Christmas Day
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Dómarabókin 21
1 Ísraelsmenn höfðu unnið eið í Mispa og sagt: "Enginn af oss skal gifta Benjamíníta dóttur sína."
2 Og lýðurinn fór til Betel, og þeir dvöldu þar fram á kveld fyrir augliti Guðs og hófu þar mikið harmakvein
3 og sögðu: "Drottinn, Ísraels Guð! Hví hefir þetta við borið í Ísrael, að nú skuli vanta eina ættkvíslina í Ísrael?"
4 Morguninn eftir reis lýðurinn árla og reisti þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum.
5 Því næst sögðu Ísraelsmenn: "Mun nokkur vera sá af öllum ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi komið upp hingað til Drottins með söfnuðinum?" Því að það hafði verið föstum svardögum bundið, að hver sá, er ekki kæmi upp til Drottins í Mispa, sá hinn sami skyldi lífi týna.
6 Og Ísraelsmenn tók sárt til Benjamíns bróður síns og þeir sögðu: "Nú er ein ættkvísl upphöggvin úr Ísrael!
7 Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim konur, sem eftir eru, þar eð vér höfum unnið Drottni eið að því að gifta þeim eigi neina af dætrum vorum?"
8 Þá sögðu þeir: "Er nokkur sá af ættkvíslum Ísraels, er ekki hafi farið upp til Drottins í Mispa?" Og sjá, frá Jabes í Gíleað hafði enginn komið í herbúðirnar til samkomunnar.
9 Fór nú fram liðskönnun, og sjá, enginn var þar af íbúum Jabes í Gíleað.
10 Þá sendi lýðurinn þangað tólf þúsundir hraustra manna og lagði svo fyrir þá: "Farið og fellið íbúana í Jabes í Gíleað með sverðseggjum, ásamt konum og börnum.
11 En þannig skuluð þér að fara: Alla karlmenn og allar konur, er samræði hafa átt við mann, skuluð þér banni helga, en meyjar skuluð þér láta lífi halda." Þeir gjörðu svo.
12 Og þeir fundu meðal íbúanna í Jabes í Gíleað fjögur hundruð meyjar, er eigi höfðu samræði átt við mann, og þeir fóru með þær til herbúðanna í Síló, sem er í Kanaanlandi.
13 Þá sendi allur lýðurinn og lét tala við Benjamíns sonu, þá er voru hjá Rimmónkletti, og bauð þeim frið.
14 Þá hurfu Benjamínítar aftur og þeir gáfu þeim konur þær, er þeir höfðu látið lífi halda af konunum í Jabes í Gíleað. Þær voru þó ekki nógu margar handa þeim.
15 Lýðinn tók sárt til Benjamíns, því að Drottinn hafði höggvið skarð í ættkvíslir Ísraels.
16 Þá sögðu öldungar lýðsins: "Hvernig eigum vér að fara að því að útvega þeim, sem eftir eru, konur, því að konur hafa verið gjöreyddar úr Benjamín?"
17 Og þeir sögðu: "Hvernig mega þeir af Benjamínítum, er undan hafa komist, halda arfleifð sinni, svo að eigi verði ættkvísl afmáð úr Ísrael?
18 En ekki getum vér gift þeim neina af dætrum vorum." Því að Ísraelsmenn höfðu svarið: "Bölvaður sé sá, sem gefur Benjamín konu!"
19 Þá sögðu þeir: "Sjá, hátíð Drottins er árlega haldin í Síló, sem liggur fyrir norðan Betel, fyrir austan þjóðveginn, sem liggur frá Betel upp til Síkem, og fyrir sunnan Lebóna."
20 Og þeir lögðu svo fyrir Benjamíns sonu: "Farið og liggið í leyni í víngörðunum.
21 Og er þér sjáið Sílódætur ganga út til dansleika, þá skuluð þér spretta upp úr víngörðunum og ræna yður sinni konunni hver af Sílódætrum. Farið síðan heim í Benjamínsland.
22 En þegar feður þeirra eða bræður koma að kæra þetta fyrir oss, þá skulum vér segja við þá: ,Gefið oss þær, því að vér fengum engar konur í stríðinu. Þér hafið ekki heldur gefið þeim þær. Ef svo væri, þá væruð þér sekir.'"
23 Benjamíns synir gjörðu svo og tóku sér konur, eins og þeir voru margir til, meðal dansmeyjanna, sem þeir rændu. Síðan fóru þeir og hurfu aftur til óðals síns og reistu að nýju borgirnar og bjuggu í þeim.
24 Þá fóru og Ísraelsmenn þaðan, hver til sinnar kynkvíslar og sinnar ættar, og þeir héldu þaðan hver til óðals síns.
25 Í þá daga var enginn konungur í Ísrael. Hver maður gjörði það, sem honum vel líkaði.