Christmas Day
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Sefanía 2
1 Beyg þig og læg þig, þú þjóð, sem eigi blygðast þín,2 áður en þér verðið eins og fjúkandi sáðir, áður en hin brennandi reiði Drottins kemur yfir yður, áður en reiðidagur Drottins kemur yfir yður.3 Leitið Drottins, allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi Drottins.
4 Gasa mun verða yfirgefin og Askalon verða að auðn. Asdódbúar munu burt reknir verða um hábjartan dag og Ekron í eyði lögð.5 Vei yður, þér sem búið meðfram sjávarsíðunni, þú Kreta þjóð! Orð Drottins beinist gegn yður, Kanaan, land Filista! Já, ég mun eyða þig, svo að þar skal enginn búa.6 Og sjávarsíðan skal verða að beitilandi fyrir hjarðmenn og að fjárbyrgjum fyrir sauðfé.7 Þá mun sjávarsíðan falla til þeirra, sem eftir verða af Júda húsi. Þar skulu þeir vera á beit, í húsum Askalon skulu þeir leggjast fyrir að kveldi. Því að Drottinn, Guð þeirra, mun vitja þeirra og snúa við högum þeirra.
8 Ég hefi heyrt svívirðingar Móabs og smánaryrði Ammóníta, er þeir svívirtu með þjóð mína og höfðu hroka í frammi við land þeirra.9 Fyrir því skal, svo sannarlega sem ég lifi - segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels - fara fyrir Móab eins og fyrir Sódómu, og fyrir Ammónítum eins og fyrir Gómorru. Þeir skulu verða að gróðrarreit fyrir netlur, að saltgröf og að óbyggðri auðn til eilífrar tíðar. Leifar lýðs míns skulu ræna þá og eftirleifar þjóðar minnar erfa þá.10 Þetta skal þá henda fyrir drambsemi þeirra, að þeir hafa svívirt þjóð Drottins allsherjar og haft hroka í frammi við hana.11 Ógurlegur mun Drottinn verða þeim, því að hann lætur alla guði jarðarinnar dragast upp, svo að öll eylönd heiðingjanna dýrki hann, hver maður á sínum stað.
12 Einnig þér, Blálendingar, munuð falla fyrir sverði mínu.13 Og hann mun rétta út hönd sína gegn norðri og afmá Assýríu. Og hann mun leggja Níníve í eyði, gjöra hana þurra sem eyðimörk.14 Mitt í henni skulu hjarðir liggja, alls konar dýr hópum saman. Pelíkanar og stjörnuhegrar munu eiga náttból á súlnahöfðum hennar. Heyr kliðinn í gluggatóttunum! Rofhrúgur á þröskuldunum, því að sedrusviðarþilin hafa verið rifin burt!15 Er þetta glaummikla borgin, er sat andvaralaus og sagði í hjarta sínu: "Ég og engin önnur"? Hversu er hún orðin að auðn, að bæli fyrir villidýr! Hver sá er þar fer um, blístrar og hristir hönd sína hæðnislega.