Christmas Day
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Esekíel 23
1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:2 "Mannsson, konur voru tvær, dætur sömu móður.3 Þær frömdu hórdóm á Egyptalandi, þær hóruðust í æsku. Þar létu þær þukla um brjóst sér og þar fóru menn höndum um meyjarbarm þeirra.4 Hin eldri hét Ohola og systir hennar Oholíba. Og ég eignaðist þær báðar, og þær ólu sonu og dætur. Og Ohola hét síðar Samaría og Oholíba Jerúsalem.5 En Ohola tók fram hjá mér og brann af girnd til friðla sinna, til Assýringa, hinna nafntoguðu,6 sem klæddir voru bláum purpura, jarlar og landstjórar, allt saman fríðir æskumenn, riddarar ríðandi hestum.7 Og hún helgaði þeim hóranir sínar, öllum úrvalsmönnum Assýringa, og hún saurgaði sig á skurðgoðum allra þeirra, er hún brann af girnd til.8 Þó lét hún ekki af hórunum sínum frá Egyptalandi, því að þeir höfðu legið með henni í ungdæmi hennar og farið höndum um meyjarbarm hennar og hellt yfir hana hóran sinni.9 Fyrir því seldi ég hana í hendur friðla sinna, í hendur Assýringa, er hún brann af girnd til.10 Þeir beruðu blygðan hennar, tóku burt sonu hennar og dætur og vógu hana sjálfa með sverði, svo að hún varð öðrum konum til viðvörunar, og framkvæmdu þannig refsingardóminn á henni.
11 En þótt systir hennar Oholíba sæi það, þá varð hún þó enn frekari í lostanum og drýgði enn meiri saurlifnað en systir hennar.12 Hún brann af girnd til Assýringa, nafntogaðra jarla og landstjóra, sem voru frábærlega prúðbúnir, til riddara, sem riðu hestum, allt saman fríðir æskumenn.13 Og ég sá, hversu hún saurgaði sig. Eitt og hið sama var háttalag beggja þeirra systra.14 En hún hélt áfram að drýgja hórdóm, og er hún sá menn dregna á vegg, myndir af Kaldeum, málaða með menju,15 gyrta belti um lendarnar, með vefjarhöttu um höfuðin, alla saman hina hermannlegustu, mynd af Babýloníumönnum, en ættland þeirra er Kaldea,16 - þá brann hún af girnd til þeirra, er hún leit þá augum, og gjörði sendimenn til þeirra til Kaldeu.17 Og Babýloníumenn gengu inn til hennar, til ástasamlags við hana, og flekkuðu hana með saurlifnaði sínum, og hún saurgaði sig á þeim. Þá sneri sál hennar sér frá þeim.18 Og er hún framdi saurlifnað sinn berlega og beraði blygðan sína, þá sneri sál mín sér frá henni, eins og sál mín hafði snúið sér frá systur hennar.19 En hún varð enn frekari í hórdómi sínum, með því að hún minntist æskudaga sinna, þá er hún framdi saurlifnað á Egyptalandi.20 Og hún brann af girnd til friðla þeirra, sem voru eins hreðurmiklir og asnar og gusan úr þeim sem úr stóðhestum.21 Og þú saknaðir saurlifnaðar æsku þinnar, þá er Egyptar fóru höndum um barm þinn og þukluðu um meyjarbrjóst þín.
22 Fyrir því, Oholíba, svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun egna friðla þína upp í móti þér, þá er sál þín hefir snúið sér frá, og láta þá veitast að þér úr öllum áttum:23 Babýloníumenn og alla Kaldea, Pekód, Sjóa og Kóa og alla Assýringa með þeim, allt saman fríða æskumenn, jarla og landstjóra, tóma liðsforingja og nafntogaða menn, ríðandi hestum.24 Og þeir munu koma í móti þér úr norðri með vögnum og hjólum og liðsafnaði margra þjóða. Törgu, skjöld og hjálm munu þeir setja upp í móti þér hringinn í kring, og ég mun leggja fyrir þá málið, og þeir skulu dæma þig eftir sínum lögum.25 Og ég mun snúa vandlæting minni gegn þér, og þeir munu fara grimmdarlega með þig. Þeir munu skera af þér nef og eyru, og það, sem eftir verður af þér, skal fyrir sverði falla. Sonu þína og dætur munu þeir hafa á burt, og það, sem eftir verður af þér, mun eyðast af eldi.26 Og þeir munu færa þig af klæðum og taka af þér skartgripi þína.27 Og ég vil gjöra enda á saurlifnaði þínum og hórdómi þínum frá Egyptalandi, svo að þú hefjir eigi framar augu þín til þeirra og hugsir eigi framar um Egyptaland.28 Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég mun selja þig á vald þeirra, er þú hatar, á vald þeirra, er sál þín hefir snúið sér frá.29 Og þeir munu fara haturslega með þig og hafa á burt allan afla þinn og láta þig eftir nakta og bera, og þá mun verða flett ofan af hinni hórgjörnu blygðan þinni, lauslæti þínu og saurlifnaði þínum.30 Svo mun með þig farið, af því að þú eltir þjóðirnar, fyrir þá sök að þú saurgaðir þig á skurðgoðum þeirra.31 Þú hefir gengið götu systur þinnar, þess vegna rétti ég að þér bikar hennar.32 Svo segir Drottinn Guð: Þú skalt drekka bikar systur þinnar, hinn djúpa og víða, sem tekur svo mikið, -33 vímu og hörmung skalt þú fyllast -, bikar hryllings og skelfingar, bikar Samaríu systur þinnar.34 Og þú skalt drekka hann og tæma og sötra dreggjarnar og sundurrífa brjóst þín, því að ég hefi talað það, segir Drottinn Guð.35 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sökum þess að þú hefir gleymt mér og varpað mér aftur fyrir bak þér, þá skalt þú nú og gjöld taka fyrir lauslæti þitt og saurlifnað."
36 Og Drottinn sagði við mig: "Mannsson, vilt þú dæma Oholu og Oholíbu? Leið þeim þá fyrir sjónir svívirðingar þeirra,37 hversu þær hafa hórdóm drýgt og flekkað hendur sínar með blóði, og hversu þær hafa drýgt hórdóm með skurðgoðum sínum og jafnvel látið sonu sína, er þær fæddu mér, ganga gegnum eld þeim til fæðslu.38 Enn fremur gjörðu þær mér þetta: Þær saurguðu sama daginn helgidóm minn og vanhelguðu hvíldardaga mína.39 Og þegar þær slátruðu sonum sínum skurðgoðunum til fórnar, gengu þær sama daginn inn í helgidóm minn til þess að vanhelga hann. Já, slíkt höfðust þær að í mínu eigin musteri.40 Þær sendu jafnvel eftir mönnum, er komu af fjarlægum löndum, og er sendimaður hafði verið gjörður til þeirra, komu þeir. Þeirra vegna laugaðir þú þig, barst lit í augu þér og bjóst þig í skart.41 Síðan settist þú á veglegan hvílubekk, fyrir framan hann stóð uppbúið borð, og á það lagðir þú reykelsi mitt og olífuolíu mína.42 Og með háværum söng hvíldu þeir á bekknum, og auk mannanna úr mannfjöldanum var komið með Sabea úr eyðimörkinni. Þeir spenntu armbaugum um handleggi kvennanna og settu dýrlega kórónu á höfuð þeirra.43 Þá sagði ég: ,Mun hin útslitna enn drýgja hórdóm? Munu menn enn hórast með henni?'44 Og menn gengu inn til hennar, eins og gengið er inn til hórkonu, þannig gengu þeir inn til Oholu og Oholíbu, saurlífiskvennanna.45 En réttlátir menn munu dæma þær sama dómi og hórkonur eru dæmdar og þær konur, er úthella blóði, því að hórkonur eru þær, og hendur þeirra eru blóði flekkaðar.46 Svo segir Drottinn Guð: Mannsafnaður sé gjörður að þeim og þær framseldar til misþyrmingar og rána.47 Og mannsafnaðurinn skal lemja þær grjóti og höggva þær sundur með sverðum sínum. Sonu þeirra og dætur skulu menn drepa og brenna hús þeirra í eldi.48 Þannig vil ég útrýma saurlifnaðinum úr landinu, til þess að allar konur láti sér að kenningu verða og breyti eigi eftir saurlifnaðar-dæmi yðar.49 Og menn munu láta saurlifnað yðar koma niður á yður, og þér skuluð gjalda þeirra synda, er þér hafið framið með skurðgoðum yðar, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn Guð."