Christmas Day
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Orðskviðirnir 15
1 Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.
2 Af tungu hinna vitru drýpur þekking, en munnur heimskingjanna eys úr sér vitleysu.
3 Augu Drottins eru alls staðar, vakandi yfir vondum og góðum.
4 Hógværð tungunnar er lífstré, en fals hennar veldur hugarkvöl.
5 Afglapinn smáir aga föður síns, en sá sem tekur umvöndun, verður hygginn.
6 Í húsi hins réttláta er mikill auður, en glundroði er í gróðafé hins óguðlega.
7 Varir hinna vitru dreifa út þekkingu, en hjarta heimskingjanna er rangsnúið.
8 Fórn óguðlegra er Drottni andstyggð, en bæn hreinskilinna er honum þóknanleg.
9 Vegur hins óguðlega er Drottni andstyggilegur, en þann sem stundar réttlæti, elskar hann.
10 Slæm hirting bíður þess, sem yfirgefur rétta leið, sá sem hatar umvöndun, hlýtur að deyja.
11 Dánarheimur og undirdjúpin eru opin fyrir Drottni, hversu miklu fremur hjörtu mannanna barna!
12 Spottaranum er ekki vel við, að vandað sé um við hann, til viturra manna fer hann ekki.
13 Glatt hjarta gjörir andlitið hýrlegt, en sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur.
14 Hjarta hins vitra leitar að þekking, en munnur heimskingjanna gæðir sér á fíflsku.
15 Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.
16 Betra er lítið í ótta Drottins en mikill fjársjóður með áhyggjum.17 Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinn uxi með hatri.
18 Bráðlyndur maður vekur deilur, en sá sem seinn er til reiði, stillir þrætu.
19 Vegur letingjans er eins og þyrnigerði, en gata hreinskilinna er brautarvegur.
20 Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur maður fyrirlítur móður sína.
21 Óvitrum manni er fíflskan gleði, en skynsamur maður gengur beint áfram.
22 Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.
23 Gleði hlýtur maðurinn af svari munns síns, og hversu fagurt er orð í tíma talað!
24 Lífsins vegur liggur upp á við fyrir hinn hyggna, til þess að hann lendi ekki niður í Helju.
25 Drottinn rífur niður hús dramblátra, en setur föst landamerki ekkjunnar.
26 Ill áform eru Drottni andstyggð, en hrein eru vingjarnleg orð.
27 Sá kemur ólagi á heimilishag sinn, sem fíkinn er í rangfenginn gróða, en sá sem hatar mútugjafir, mun lifa.
28 Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli, en munnur óguðlegra eys úr sér illsku.
29 Drottinn er fjarlægur óguðlegum, en bæn réttlátra heyrir hann.
30 Vingjarnlegt augnaráð gleður hjartað, góðar fréttir feita beinin.
31 Eyra sem hlýðir á holla umvöndun, mun búa meðal hinna vitru.
32 Sá sem aga hafnar, fyrirlítur sjálfan sig, en sá sem hlýðir á umvöndun, aflar sér hygginda.
33 Ótti Drottins er ögun til visku, og auðmýkt er undanfari virðingar.