Lectionary Calendar
Saturday, November 23rd, 2024
the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Attention!
StudyLight.org has pledged to help build churches in Uganda. Help us with that pledge and support pastors in the heart of Africa.
Click here to join the effort!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Fjórða Mósebók 20

1 Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu í eyðimörkina Sín í fyrsta mánuðinum, og lýðurinn settist um kyrrt í Kades. Þar dó Mirjam og var þar grafin.2 Fólkið hafði ekki vatn. Söfnuðust þeir þá saman í gegn Móse og Aroni.3 Og lýðurinn þráttaði við Móse og sagði: "Guð gæfi að vér hefðum dáið, þá er bræður vorir dóu fyrir augliti Drottins.4 Hví leidduð þið söfnuð Drottins í eyðimörk þessa, að vér og fénaður vor dæjum þar?5 Hví létuð þið oss í burt fara af Egyptalandi, til þess að leiða oss í þennan vonda stað, þar sem eigi verður sáð, engar fíkjur vaxa né vínviður né granatepli, og eigi er vatn til að drekka?"6 Móse og Aron gengu þá burt frá söfnuðinum að dyrum samfundatjaldsins og féllu fram á ásjónur sínar. Birtist þeim þá dýrð Drottins.7 Drottinn talaði við Móse og sagði:8 "Tak stafinn og safna saman lýðnum, þú og Aron bróðir þinn, og mælið við klettinn í áheyrn þeirra, og mun hann vatn gefa. Og þú skalt leiða út vatn handa þeim af klettinum og gefa fólkinu og fénaði þeirra að drekka."9 Þá sótti Móse stafinn inn í helgidóminn, eins og Drottinn hafði boðið honum.10 Og Móse og Aron söfnuðu saman lýðnum við klettinn, og Móse sagði við þá: "Heyrið þér, þrjóskir menn. Hvort munum vér leiða mega vatn út af kletti þessum handa yður?"11 Síðan hóf Móse upp hönd sína og laust klettinn tveim sinnum með staf sínum. Spratt þá upp vatn mikið, svo að fólkið drakk og fénaður þeirra.12 Þá sagði Drottinn við Móse og Aron: "Fyrir því að þið trúðuð mér eigi, svo að þið helguðuð mig í augum Ísraelsmanna, þá skuluð þið eigi leiða söfnuð þennan inn í landið, sem ég hefi gefið þeim."13 Þetta eru Meríbavötn, þar sem Ísraelsmenn þráttuðu við Drottin og hann sýndi heilagleik sinn á þeim.

14 Móse sendi frá Kades menn á fund Edómkonungs: "Svo mælir bróðir þinn Ísrael: Þú þekkir allar þær þrautir, er oss hafa mætt.15 Feður vorir fóru suður til Egyptalands, og vér höfum verið í Egyptalandi langa ævi og hafa Egyptar þjáð oss, sem og feður vora.16 En vér hrópuðum til Drottins, og hann heyrði bæn vora og sendi engil, og leiddi hann oss brott af Egyptalandi. Og sjá, nú erum vér í Kades, borginni við landamæri þín.17 Leyf oss að fara um land þitt. Eigi munum vér fara yfir akra né víngarða, og eigi munum vér drekka vatn úr brunnum, heldur munum vér fara Konungsveg og eigi hneigja af til hægri handar eða vinstri, þar til er vér erum komnir út úr landi þínu."18 En Edóm svaraði honum: "Eigi mátt þú fara um land mitt, ella mun ég fara í móti þér með sverði."19 Þá sögðu Ísraelsmenn við hann: "Vér munum þræða brautarveginn, og ef vér drekkum af vatni þínu, ég og fénaður minn, þá mun ég fé fyrir gjalda. Hér er eigi til meira mælst en að ég megi fara um fótgangandi."20 En hann sagði: "Eigi mátt þú fara um landið." Og Edóm fór í móti honum með miklu liði og sterkri hendi.21 Og er Edóm skoraðist undan að leyfa Ísrael yfirför um land sitt, þá sneri Ísrael af leið frá honum.

22 Nú lögðu þeir upp frá Kades, og Ísraelsmenn, allur söfnuðurinn, komu til fjallsins Hór.23 Og Drottinn talaði við Móse og Aron á Hórfjalli, við landamæri Edómlands, og sagði:24 "Aron skal safnast til fólks síns, því að eigi skal hann komast í það land, sem ég hefi gefið Ísraelsmönnum, af því að þið þrjóskuðust gegn skipan minni hjá Meríbavötnum.25 Tak þú Aron og Eleasar son hans og leið þá upp á Hórfjall.26 Fær þú Aron úr klæðum sínum og skrýð Eleasar son hans þeim, en Aron skal safnast til fólks síns og deyja þar."27 Móse gjörði svo sem Drottinn bauð honum, og þeir gengu upp á Hórfjall í augsýn alls fólksins.28 Og Móse færði Aron úr klæðum hans og skrýddi Eleasar son hans þeim. Og Aron dó þar á háfjallinu. Gengu þeir Móse og Eleasar þá niður af fjallinu.29 En er allt fólkið sá, að Aron var andaður, grétu allir Ísraelsmenn Aron þrjátíu daga.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile