the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Jósúabók 8
1 Drottinn sagði við Jósúa: "Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast. Tak með þér allt herliðið, og tak þig upp og far til Aí. Sjá, ég mun gefa konunginn í Aí, fólk hans, borg og land í þínar hendur.2 Og þú skalt fara með Aí og konung hennar eins og þú fórst með Jeríkó og konung hennar. Þó megið þér taka herfang það og fénað þann, sem þar er, yður til handa. Settu launsátur að baki borgarinnar."
3 Þá tók Jósúa sig upp með allt herliðið og hélt til Aí. En Jósúa valdi nú þrjátíu þúsundir hraustra manna og sendi þá af stað um nóttina4 og lagði svo fyrir þá: "Sjáið til! Þér skuluð liggja í launsátri að baki borgarinnar, en verið ekki mjög langt frá borginni og verið allir viðbúnir.5 Sjálfur mun ég fara til borgarinnar með alla mína menn, og er þeir fara út í móti oss, eins og hið fyrra sinnið, munum vér flýja undan þeim.6 Og þeir munu veita oss eftirför, uns vér höfum teygt þá burt frá borginni, því að þeir munu segja: ,Nú flýja þeir fyrir oss, eins og hið fyrra sinnið,' og vér munum flýja fyrir þeim.7 Þá skuluð þér spretta upp úr launsátrinu og taka borgina, því að Drottinn, Guð yðar, mun gefa hana á yðar vald.8 En er þér hafið tekið borgina herskildi, skuluð þér leggja eld í borgina. Gjörið það, sem Drottinn segir. Gefið nú gætur að; ég hefi boðið yður það."9 Sendi Jósúa þá nú af stað, og fóru þeir í launsátrið og námu staðar milli Betel og Aí, vestanvert við Aí. En Jósúa hafðist við um nóttina meðal lýðsins.
10 Morguninn eftir reis Jósúa árla og kannaði liðið. Fór hann því næst sjálfur og öldungar Ísraels fyrir liðinu upp til Aí.11 Og allt herliðið, sem með honum var, fór upp þangað. Héldu þeir fram, þar til er þeir komu gegnt borginni. Þar settu þeir herbúðir sínar fyrir norðan Aí, og var dalurinn milli þeirra og Aí.12 Því næst tók hann um fimm þúsundir manns og setti þá í launsátur milli Betel og Aí, vestanvert við borgina.13 Þeir fylktu nú liðinu, öllum hernum, sem var fyrir norðan borgina, og afturliðinu fyrir vestan borgina. En Jósúa fór þessa sömu nótt ofan í dalinn miðjan.14 Er konungurinn í Aí varð þessa vís, höfðu borgarmenn hraðan á, risu árla og fóru út í móti Ísrael til orustu, hann og allt hans lið, á ákveðnum stað gegnt Jórdandalnum. En hann vissi ekki, að honum var búin launsát að borgar baki.15 En Jósúa og allur Ísrael létust bíða ósigur fyrir þeim og flýðu á leið til eyðimerkurinnar.16 Voru þá allir menn, er í borginni voru, kvaddir til að reka flóttann, og veittu þeir Jósúa eftirför og létu teygjast burt frá borginni.17 Varð enginn maður eftir í Aí og Betel, sá er eigi færi eftir Ísrael; skildu þeir eftir opna borgina og veittu Ísrael eftirför.18 Þá sagði Drottinn við Jósúa: "Rétt þú út spjót það, sem þú hefir í hendi þér, gegn Aí, því að ég mun gefa hana þér á vald." Og Jósúa rétti út spjótið, sem hann hafði í hendi sér, gegn borginni.19 Þá spratt launsátursliðið hratt upp úr stað sínum. Skunduðu þeir að, er hann rétti út höndina, fóru inn í borgina og tóku hana, lögðu því næst sem skjótast eld í borgina.20 En er Aí-menn sneru sér við, sáu þeir að reyk lagði upp af borginni til himins, og brast þá nú þróttur, svo að þeir máttu í hvoruga áttina flýja, og liðið, sem flúið hafði til eyðimerkurinnar, snerist nú í móti þeim, er rekið höfðu flóttann.21 En er Jósúa og allur Ísrael sáu, að launsátursliðið hafði tekið borgina og að reykinn lagði upp af borginni, þá hurfu þeir aftur og gjörðu áhlaup á Aí-menn.22 Hinir komu þá og úr borginni út í móti þeim, og urðu þeir nú milli Ísraelsmanna, sem umkringdu þá á alla vegu. Felldu þeir þá, svo að enginn var eftir skilinn, sá er undan kæmist eða forðaði lífi sínu.
23 En konunginum í Aí náðu þeir lifandi á sitt vald og fóru með hann til Jósúa.24 Er Ísrael hafði drepið alla Aí-búa úti á víðavangi, í eyðimörkinni, þangað sem þeir höfðu veitt þeim eftirför, og þeir voru allir fallnir fyrir sverðseggjum, svo að enginn þeirra var eftir, þá hurfu allir Ísraelsmenn aftur til Aí og felldu íbúana með sverðseggjum.25 Og allir þeir, sem féllu á þeim degi, bæði karlar og konur, voru tólf þúsund manns, allir Aí-búar.26 Jósúa dró ekki að sér höndina, sem hann hélt í spjótinu, uns hann hafði gjöreytt öllum Aí-búum.27 En fénaðinum og herfangi því, er í borginni var, rændu Ísraelsmenn sér til handa eftir boði Drottins, því er hann hafði lagt fyrir Jósúa.28 Jósúa brenndi Aí og gjörði hana að ævinlegri grjóthrúgu, eyðirúst, fram á þennan dag.29 Og konunginn í Aí lét hann hengja á tré og lét hann hanga til kvelds, en um sólarlagsbil bauð Jósúa að taka líkama hans ofan af trénu. Köstuðu þeir honum út fyrir borgarhliðið og gjörðu yfir hann steindys mikla, og er hún þar enn í dag.
30 Jósúa reisti Drottni, Ísraels Guði, altari á Ebalfjalli,31 eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið Ísraelsmönnum, samkvæmt því sem skrifað er í lögmálsbók Móse, altari af óhöggnum steinum, er járntól hafði ekki verið borið að. Og þeir fórnuðu Drottni brennifórnum á því og slátruðu heillafórnum.32 Og hann skrifaði þar á steinana eftirrit af lögmáli Móse, því er hann hafði skrifað í augsýn Ísraelsmanna.33 Og allur Ísrael, öldungar hans, tilsjónarmenn og dómarar stóðu báðumegin við örkina, gegnt levítaprestunum, er báru sáttmálsörk Drottins, bæði útlendir menn og innbornir, annar helmingurinn utan í Garísímfjalli og hinn helmingurinn utan í Ebalfjalli, samkvæmt því sem Móse, þjónn Drottins, hafði boðið, að blessa Ísraelslýð.34 Og eftir það las hann upp öll orð lögmálsins, blessunina og bannfæringuna, samkvæmt öllu því, sem skrifað er í lögmálsbókinni.35 Ekkert orð af því, er Móse hafði boðið, var úr fellt. Jósúa las það allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig fyrir konum og börnum og útlendingum þeim, er með þeim höfðu farið.