrir þessa sök þeirra.19 Og hann sendi spámenn meðal þeirra, til þess að snúa þeim aftur til Drottins. Þeir áminntu þá, en þeir gáfu því engan gaum.20 En andi Guðs hreif Sakaría, son Jójada prests, svo að hann gekk fyrir lýðinn og mælti til þeirra: "Svo segir Guð: Hvers vegna rjúfið þér boðorð Drottins og sviptið yður allri hamingju? Sakir þess að þér hafið yfirgefið Drottin, þá yfirgefur hann yður."21 Þá sórust þeir saman gegn honum og lömdu hann grjóti að boði konungs í forgarði musteris Drottins.22 Og Jóas konungur minntist eigi ástar þeirrar, er Jójada faðir hans hafði sýnt honum, heldur lét drepa son hans. En hann mælti í andarslitrunum: "Drottinn sér það og mun hegna!"23 Þá er ár var liðið, fór her Sýrlendinga í móti honum. En er þeir komu til Júda og Jerúsalem, drápu þeir alla þjóðhöfðingja meðal lýðsins, og sendu allt herfangið til konungsins í Damaskus.24 Þótt her Sýrlendinga væri fámennur, er þeir komu, gaf Drottinn samt afar mikinn her á vald þeirra, af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna, og yfir Jóas létu þeir ganga refsidóma.25 En er þeir héldu burt frá honum - þeir létu hann eftir fársjúkan -, þá gjörðu þjónar hans samsæri gegn honum vegna blóðsakarinnar á syni Jójada prests og drápu hann í rekkju hans. Lét hann þannig líf sitt, og var hann grafinn í Davíðsborg, en eigi var hann grafinn í konungagröfunum.26 Þessir voru þeir, er samsæri gjörðu gegn honum: Sabad, sonur Símeatar hinnar ammónsku, og Jósabad, sonur Simrítar hinnar móabítísku.27 En um sonu hans og upphæð skatts þess, er á hann var lagður, og byggingu Guðs musteris, er ritað í Skýringum konungabókarinnar. Og Amasía sonur hans tók ríki eftir hann.