Christmas Day
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Lúkasarguðspjall 10
1 Eftir þetta kvaddi Drottinn til aðra, sjötíu og tvo að tölu, og sendi þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til.2 Og hann sagði við þá: "Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.3 Farið! Ég sendi yður eins og lömb meðal úlfa.4 Hafið ekki pyngju, ekki mal né skó, og heilsið engum á leiðinni.5 Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ,Friður sé með þessu húsi.'6 Og sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum, ella hverfa aftur til yðar.7 Verið um kyrrt í sama húsi, neytið þess, sem þar er fram boðið í mat og drykk. Verður er verkamaðurinn launa sinna. Eigi skuluð þér flytjast hús úr húsi.8 Og hvar sem þér komið í borg og tekið er við yður, þá neytið þess, sem fyrir yður er sett.9 Læknið þá, sem þar eru sjúkir, og segið þeim: ,Guðs ríki er komið í nánd við yður.'10 En hvar sem þér komið í borg og eigi er við yður tekið, þá farið út á strætin og segið:11 ,Jafnvel það dust, sem loðir við fætur vora úr borg yðar, þurrkum vér af oss handa yður. Vitið samt þetta, að Guðs ríki er komið í nánd.'12 Ég segi yður: Bærilegra mun Sódómu á þeim degi en þeirri borg.13 Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þeir löngu iðrast og setið í sekk og ösku.14 En Týrus og Sídon mun bærilegra í dóminum en ykkur.15 Og þú Kapernaum! Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða.16 Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér. En sá sem hafnar mér, hafnar þeim er sendi mig."
17 Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: "Herra, jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni."18 En hann mælti við þá: "Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu.19 Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun yður mein gjöra.20 Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum."21 Á sömu stundu varð hann glaður í heilögum anda og sagði: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.22 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn veit, hver sonurinn er, nema faðirinn, né hver faðirinn er, nema sonurinn og sá sem sonurinn vill opinbera hann."23 Og hann sneri sér að lærisveinum sínum og sagði við þá einslega: "Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið.24 Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki."
25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"26 Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."29 En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?"30 Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona.31 Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá.32 Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.33 En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann,34 gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.'36 Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?"37 Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum." Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."
38 Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim.39 Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans.40 En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: "Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér."41 En Drottinn svaraði henni: "Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu,42 en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið."