Christmas Eve
free while helping to build churches and support pastors in Uganda.
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Fyrsta Mósebók 21
1 Drottinn vitjaði Söru, eins og hann hafði lofað, og Drottinn gjörði við Söru eins og hann hafði sagt.2 Og Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans, um þær mundir, sem Guð hafði sagt honum.3 Og Abraham gaf nafn syni sínum, þeim er honum fæddist, sem Sara fæddi honum, og kallaði hann Ísak.4 Abraham umskar Ísak son sinn, þá er hann var átta daga gamall, eins og Guð hafði boðið honum.5 En Abraham var hundrað ára gamall, þegar Ísak sonur hans fæddist honum.6 Sara sagði: "Guð hefir gjört mig að athlægi. Hver sem heyrir þetta, mun hlæja að mér."7 Og hún mælti: "Hver skyldi hafa sagt við Abraham, að Sara mundi hafa börn á brjósti, og þó hefi ég alið honum son í elli hans."8 Sveinninn óx og var vaninn af brjósti, og Abraham gjörði mikla veislu þann dag, sem Ísak var tekinn af brjósti.
9 En Sara sá son Hagar hinnar egypsku, er hún hafði fætt Abraham, að leik með Ísak, syni hennar.10 Þá sagði hún við Abraham: "Rek þú burt ambátt þessa og son hennar, því að ekki skal sonur þessarar ambáttar taka arf með syni mínum, með Ísak."11 En Abraham sárnaði þetta mjög vegna sonar síns.12 Þá sagði Guð við Abraham: "Lát þig ekki taka sárt til sveinsins og ambáttar þinnar. Hlýð þú Söru í öllu því, er hún segir þér, því að afkomendur þínir munu verða kenndir við Ísak.13 En ég mun einnig gjöra ambáttarsoninn að þjóð, því að hann er þitt afkvæmi."
14 Og Abraham reis árla næsta morgun, tók brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, en sveininn lagði hann á herðar henni og lét hana í burtu fara. Hún hélt þá af stað og reikaði um eyðimörkina Beerseba.15 En er vatnið var þrotið á leglinum, lagði hún sveininn inn undir einn runnann.16 Því næst gekk hún burt og settist þar gegnt við, svo sem í örskots fjarlægð, því að hún sagði: "Ég get ekki horft á að barnið deyi." Og hún settist þar gegnt við og tók að gráta hástöfum.17 En er Guð heyrði hljóð sveinsins, þá kallaði engill Guðs til Hagar af himni og mælti til hennar: "Hvað gengur að þér, Hagar? Vertu óhrædd, því að Guð hefir heyrt til sveinsins, þar sem hann liggur.18 Statt þú upp, reistu sveininn á fætur og leiddu hann þér við hönd, því að ég mun gjöra hann að mikilli þjóð."19 Og Guð lauk upp augum hennar, svo að hún sá vatnsbrunn. Fór hún þá og fyllti belginn vatni og gaf sveininum að drekka.20 Og Guð var með sveininum, og hann óx upp og hafðist við í eyðimörkinni og gjörðist bogmaður.21 Og hann hafðist við í Paraneyðimörk, og móðir hans tók honum konu af Egyptalandi.
22 Um sömu mundir bar svo til, að Abímelek og hershöfðingi hans Píkól mæltu þannig við Abraham: "Guð er með þér í öllu, sem þú gjörir.23 Vinn mér nú eið að því hér við Guð, að þú skulir eigi breyta sviksamlega, hvorki við mig né afkomendur mína. Þú skalt auðsýna mér og landinu, sem þú dvelst í sem útlendingur, hina sömu góðsemi og ég hefi auðsýnt þér."24 Og Abraham mælti: "Ég skal vinna þér eið að því."25 En Abraham átaldi Abímelek fyrir vatnsbrunninn, sem þrælar Abímeleks höfðu tekið með ofríki.26 Þá sagði Abímelek: "Ekki veit ég, hver það hefir gjört. Hvorki hefir þú sagt mér það né hefi ég heldur heyrt það fyrr en í dag."27 Þá tók Abraham sauði og naut og gaf Abímelek, og þeir gjörðu sáttmála sín í milli.28 Og Abraham tók frá sjö gimbrar af hjörðinni.29 Þá mælti Abímelek til Abrahams: "Hvað skulu þessar sjö gimbrar, sem þú hefir tekið frá?"30 Hann svaraði: "Við þessum sjö gimbrum skalt þú taka af minni hendi, til vitnis um að ég hefi grafið þennan brunn."31 Þess vegna heitir sá staður Beerseba, af því að þeir sóru þar báðir.32 Þannig gjörðu þeir sáttmála í Beerseba. Síðan tók Abímelek sig upp og Píkól hershöfðingi hans og sneru aftur til Filistalands.
33 Abraham gróðursetti tamarisk-runn í Beerseba og ákallaði þar nafn Drottins, Hins Eilífa Guðs.34 Og Abraham dvaldist lengi í Filistalandi.