Lectionary Calendar
Wednesday, December 25th, 2024
Christmas Day
Attention!
Take your personal ministry to the Next Level by helping StudyLight build churches and supporting pastors in Uganda.
Click here to join the effort!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Fjórða Mósebók 18

1 Drottinn sagði við Aron: "Þú og synir þínir og ættleggur feðra þinna með þér skulu sæta hegningu fyrir það, sem brotið er á móti helgidóminum, og þú og synir þínir með þér skuluð sæta hegningu fyrir það, sem yður verður á í prestsembætti yðar.2 Þú skalt taka með þér bræður þína, kynkvísl Leví, ættkvísl föður þíns. Þeir skulu vera þér við hönd og þjóna þér, þegar þú og synir þínir með þér eruð frammi fyrir sáttmálstjaldinu.3 Og þeir skulu gegna því, er við þarf við þína þjónustu og við þjónustu alls tjaldsins. Þó skulu þeir eigi koma nærri hinum helgu áhöldum né altarinu, ella munu þeir deyja, bæði þeir og þér.4 Og þeir skulu vera þér við hönd og annast það, sem annast þarf við samfundatjaldið, alla þjónustu við tjaldið, en eigi skal óvígður maður koma til yðar.5 En þér skuluð annast það, sem annast þarf í helgidóminum og við altarið, svo að eigi komi reiði framar yfir Ísraelsmenn.6 Og sjá, ég hefi tekið bræður yðar, levítana, úr Ísraelsmönnum sem gjöf yður til handa, sem þá, er gefnir hafa verið Drottni, til þess að gegna þjónustu við samfundatjaldið.7 En þú og synir þínir með þér skuluð annast prestsembætti yðar í öllum þeim hlutum, er varða altarið og þjónustuna fyrir innan fortjaldið, þar skuluð þér gegna þjónustu. Ég fel yður prestdóminn og veiti yður þá þjónustu að gjöf. Komi nokkur annar þar nærri, skal hann lífi týna."

8 Drottinn sagði við Aron: "Sjá, ég gef þér það, sem varðveitast á af fórnargjöfum mínum. Af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna gef ég þér og sonum þínum þær í þeirra hlut. Er það ævinleg skyldugreiðsla.9 Þetta skal heyra þér af hinum háhelgu gjöfum, að því fráteknu, sem brenna skal: Allar fórnargjafir þeirra, bæði matfórnir, syndafórnir og sektarfórnir, er þeir færa mér í bætur. Eru þær háhelgar, og skulu heyra þér og sonum þínum.10 Þú skalt eta þær á háhelgum stað. Allt karlkyn skal eta þær. Skulu þær vera þér heilagar.11 Og þetta skal heyra þér sem fórnargjöf af öðrum gjöfum þeirra, af öllum veififórnum Ísraelsmanna: Ég gef þér þær, og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta þær.12 Allt hið besta af olíunni og allt hið besta af aldinleginum og korninu, frumgróðann af því - það er þeir gefa Drottni - það hefi ég gefið þér.13 Frumgróðinn af öllu því, er vex í landi þeirra og þeir færa Drottni, skal heyra þér. Allir hreinir menn í húsi þínu skulu eta hann.14 Sérhver hlutur bannfærður í Ísrael skal heyra þér.15 Allt það sem opnar móðurlíf, af öllu holdi, er menn færa Drottni, hvort heldur er menn eða skepnur, skal heyra þér. Þó skalt þú leysa láta frumburði manna, og frumburði óhreinna dýra skalt þú og leysa láta.16 Og að því er snertir lausnargjald þeirra, þá skalt þú láta leysa þá, úr því þeir eru mánaðargamlir, eftir mati þínu, með fimm siklum, eftir helgidómssikli, tuttugu gerur í sikli.17 En frumburði af nautum, sauðum eða geitum skalt þú ekki leysa láta. Þeir eru heilagir. Blóði þeirra skalt þú stökkva á altarið, og mörinn úr þeim skalt þú brenna sem eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.18 En kjötið af þeim skal heyra þér. Það skal heyra þér, eins og veifibringan og hægra lærið.19 Allar fórnargjafir af helgigjöfunum, sem Ísraelsmenn færa Drottni, hefi ég gefið þér og sonum þínum og dætrum með þér. Er það ævinleg skyldugreiðsla. Það er ævinlegur sáttmáli, helgaður með salti, fyrir augliti Drottins fyrir þig og niðja þína ásamt þér."

20 Drottinn sagði við Aron: "Þú skalt ekkert óðal eignast í landi þeirra og ekki eiga hlutskipti meðal þeirra. Ég er hlutskipti þitt og óðal þitt meðal Ísraelsmanna.21 Og sjá, ég gef levítunum alla tíund í Ísrael til eignar fyrir þjónustuna, er þeir inna af hendi, þjónustuna við samfundatjaldið.22 Og Ísraelsmenn skulu eigi framar koma nærri samfundatjaldinu, svo að þeir baki sér ekki synd og deyi.23 Heldur skulu levítarnir gegna þjónustu við samfundatjaldið, og skulu sæta hegningu fyrir það, sem þeim verður á. Skal það vera ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns, en þeir skulu ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna.24 Því að tíund Ísraelsmanna, er þeir færa Drottni að fórnargjöf, hefi ég gefið levítunum til eignar, þess vegna hefi ég sagt þeim, að þeir skuli ekki eiga óðul meðal Ísraelsmanna."25 Drottinn talaði við Móse og sagði:26 "Þú skalt tala við levítana og segja við þá: Þegar þér meðtakið tíundina frá Ísraelsmönnum, er ég hefi gefið yður til eignar og þeir skulu greiða yður, þá skuluð þér færa Drottni fórnargjöf af henni, tíund af tíundinni.27 Og þessi fórnargjöf yðar skal reiknast yður sem væri það korn af láfanum eða gnótt úr vínþrönginni.28 Þannig skuluð og þér færa Drottni fórnargjöf af allri þeirri tíund, er þér meðtakið frá Ísraelsmönnum, og af henni skuluð þér fá Aroni presti fórnargjöf Drottins.29 Af öllu því, sem yður gefst, skuluð þér færa Drottni fórnargjöf, af öllu hinu besta af því, helgigjöfina, sem af því skal fram bera.30 Og þú skalt segja við þá: Þegar þér hafið fram borið hið besta af því, þá skal hitt reiknast levítunum sem afurðir úr láfanum eða afurðir úr vínþrönginni.31 Þér megið eta það hvar sem þér viljið, bæði þér og skyldulið yðar, því að það eru laun yðar fyrir þjónustu yðar við samfundatjaldið.32 Og þér munuð ekki baka yður synd vegna þess, ef þér fram berið hið besta af því, og þá munuð þér eigi vanhelga helgigjafir Ísraelsmanna og eigi deyja."

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile