Christmas Day
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Sálmarnir 33
1 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,9 því að hann talaði - og það varð, hann bauð - þá stóð það þar.10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.