Christmas Day
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Orðskviðirnir 13
1 Vitur sonur hlýðir umvöndun föður síns, en spottarinn sinnir engum átölum.
2 Maðurinn nýtur góðs af ávexti munnsins, en svikarana þyrstir í ofbeldi.
3 Sá sem gætir munns síns, varðveitir líf sitt, en glötun er búin þeim, er ginið glennir.
4 Sál letingjans girnist og fær ekki, en sál hinna iðnu mettast ríkulega.
5 Réttlátur maður hatar fals, en hinn óguðlegi fremur skömm og svívirðu.
6 Réttlætið verndar grandvara breytni, en guðleysið steypir syndaranum.
7 Einn þykist ríkur, en á þó ekkert, annar læst vera fátækur, en á þó mikinn auð.
8 Auðæfi mannsins eru lausnargjald fyrir líf hans, en hinn fátæki hlýðir ekki á neinar ávítur.
9 Ljós réttlátra logar skært, en á lampa óguðlegra slokknar.
10 Með hroka vekja menn aðeins þrætur, en hjá ráðþægnum mönnum er viska.
11 Skjótfenginn auður minnkar, en sá sem safnar smátt og smátt, verður ríkur.
12 Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt, en uppfyllt ósk er lífstré.
13 Sá sem fyrirlítur áminningarorð, býr sér glötun, en sá sem óttast boðorðið, hlýtur umbun.
14 Kenning hins vitra er lífslind til þess að forðast snöru dauðans.
15 Góðir vitsmunir veita hylli, en vegur svikaranna leiðir í glötun.
16 Kænn maður gjörir allt með skynsemd, en heimskinginn breiðir út vitleysu.
17 Óguðlegur sendiboði steypir í ógæfu, en trúr sendimaður er meinabót.
18 Fátækt og smán hlýtur sá, er lætur áminning sem vind um eyrun þjóta, en sá sem tekur umvöndun, verður heiðraður.
19 Uppfyllt ósk er sálunni sæt, en að forðast illt er heimskingjunum andstyggð.
20 Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.
21 Óhamingjan eltir syndarana, en gæfan nær hinum réttlátu.
22 Góður maður lætur eftir sig arf handa barnabörnunum, en eigur syndarans eru geymdar hinum réttláta.
23 Nýbrotið land fátæklinganna gefur mikla fæðu, en mörgum er burtu kippt fyrir ranglæti sitt.
24 Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.
25 Hinn réttláti etur nægju sína, en kviður óguðlegra líður skort.