Lectionary Calendar
Saturday, November 23rd, 2024
the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Attention!
Take your personal ministry to the Next Level by helping StudyLight build churches and supporting pastors in Uganda.
Click here to join the effort!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Fyrsta Mósebók 41

1 Svo bar við að tveim árum liðnum, að Faraó dreymdi draum. Hann þóttist standa við Níl.2 Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, fallegar útlits og feitar á hold, og fóru að bíta sefgresið.3 Og sjá, á eftir þeim komu sjö aðrar kýr upp úr ánni, ljótar útlits og magrar á hold, og staðnæmdust hjá hinum kúnum á árbakkanum.4 Og kýrnar, sem ljótar voru útlits og magrar á hold, átu upp hinar sjö kýrnar, sem voru fallegar útlits og feitar á hold. Þá vaknaði Faraó.5 Og hann sofnaði aftur og dreymdi í annað sinn, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, þrýstileg og væn.6 Og sjá, sjö öx, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim.7 Og hin grönnu öxin svelgdu í sig þau sjö þrýstilegu og fullu. Þá vaknaði Faraó, og sjá, það var draumur.8 En um morguninn var honum órótt í skapi. Sendi hann því og lét kalla alla spásagnamenn Egyptalands og alla vitringa þess. Og Faraó sagði þeim drauma sína, en enginn gat ráðið þá fyrir Faraó.

9 Þá tók yfirbyrlarinn til máls og sagði við Faraó: "Ég minnist í dag synda minna.10 Faraó reiddist þjónum sínum og setti þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, mig og yfirbakarann.11 Þá dreymdi okkur sömu nóttina draum, mig og hann, sinn drauminn hvorn okkar, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu.12 Þar var með okkur hebreskur sveinn, þjónn hjá lífvarðarforingjanum. Honum sögðum við drauma okkar, og hann réð þá fyrir okkur. Hvorum fyrir sig réð hann eins og draumur hans þýddi.13 Og svo fór sem hann hafði ráðið okkur draumana, því að ég var aftur settur í embætti mitt, en hinn var hengdur."14 Þá sendi Faraó og lét kalla Jósef, og leiddu þeir hann í skyndi út úr myrkvastofunni. Því næst lét hann skera hár sitt og fór í önnur klæði, gekk síðan inn fyrir Faraó.15 Þá sagði Faraó við Jósef: "Mig hefir dreymt draum, og enginn getur ráðið hann. En það hefi ég af þér frétt, að þú ráðir hvern draum, sem þú heyrir."16 Þá svaraði Jósef Faraó og mælti: "Eigi er það á mínu valdi. Guð mun birta Faraó það, er honum má til heilla verða."

17 Faraó sagði við Jósef: "Mig dreymdi, að ég stæði á árbakkanum.18 Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits, og fóru að bíta sefgresið.19 Og sjá, á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold. Hefi ég engar séð jafn ljótar á öllu Egyptalandi.20 Og hinar mögru og ljótu kýrnar átu sjö fyrri feitu kýrnar.21 En er þær höfðu etið þær, var það ekki á þeim að sjá, að þær hefðu etið þær, heldur voru þær ljótar útlits sem áður. Þá vaknaði ég.22 Og ég sá í draumi mínum, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, full og væn.23 Og sjö öx kornlaus, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim.24 Og hin grönnu öxin svelgdu í sig sjö vænu öxin. Ég hefi sagt spásagnamönnunum frá þessu, en enginn getur úr leyst."25 Þá mælti Jósef við Faraó: "Draumur Faraós er einn. Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann boðað Faraó.26 Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár, og sjö vænu öxin merkja sjö ár. Þetta er einn og sami draumur.27 Og sjö mögru og ljótu kýrnar, sem á eftir hinum komu, merkja sjö ár, og sjö tómu öxin, sem skrælnuð voru af austanvindi, munu vera sjö hallærisár.28 Það er það, sem ég sagði við Faraó: Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann sýnt Faraó.29 Sjá, sjö ár munu koma. Munu þá verða miklar nægtir um allt Egyptaland.30 En eftir þau munu koma sjö hallærisár. Munu þá gleymast allar nægtirnar í Egyptalandi og hungrið eyða landið.31 Og eigi mun nægtanna gæta í landinu sakir hallærisins, sem á eftir kemur, því að það mun verða mjög mikið.32 En þar sem Faraó dreymdi tvisvar sinnum hið sama, þá er það fyrir þá sök, að þetta er fastráðið af Guði, og Guð mun skjótlega framkvæma það.

