Christmas Eve
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Jesaja 34
1 Gangið nær, þér þjóðir, að þér megið heyra! Hlýðið til, þér lýðir! Heyri það jörðin og allt, sem á henni er, jarðarkringlan og allt, sem á henni vex!2 Drottinn er reiður öllum þjóðunum og gramur öllum þeirra her. Hann hefir vígt þær dauðanum og ofurselt þær til slátrunar.3 Vegnum mönnum þeirra er burt kastað, og hrævadaunn stígur upp af líkum þeirra, og fjöllin renna sundur af blóði þeirra.4 Allur himinsins her hjaðnar, og himinninn vefst saman eins og bókfell. Allur hans her hrynur niður, eins og laufið fellur af vínviði og visin blöð af fíkjutré.5 Sverð mitt hefir drukkið sig drukkið á himnum, nú lýstur því niður til dóms yfir Edóm, þá þjóð, sem ég hefi vígt dauðanum.6 Sverð Drottins er alblóðugt, löðrandi af feiti, af blóði lamba og kjarnhafra, af nýrnamör úr hrútum, því að Drottinn heldur fórnarveislu í Bosra og slátrun mikla í Edómlandi.7 Villinautin hníga með þeim, og ungneytin með uxunum. Land þeirra flýtur í blóði, og jarðvegurinn er löðrandi af feiti.8 Því að nú er hefndardagur Drottins, endurgjaldsárið, til að reka réttar Síonar.
9 Lækirnir skulu verða að biki og jarðvegurinn að brennisteini, landið skal verða að brennandi biki.10 Það skal eigi slokkna nætur né daga, reykurinn af því skal upp stíga um aldur og ævi. Það skal liggja í eyði frá einni kynslóð til annarrar, enginn maður skal þar um fara að eilífu.11 Pelíkanar og stjörnuhegrar skulu fá það til eignar, náttuglur og hrafnar búa þar. Hann mun draga yfir það mælivað auðnarinnar og mælilóð aleyðingarinnar.12 Tignarmenn landsins kveðja þar eigi til konungskosningar, og allir höfðingjarnir verða að engu.13 Í höllunum munu þyrnar upp vaxa og klungrar og þistlar í víggirtum borgunum. Það mun verða sjakalabæli og strútsfuglagerði.14 Urðarkettir og sjakalar skulu koma þar saman og skógartröll mæla sér þar mót. Næturgrýlan ein skal hvílast þar og finna sér þar hæli.15 Stökkormurinn skal búa sér þar hreiður og klekja þar út, verpa þar eggjum og unga þeim út í skugganum. Gleður einar skulu flykkjast þar hver til annarrar.16 Leitið í bók Drottins og lesið: Ekkert af þessum dýrum vantar, ekkert þeirra saknar annars. Því að munnur Drottins hefir svo um boðið, og það er andi hans, sem hefir stefnt þeim saman.17 Hann hefir sjálfur kastað hlutum fyrir þau, og hönd hans hefir skipt landinu milli þeirra með mælivað. Þau munu eiga það um aldur og ævi og búa þar frá einni kynslóð til annarrar.