Friday after Epiphany
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Þriðja Mósebók 15
1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:2 "Mælið til Ísraelsmanna og segið við þá: Nú hefir einhver rennsli úr hörundi sínu, og er hann óhreinn vegna rennslisins.3 Og skal svo vera um óhreinleika hans, þá er hann hefir rennsli: Hvort sem rennslið úr hörundi hans gengur út eða stemmist, þá er hann óhreinn.4 Sérhver hvíla skal óhrein vera, ef maður með rennsli hefir legið í henni, og sérhvað það skal óhreint vera, er hann situr á.5 Og hver sem snertir hvílu hans, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.6 Og sá er sest á nokkuð það, sem maður með rennsli hefir setið á, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.7 Og sá sem snertir líkama þess, er rennsli hefir, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.8 Hræki sá, er rennsli hefir, á hreinan mann, þá skal hann þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.9 Sérhver söðull skal óhreinn vera, ef maður með rennsli ríður í honum.10 Og hver sá, er snertir eitthvað það, sem hefir verið undir honum, skal vera óhreinn til kvelds, og sá, er ber það, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.11 Og hver sá, er maður með rennsli hefir snortið, og hafi hann eigi skolað hendur sínar í vatni, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.12 Og leirker skal brjóta, ef maður með rennsli snertir það, en tré-ílát öll skola í vatni.13 Er sá, er rennsli hefir, verður hreinn af rennsli sínu, skal hann telja sjö daga frá hreinsun sinni og þvo klæði sín og lauga líkama sinn í rennandi vatni, og er þá hreinn.14 Og á áttunda degi skal hann taka tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur og ganga fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins og færa þær presti.15 Og prestur skal fórna þeim, annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, og prestur skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni vegna rennslis hans.16 Nú lætur einhver sæði, og skal hann lauga allan líkama sinn í vatni og vera óhreinn til kvelds.17 Og hvert það fat eða skinn, sem sæðið hefir komið á, skal þvegið í vatni og vera óhreint til kvelds.18 Og leggist maður með konu og hafi samfarir við hana, þá skulu þau lauga sig í vatni og vera óhrein til kvelds.
19 Nú hefir kona rennsli, og rennslið úr holdi hennar er blóð, þá skal hún vera óhrein sjö daga, og hver sem snertir hana, skal vera óhreinn til kvelds.20 Allt það, sem hún liggur á, meðan hún er óhrein, skal vera óhreint, og allt, sem hún situr á, skal vera óhreint.21 Og hver sem snertir hvílu hennar, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.22 Og hver sem snertir nokkuð það, sem hún hefir setið á, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.23 Og snerti hann eitthvað, sem er í hvílunni eða á því, sem hún situr á, þá skal hann vera óhreinn til kvelds.24 Og ef einhver samrekkir henni og tíðablóð hennar kemur á hann, þá er hann óhreinn sjö daga, og hver sú hvíla skal óhrein vera, er hann liggur í.25 Nú missir kona blóð marga daga á öðrum tíma en þeim, er hún hefir tíðir, eða hún hefir rennsli fram yfir tíðir sínar, þá skal hún alla þá stund, er hún hefir óhreint rennsli, haga sér eins og þá daga, er hún hefir tíðir. Hún er óhrein.26 Hverja hvílu, sem hún liggur í alla þá stund, sem hún hefir rennsli, skal hún fara með eins og hvílu sína, þá er hún hefir tíðir, og sérhvað það, er hún situr á, skal vera óhreint, eins og þegar hún er óhrein af klæðaföllum.27 Hver sem snertir þetta, skal vera óhreinn, og hann skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.28 En þá er hún er hrein orðin af rennsli sínu, skal hún telja sjö daga, og eftir það er hún hrein.29 Og á áttunda degi skal hún taka sér tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur og færa þær prestinum að dyrum samfundatjaldsins.30 Og prestur skal fórna annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, og prestur skal friðþægja fyrir hana frammi fyrir Drottni vegna hins óhreina rennslis hennar.31 Og þannig skuluð þér vara Ísraelsmenn við óhreinleika þeirra, að þeir deyi ekki í óhreinleika sínum, ef þeir saurga búð mína, sem er meðal þeirra."32 Þetta eru ákvæðin um þann, sem hefir rennsli, og þann, sem hefir sáðlát, svo að hann verður óhreinn af,33 og um konu, sem hefir tíðir, og þann, sem hefir rennsli, hvort heldur er karl eða kona, og um mann, sem samrekkir konu óhreinni.