33 Fyrir því velji nú Faraó til hygginn og vitran mann og setji hann yfir Egyptaland.34 Faraó gjöri þetta og skipi umsjónarmenn yfir landið og taki fimmtung af afrakstri Egyptalands á sjö nægtaárunum.35 Og þeir skulu safna öllum vistum frá góðu árunum, sem fara í hönd, og draga saman kornbirgðir í borgirnar undir umráð Faraós og geyma.36 Og vistirnar skulu vera forði fyrir landið á sjö hallærisárunum, sem koma munu yfir Egyptaland, að landið farist eigi af hungrinu."37 Þetta líkaði Faraó vel og öllum þjónum hans.38 Og Faraó sagði við þjóna sína: "Munum vér finna slíkan mann sem þennan, er Guðs andi býr í?"39 Og Faraó sagði við Jósef: "Með því að Guð hefir birt þér allt þetta, þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú.40 Þig set ég yfir hús mitt, og þínum boðum skal öll mín þjóð hlýða. Að hásætinu einu skal ég þér æðri vera."41 Faraó sagði við Jósef: "Sjá, ég set þig yfir allt Egyptaland."42 Og Faraó tók innsiglishring sinn af hendi sér og dró á hönd Jósefs og lét færa hann í dýrindis línklæði og lét gullmen um háls honum.43 Og hann lét aka honum í öðrum vagni sínum, og menn hrópuðu fyrir honum: "Lútið honum!" - og hann setti hann yfir allt Egyptaland.44 Faraó sagði við Jósef: "Ég er Faraó, en án þíns vilja skal enginn hreyfa hönd eða fót í öllu Egyptalandi."45 Og Faraó kallaði Jósef Safenat-panea og gaf honum fyrir konu Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón. Og Jósef ferðaðist um Egyptaland.

46 Jósef var þrítugur að aldri, er hann stóð frammi fyrir Faraó, Egyptalandskonungi. Því næst fór Jósef burt frá augliti Faraós og ferðaðist um allt Egyptaland.47 Afrakstur landsins var afar mikill sjö nægtaárin.48 Þá safnaði hann saman öllum vistum þeirra sjö ára, er nægtir voru í Egyptalandi, og safnaði vistum í borgirnar. Í sérhverja borg safnaði hann vistunum af þeim ökrum, sem umhverfis hana voru.49 Og Jósef hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströndu, ákaflega miklu, þar til hann hætti að telja, því að tölu varð eigi á komið.50 Jósef fæddust tveir synir áður en fyrsta hallærisárið kom. Þá sonu fæddi honum Asenat, dóttir Pótífera, prests í Ón.51 Og Jósef nefndi hinn frumgetna Manasse, "því að Guð hefir," sagði hann, "látið mig gleyma öllum þrautum mínum og öllu húsi föður míns."52 En hinn nefndi hann Efraím, "því að Guð hefir," sagði hann, "gjört mig frjósaman í landi eymdar minnar."53 Og sjö nægtaárin, sem voru í Egyptalandi, liðu á enda,54 og sjö hallærisárin gengu í garð, eins og Jósef hafði sagt. Var þá hallæri í öllum löndum, en í öllu Egyptalandi var brauð.55 En er hungur gekk yfir allt Egyptaland, heimtaði lýðurinn brauð af Faraó. Þá sagði Faraó við alla Egypta: "Farið til Jósefs, gjörið það, sem hann segir yður."56 Og hungrið gekk yfir allan heiminn, og Jósef opnaði öll forðabúrin og seldi Egyptum korn, og hungrið svarf að í Egyptalandi.57 Komu menn þá úr öllum löndum til Egyptalands til þess að kaupa korn hjá Jósef, því að hungrið svarf að í öllum löndum.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile