Lectionary Calendar
Wednesday, December 25th, 2024
Christmas Day
Attention!
StudyLight.org has pledged to help build churches in Uganda. Help us with that pledge and support pastors in the heart of Africa.
Click here to join the effort!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Nehemíabók 13

1 Þann dag var lesið upp úr Mósebók fyrir lýðnum, og fannst þá skrifað í henni, að hvorki Ammóníti né Móabíti mættu nokkru sinni koma í söfnuð Guðs,2 vegna þess að þeir komu ekki í móti Ísraelsmönnum með brauð og vatn og keyptu í móti þeim Bíleam til að bölva þeim, en Guð vor sneri bölvaninni í blessan.3 Og er þeir heyrðu lögmálið, skildu þeir alla útlendinga úr Ísrael.4 Áður en þetta varð, hafði Eljasíb prestur, frændi Tobía, sá er settur var yfir herbergi musteris Guðs vors,5 látið útbúa stórt herbergi handa Tobía, en þar höfðu menn áður látið matfórnina, reykelsið og áhöldin og tíund af korni, aldinlegi og olíu, hið fyrirskipaða gjald til levíta, söngvara og hliðvarða, svo og fórnargjafir til prestanna.6 Meðan allt þetta gjörðist, var ég ekki í Jerúsalem, því að á þrítugasta og öðru ríkisári Artahsasta konungs í Babýlon fór ég til konungsins. En að nokkrum tíma liðnum beiddist ég orlofs af konungi.7 Og er ég kom til Jerúsalem, sá ég hvílíka óhæfu Eljasíb hafði gjört vegna Tobía með því að útbúa handa honum klefa í forgörðum Guðs musteris.8 Mér mislíkaði þetta stórum, og kastaði ég öllum húsgögnum Tobía út úr herberginu9 og bauð að hreinsa herbergin, bar síðan aftur inn þangað áhöld Guðs musteris, matfórnina og reykelsið.

10 Ég komst og að því, að greiðslurnar til levítanna höfðu eigi verið inntar af hendi, svo að levítarnir og söngvararnir, er þjónustunni áttu að gegna, voru allir flúnir út á lendur sínar.11 Þá taldi ég á yfirmennina og sagði: "Hvers vegna er hús Guðs yfirgefið?" Og ég stefndi þeim saman og setti þá á sinn stað.12 Þá færðu allir Júdamenn tíundina af korni, aldinlegi og olíu í forðabúrin,13 og ég skipaði yfir forðabúrin þá Selemja prest og Sadók fræðimann, og Pedaja af levítunum, og þeim til aðstoðar Hanan Sakkúrsson, Mattanjasonar, því að þeir voru taldir áreiðanlegir og það var þeirra skylda að útdeila bræðrum sínum.14 Mundu mér þetta, Guð minn, og afmá eigi góðverk mín, þau er ég hefi gjört fyrir hús Guðs míns og þjónustu hans.

15 Um sömu mundir sá ég í Júda menn vera að troða vínlagarþrær á hvíldardegi og flytja heim kornbundin og aðra vera að klyfja asna víni, vínberjum, fíkjum og alls konar þungavöru og koma með þá á hvíldardegi til Jerúsalem. Og ég áminnti þá, þegar þeir seldu matvæli.16 Og Týrusmenn, sem sest höfðu þar að, fluttu þangað fisk og alls konar torgvöru og seldu Júdamönnum það á hvíldardögum í Jerúsalem.17 Þá taldi ég á tignarmenn Júda og sagði við þá: "Hvílík óhæfa er það, sem þér hafið í frammi, að vanhelga hvíldardaginn!18 Hafa eigi feður yðar breytt svo og Guð vor þess vegna látið alla þessa ógæfu yfir oss dynja og yfir þessa borg? En þér aukið enn meir á reiði hans við Ísrael með því að vanhelga hvíldardaginn."19 Og þegar myrkt var orðið í borgarhliðum Jerúsalem og hvíldardagur fór í hönd, þá bauð ég að loka skyldi hliðunum, og enn fremur bauð ég að eigi skyldi opna þau aftur fyrr en að hvíldardeginum liðnum. Og ég setti nokkra af sveinum mínum við borgarhliðin, til þess að engin þungavara kæmi inn á hvíldardegi.20 Þá náttuðu kaupmenn og þeir, er seldu alls konar torgvöru, fyrir utan Jerúsalem, einu sinni eða tvisvar.21 Þá áminnti ég þá og sagði við þá: "Hví náttið þér úti fyrir borgarmúrunum? Ef þér gjörið það oftar, legg ég hendur á yður." Upp frá því komu þeir ekki á hvíldardegi.22 Þá bauð ég levítunum, að þeir skyldu hreinsa sig og koma síðan og gæta borgarhliðanna, til þess að helga þannig hvíldardaginn. Mundu mér og þetta, Guð minn, og þyrm mér af mikilli miskunn þinni.

23 Um þær mundir sá ég og Gyðinga, sem gengið höfðu að eiga konur frá Asdód eða ammónítískar eða móabítískar konur.24 Og börn þeirra töluðu að hálfu leyti asdódsku eða tungu sinnar þjóðar, en kunnu ekki að tala Júda-tungu.25 Og ég taldi á þá og bað þeim bölbæna, já, barði nokkra af þeim og hárreytti þá, og ég særði þá við Guð: "Þér skuluð ekki gifta dætur yðar sonum þeirra, né taka nokkra af dætrum þeirra til handa sonum yðar eða sjálfum yður.26 Syndgaði ekki Salómon, konungur Ísraels, í þessu? Meðal allra hinna mörgu þjóða var enginn konungur slíkur sem hann, og svo elskaður var hann af Guði, að Guð gjörði hann að konungi yfir öllum Ísrael. En einnig hann teygðu útlendar konur til syndar.27 Og eigum vér nú að heyra það um yður, að þér fremjið alla þessa miklu óhæfu, að sýna Guði vorum ótrúmennsku með því að ganga að eiga útlendar konur?"28 Og einn af sonum Jójada, Eljasíbssonar æðsta prests, var tengdasonur Sanballats Hóroníta. Fyrir því rak ég hann frá mér.29 Mundu þeim það, Guð minn, að þeir hafa saurgað prestdóminn og hið heilaga heit prestdómsins og levítanna.30 Og þannig hreinsaði ég þá af öllu útlendu, og ég ákvað, hvaða þjónustu prestarnir og levítarnir skyldu inna af hendi, hver í sínu verki,31 svo og hvernig greiða skyldi viðinn á tilteknum tímum og frumgróðann. Mundu mér það, Guð minn, til góðs.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile