Lectionary Calendar
Saturday, November 23rd, 2024
the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Attention!
Take your personal ministry to the Next Level by helping StudyLight build churches and supporting pastors in Uganda.
Click here to join the effort!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Jeremía 32

1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á tíunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, það var átjánda ríkisár Nebúkadresars.2 Þá sat her Babelkonungs um Jerúsalem, en Jeremía spámaður var í varðhaldi í varðgarðinum, sem heyrir til hallar Júdakonungs.3 En Sedekía Júdakonungur hafði látið setja hann inn með þeim ummælum: "Hví spáir þú og segir: Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel þessa borg í hendur Babelkonungi, að hann vinni hana,4 og Sedekía Júdakonungur mun ekki komast undan valdi Kaldea, heldur mun hann áreiðanlega verða seldur á vald Babelkonungi, og hann mun tala við hann munni til munns og sjá hann augliti til auglitis,5 og til Babýlon mun hann flytja Sedekía, og þar mun hann verða, uns ég vitja hans - segir Drottinn. Þegar þér berjist við Kaldea, munuð þér enga sigurför fara?"6 Jeremía svaraði: "Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:7 Sjá, Hanameel, sonur Sallúms föðurbróður þíns, mun til þín koma og segja: ,Kaup þú akur minn í Anatót, því að þú átt innlausnarréttinn að kaupa hann.'8 Og Hanameel frændi minn kom til mín í varðgarðinn, eins og Drottinn hafði fyrir sagt, og sagði við mig: ,Kaup þú akur minn í Anatót, sem er í Benjamínslandi, því að þú átt erfða- og innlausnarréttinn - kaup þú hann!' Þá sá ég, að það var orð frá Drottni,9 keypti akurinn í Anatót af Hanameel frænda mínum og vó honum út andvirðið, seytján sikla silfurs.10 Og ég skrifaði það á bréf og innsiglaði það og tók votta að og vó silfrið á vog.11 Síðan tók ég kaupbréfið, hið innsiglaða - ákvæðin og skilmálana - og opna bréfið,12 og fékk kaupbréfið Barúk Neríasyni, Mahasejasonar, í viðurvist Hanameels frænda míns og í viðurvist vottanna, er skrifað höfðu undir kaupbréfið, í viðurvist allra þeirra Júdamanna, er sátu í varðgarðinum,13 og lagði svo fyrir Barúk í viðurvist þeirra:14 ,Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Tak þessi bréf, þetta innsiglaða kaupbréf og þetta opna kaupbréf, og legg þau í leirker, til þess að þau varðveitist lengi.15 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Enn skulu hús keypt verða og akrar og víngarðar í þessu landi.'

16 Og er ég hafði fengið Barúk Neríasyni kaupbréfið, bað ég til Drottins á þessa leið:17 ,Æ, herra Drottinn, sjá, þú hefir með þínum mikla mætti og útrétta armlegg gjört himin og jörð. Þér er enginn hlutur um megn!18 Þú sem auðsýnir miskunn þúsundum og geldur misgjörð feðranna í skaut sonum þeirra eftir þá, - þú mikli, voldugi Guð, er nefnist Drottinn allsherjar,19 mikill í ráðum og máttugur í athöfnum, þú hvers augu standa opin yfir öllum vegum mannanna barna til þess að gjalda sérhverjum eftir breytni hans og eftir ávexti verka hans,20 þú sem hefir gjört tákn og undur á Egyptalandi og allt fram á þennan dag, bæði á Ísrael og á öðrum mönnum, og afrekað þér mikið nafn fram á þennan dag.21 Þú fluttir þjóð þína Ísrael af Egyptalandi með táknum og undrum og með sterkri hendi og útréttum armlegg og mikilli skelfingu22 og gafst þeim þetta land, er þú sórst feðrum þeirra að gefa þeim, land, sem flýtur í mjólk og hunangi.23 En er þeir voru komnir inn í það og höfðu tekið það til eignar, þá hlýddu þeir ekki þinni raustu, breyttu ekki eftir lögmáli þínu og gjörðu ekki neitt af því, er þú hafðir boðið þeim að gjöra. Þá lést þú alla þessa ógæfu þeim að höndum bera.24 Sjá, sóknarvirkin eru þegar komin að borginni til að vinna hana, og borgin er fyrir sakir sverðs, hungurs og drepsóttar seld á vald Kaldea, sem á hana herja, og það, sem þú hótaðir, er fram komið, og sjá, þú horfir á það.25 Og þó sagðir þú við mig, herra Drottinn: "Kaup þér akurinn fyrir silfur og tak votta að!" - þótt borgin sé seld á vald Kaldea.'"

