Christmas Day
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Dómarabókin 16
1 Samson fór til Gasa. Þar sá hann portkonu eina og gekk inn til hennar.
2 Þá var Gasabúum sagt svo frá: "Samson er hér kominn." En þeir umkringdu hann og gjörðu honum fyrirsát alla nóttina í borgarhliðinu, en höfðu þó hljótt um sig alla nóttina, með því að þeir hugsuðu: Þegar birtir af degi, skulum vér drepa hann.
3 En Samson svaf til miðrar nætur. En um miðja nótt reis hann á fætur, þreif hurðirnar á borgarhliðinu, ásamt báðum dyrastöfunum, og kippti þeim upp ásamt slagbrandinum og lagði á herðar sér og bar þær efst upp á fjallið, sem er gegnt Hebron.
4 Eftir þetta bar svo við, að Samson felldi ástarhug til konu einnar í Sórekdal. Hún hét Dalíla.
5 Höfðingjar Filista komu til hennar og sögðu við hana: "Ginn þú hann og komstu að því, í hverju hið mikla afl hans er fólgið og með hverju móti vér fáum yfirbugað hann, svo að vér getum bundið hann og þjáð hann, og munum vér gefa þér hver um sig eitt þúsund sikla silfurs og hundraði betur."
6 Dalíla sagði þá við Samson: "Seg mér, í hverju hið mikla afl þitt er fólgið og með hverju þú verður bundinn, svo að menn eigi alls kostar við þig."
7 Samson svaraði henni: "Ef menn binda mig með sjö nýjum strengjum, sem ekki eru þurrir orðnir, þá gjörist ég linur og verð eins og hver annar maður."
8 Þá færðu höfðingjar Filista henni sjö nýja strengi, sem ekki voru þurrir orðnir, og hún batt hann með þeim.
9 En mennina, er um hann sátu, hafði hún hjá sér í svefnhúsinu. Því næst sagði hún við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá sleit hann sundur strengina, eins og hörþráður slitnar sundur, er hann kennir elds, og ekki varð komist fyrir afl hans.
10 Þá sagði Dalíla við Samson: "Sjá, þú hefir blekkt mig og logið að mér! Seg mér nú, með hverju þú verður bundinn."
11 Hann svaraði henni: "Ef menn binda mig með nýjum reipum, sem ekki hafa verið höfð til neinnar vinnu, þá gjörist ég linur og verð sem hver annar maður."
12 Þá tók Dalíla ný reipi og batt hann með þeim og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" og mennirnir, er um hann sátu, voru í svefnhúsinu. En hann sleit þau af armleggjum sér sem þráður væri.
13 Og Dalíla sagði við Samson: "Enn hefir þú blekkt mig og logið að mér. Seg mér, með hverju þú verður bundinn." En hann sagði við hana: "Ef þú vefur hárlokkana sjö á höfði mér saman við uppistöðuna í vef."
14 Og hún festi þá með nagla og sagði við hann: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og kippti út vefjarnaglanum og uppistöðunni.
15 Þá sagði hún við hann: "Hvernig getur þú sagt: Ég elska þig! þar sem þú ert ekki einlægur við mig? Þrisvar sinnum hefir þú nú blekkt mig og ekki sagt mér, í hverju hið mikla afl þitt sé fólgið."
16 En er hún nauðaði á honum alla daga með orðum sínum og gekk á hann fastlega, þá varð hann dauðleiður á því
17 og sagði henni allt hjarta sitt og mælti til hennar: "Aldrei hefir rakhnífur komið á höfuð mitt, því að ég er Guði helgaður í frá móðurlífi. Væri nú hár mitt skorið, þá hyrfi afl mitt frá mér og ég gjörðist linur og yrði sem allir menn aðrir."
18 Þegar Dalíla sá, að hann hafði sagt henni allt hjarta sitt, þá sendi hún og lét kalla höfðingja Filista, og lét hún segja þeim: "Nú skuluð þér koma, því að hann hefir sagt mér allt hjarta sitt." Þá fóru höfðingjar Filista til hennar og höfðu silfrið með sér.
19 En hún svæfði hann á skauti sínu og kallaði á mann og lét hann skera hárlokkana sjö af höfði honum. Og hún tók að þjá hann, en afl hans var frá honum horfið.
20 Þá sagði hún: "Filistar yfir þig, Samson!" Þá vaknaði hann af svefninum og hugsaði: Ég slepp í þetta sinn sem hin fyrri og slít mig lausan! En hann vissi ekki, að Drottinn var vikinn frá honum.
21 Filistar tóku hann höndum og stungu úr honum augun og fóru með hann niður til Gasa og bundu hann eirfjötrum, og varð hann að draga kvörn í dýflissunni.
22 En höfuðhár hans tók aftur að vaxa, eftir að það hafði verið skorið.
23 Nú söfnuðust höfðingjar Filista saman til þess að færa Dagón, guði sínum, fórn mikla og til þess að gjöra sér glatt, með því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið Samson, óvin vorn, í vorar hendur."
24 Og er fólkið sá hann, vegsömuðu þeir guð sinn, því að þeir sögðu: "Guð vor hefir gefið óvin vorn í vorar hendur, hann sem eytt hefir land vort og drepið hefir marga menn af oss."
25 En er þeir nú gjörðust glaðir, sögðu þeir: "Látið sækja Samson, til þess að hann skemmti oss." Létu þeir nú sækja Samson úr dýflissunni, og varð hann að skemmta þeim. Og þeir höfðu sett hann milli súlnanna.
26 Þá sagði Samson við sveininn, sem leiddi hann: "Slepptu mér og leyfðu mér að þreifa á súlunum, sem húsið hvílir á, svo að ég geti stutt mig upp við þær."
27 En húsið var fullt af körlum og konum. Þar voru og allir höfðingjar Filista, og uppi á þakinu voru um þrjú þúsund karla og kvenna, sem horfðu á, er Samson skemmti.
28 Þá hrópaði Samson til Drottins og sagði: "Drottinn Guð! Minnstu mín! Styrk mig nú, Guð, í þetta eina sinn, svo að ég geti hefnt mín á Filistum fyrir bæði augun mín í einu!"
29 Því næst þreif Samson í báðar miðsúlurnar, sem húsið hvíldi á, hægri hendinni í aðra og vinstri hendinni í hina, og treysti á.
30 Þá mælti Samson: "Deyi nú sála mín með Filistum!" Síðan lagðist hann á af öllu afli, svo að húsið féll ofan á höfðingjana og allt fólkið, er í því var, og þeir dauðu, sem hann drap um leið og hann beið bana, voru fleiri en þeir, er hann hafði drepið um ævina.
31 Bræður hans fóru ofan og allt ættfólk hans, og tóku þeir hann og fóru upp þaðan með hann og jörðuðu hann millum Sorea og Estaól, í gröf Manóa föður hans. En hann hafði verið dómari í Ísrael í tuttugu ár.