the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Fjórða Mósebók 13
1 Drottinn talaði við Móse og sagði:2 "Send þú menn til að kanna Kanaanland, er ég mun gefa Ísraelsmönnum. Þér skuluð senda einn mann af ættkvísl hverri, og sé hver þeirra höfðingi meðal þeirra."3 Og Móse sendi þá úr Paran-eyðimörk að boði Drottins. Þeir menn voru allir höfuðsmenn meðal Ísraelsmanna,4 og þessi eru nöfn þeirra: Af ættkvísl Rúbens: Sammúa Sakkúrsson.5 Af ættkvísl Símeons: Safat Hóríson.6 Af ættkvísl Júda: Kaleb Jefúnneson.7 Af ættkvísl Íssakars: Jígeal Jósefsson.8 Af ættkvísl Efraíms: Hósea Núnsson.9 Af ættkvísl Benjamíns: Paltí Rafúson.10 Af ættkvísl Sebúlons: Gaddíel Sódíson.11 Af ættkvísl Jósefs, af ættkvísl Manasse: Gaddí Súsíson.12 Af ættkvísl Dans: Ammíel Gemallíson.13 Af ættkvísl Assers: Setúr Míkaelsson.14 Af ættkvísl Naftalí: Nakbí Vofsíson.15 Af ættkvísl Gaðs: Geúel Makíson.16 Þessi eru nöfn þeirra manna, sem Móse sendi til að kanna landið. En Móse kallaði Hósea Núnsson Jósúa.17 Móse sendi þá til að kanna Kanaanland og sagði við þá: "Farið þér inn í Suðurlandið og gangið á fjöll upp18 og skoðið landið, hvernig það er, og fólkið, sem í því býr, hvort það er hraustlegt eða veiklegt, fátt eða margt,19 og hvernig landið er, sem það býr í, hvort það er gott eða illt, og hvernig bæirnir eru, sem það býr í, hvort það eru tjöld eða víggirtar borgir,20 og hvernig landið er, hvort það er feitt eða magurt, hvort þar eru skógar eða ekki. Og verið hugrakkir og komið með nokkuð af ávöxtum landsins." En þetta var á öndverðum vínberjatíma.
21 Héldu þeir nú norður eftir og könnuðu landið frá Síneyðimörk allt til Rehób, þangað sem leið liggur til Hamat.22 Þeir fóru inn í Suðurlandið og komu til Hebron. Þar voru þeir Ahíman, Sesaí og Talmaí Anakssynir (en Hebron var reist sjö árum fyrr en Sóan í Egyptalandi).23 Þeir komu í Eskóldal og sniðu þar af vínviðargrein með einum vínberjaklasa og báru hann tveir á stöng milli sín, þar að auki nokkur granatepli og nokkrar fíkjur.24 Var staður þessi kallaður Eskóldalur vegna klasans, sem Ísraelsmenn skáru þar af.25 Þeir sneru aftur að fjörutíu dögum liðnum og höfðu þá kannað landið.
26 Og þeir héldu heimleiðis og komu til Móse og Arons og alls safnaðar Ísraelsmanna í Paran-eyðimörk, til Kades, og sögðu þeim og öllum söfnuðinum af ferðum sínum og sýndu þeim ávöxtu landsins.27 Þeir sögðu Móse frá og mæltu: "Vér komum í landið, þangað sem þú sendir oss, og að sönnu flýtur það í mjólk og hunangi, og þetta er ávöxtur þess.28 En það er hraust þjóð, sem í landinu býr, og borgirnar eru víggirtar og stórar mjög, og Anaks sonu sáum vér þar einnig.29 Amalekítar byggja Suðurlandið, og Hetítar, Jebúsítar og Amorítar byggja fjalllendið, og Kanaanítar búa við sjóinn og meðfram Jórdan."30 Kaleb stöðvaði kurr lýðsins gegn Móse og mælti: "Förum þangað og leggjum það undir oss, því að vér munum fá unnið það."31 En þeir menn, er með honum höfðu farið, sögðu: "Oss er ofvaxið að fara mót þessari þjóð, því að hún er sterkari en vér."32 Og þeir sem kannað höfðu landið, sögðu Ísraelsmönnum illt af því og mæltu: "Landið, sem vér fórum um til þess að kanna það, er land sem etur upp íbúa sína, og allt fólkið, sem vér sáum þar, eru risavaxnir menn.33 Og vér sáum þar risa, Anakssonu, sem eru risa ættar, og vér vorum í augum sjálfra vor sem engisprettur, og eins vorum vér í þeirra augum."