26 Þá kom orð Drottins til Jeremía:27 Sjá, ég er Drottinn, Guð alls holds. Er mér nokkur hlutur um megn?28 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég sel þessa borg á vald Kaldea og á vald Nebúkadresars Babelkonungs, að hann vinni hana,29 og Kaldear, sem herja á þessa borg, munu brjótast inn í hana, og leggja eld í þessa borg og brenna hana og húsin, þar sem þeir á þökunum færðu Baal reykelsisfórnir og færðu öðrum guðum dreypifórnir til þess að egna mig til reiði.30 Því að Ísraelsmenn og Júdamenn hafa frá æsku sinni verið vanir að gjöra það eitt, sem mér mislíkaði, því að Ísraelsmenn hafa aðeins egnt mig til reiði með handaverkum sínum - segir Drottinn.31 Já, þessi borg hefir verið mér tilefni til reiði og gremi frá þeim degi, er hún var reist, allt fram á þennan dag, svo að ég verð að taka hana burt frá augliti mínu,32 sökum allrar illsku Ísraelsmanna og Júdamanna, er þeir hafa í frammi haft til þess að egna mig til reiði, - konungar þeirra, höfðingjar þeirra, prestar þeirra og spámenn þeirra, Júdamenn og Jerúsalembúar.33 Þeir sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu, og þótt ég fræddi þá seint og snemma, þá hlýddu þeir ekki, svo að þeir tækju umvöndun.34 Heldur reistu þeir viðurstyggðir sínar upp í húsi því, sem kennt er við nafn mitt, til þess að saurga það.35 Þeir byggðu Baal fórnarhæðir í Hinnomssonar-dal, til þess að láta sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn Mólok til handa, - sem ég hefi ekki boðið þeim og mér hefir ekki í hug komið, að þeir mundu fremja slíka svívirðing, til þess að tæla Júda til syndar.36 Og nú - fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um þessa borg, er þér segið að seld sé á vald Babelkonungs með sverði, hungri og drepsótt:37 Sjá, ég safna þeim saman úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hefi rekið þá í reiði minni og heift og í mikilli gremi, og læt þá snúa aftur hingað og búa hér óhulta.38 Þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð,39 og ég vil gefa þeim eitt hjarta og eina breytni, svo að þeir óttist mig alla daga, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá.40 Og ég vil gjöra við þá eilífan sáttmála, að ég muni aldrei snúa frá þeim með velgjörðir mínar, og ég vil leggja ótta fyrir mér í hjörtu þeirra, til þess að þeir víki ekki frá mér.41 Og það skal verða unun mín að gjöra vel við þá, og ég mun gróðursetja þá í þessu landi í trúfesti, af öllu hjarta og af allri sálu.42 Því að svo segir Drottinn: Eins og ég hefi leitt yfir þessa þjóð alla þessa miklu óhamingju, svo leiði ég og yfir þá alla þá hamingju, sem ég heiti þeim.43 Og akrar munu aftur keyptir verða í þessu landi, sem þér segið um: "Það er auðn, mannlaust og skepnulaust! Það er selt á vald Kaldea!"44 Akra munu menn kaupa fyrir silfur og skrifa kaupbréf og innsigla og taka votta að, bæði í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í borgum Júda og í fjallborgunum og í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu, því að ég mun leiða heim aftur hina herleiddu menn þeirra - segir Drottinn.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile