the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Orðskviðirnir 1
1 Orðskviðir Salómons Davíðssonar, Ísraels konungs,2 til þess að menn kynnist visku og aga, læri að skilja skynsamleg orð,3 til þess að menn fái viturlegan aga, réttlæti, réttvísi og ráðvendni,4 til þess að þeir veiti hinum óreyndu hyggindi, unglingum þekking og aðgætni, -5 hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn, og hinn hyggni nemur hollar lífsreglur -6 til þess að menn skilji orðskviði og líkingamál, orð spekinganna og gátur þeirra.
7 Ótti Drottins er upphaf þekkingar, visku og aga fyrirlíta afglapar einir.8 Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar,9 því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér og men um háls þinn.
10 Son minn, þegar skálkar ginna þig, þá gegn þeim eigi.11 Þegar þeir segja: "Kom með oss! Leggjumst í launsátur til manndrápa, sitjum án saka um saklausan mann,12 gleypum þá lifandi eins og Hel - með húð og hári, eins og þá sem farnir eru til dánarheima.13 Alls konar dýra muni munum vér eignast, fylla hús vor rændum fjármunum.14 Þú skalt taka jafnan hlut með oss, einn sjóð skulum vér allir hafa" -15 son minn, þá haf ekki samleið við þá, halt fæti þínum frá stigum þeirra.16 Því að fætur þeirra eru skjótir til ills og fljótir til að úthella blóði.17 Því að til einskis þenja menn út netið í augsýn allra fleygra fugla,18 og slíkir menn sitja um sitt eigið líf, liggja í launsátri fyrir sjálfum sér.19 Þannig fer öllum þeim, sem fíknir eru í rangfenginn gróða: fíknin verður þeim að fjörlesti.
20 Spekin kallar hátt á strætunum, lætur rödd sína gjalla á torgunum.21 Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum, við borgarhliðin heldur hún tölur sínar:22 Hversu lengi ætlið þér, fávísir, að elska fávísi og hinir háðgjörnu að hafa yndi af háði og heimskingjarnir að hata þekkingu?23 Snúist til umvöndunar minnar, sjá, ég læt anda minn streyma yfir yður, kunngjöri yður orð mín.24 En af því að þér færðust undan, þá er ég kallaði, og enginn gaf því gaum, þótt ég rétti út höndina,25 heldur létuð öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta og skeyttuð eigi umvöndun minni,26 þá mun ég hlæja í ógæfu yðar, draga dár að, þegar skelfingin dynur yfir yður,27 þegar skelfingin dynur yfir yður eins og þrumuveður og ógæfa yðar nálgast eins og fellibylur, þegar neyð og angist dynja yfir yður.28 Þá munu þeir kalla á mig, en ég mun ekki svara, þeir munu leita mín, en ekki finna mig.29 Vegna þess að þeir hötuðu þekking og aðhylltust ekki ótta Drottins,30 skeyttu ekki ráðum mínum og smáðu alla umvöndun mína,31 þá skulu þeir fá að neyta ávaxtar breytni sinnar og mettast af sínum eigin vélræðum.32 Því að fráhvarf fávísra drepur þá, og uggleysi heimskingjanna tortímir þeim.33 En sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.