Lectionary Calendar
Tuesday, December 24th, 2024
Christmas Eve
Attention!
Take your personal ministry to the Next Level by helping StudyLight build churches and supporting pastors in Uganda.
Click here to join the effort!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Fimmta Mósebók 5

1 Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Heyr þú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég birti yður í dag. Lærið þau og varðveitið þau, svo að þér haldið þau.2 Drottinn Guð vor gjörði við oss sáttmála á Hóreb.3 Ekki gjörði Drottinn þennan sáttmála við feður vora, heldur við oss, oss sem hér erum allir lifandi í dag.4 Drottinn talaði við yður á fjallinu augliti til auglitis út úr eldinum.5 Ég stóð þá á milli Drottins og yðar til þess að flytja yður orð Drottins, því að þér hræddust eldinn og fóruð ekki upp á fjallið. Hann sagði:

6 "Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.7 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.8 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðinni.9 Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, og í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata,10 en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.11 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.12 Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér.13 Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk,14 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú.15 Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð Drottinn Guð þinn þér að halda hvíldardaginn.16 Heiðra föður þinn og móður þína, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér, svo að þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.17 Þú skalt ekki morð fremja.18 Þú skalt ekki drýgja hór.19 Þú skalt ekki stela.20 Þú skalt ekki bera falsvitni gegn náunga þínum.21 Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, og ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."22 Þessi orð talaði Drottinn með hárri röddu til alls safnaðar yðar á fjallinu út úr eldinum, skýinu og sortanum. Bætti hann þar engu við, og hann ritaði þau á tvær steintöflur og fékk mér þær.

23 Er þér heyrðuð röddina út úr myrkrinu og fjallið stóð í björtu báli, þá genguð þér til mín, allir höfðingjar ættkvísla yðar og öldungar yðar,24 og sögðuð: "Sjá, Drottinn Guð vor hefir sýnt oss dýrð sína og mikilleik, og vér heyrðum rödd hans úr eldinum. Vér höfum séð það í dag, að Guð getur talað við mann, og maðurinn þó haldið lífi.25 Hví skulum vér þá deyja? því að þessi mikli eldur ætlar að eyða oss. Ef vér höldum áfram að hlusta á raust Drottins Guðs vors, munum vér deyja.26 Því að hver er sá af öllu holdi, að hann hafi heyrt rödd hins lifandi Guðs tala út úr eldinum, eins og vér, og þó haldið lífi?27 Far þú og hlýð þú á allt það, sem Drottinn Guð vor segir, og seg þú oss allt það, er Drottinn Guð vor talar við þig, svo að vér megum hlýða á það og breyta eftir því."28 Drottinn heyrði ummæli yðar, er þér töluðuð við mig, og Drottinn sagði við mig: "Ég heyrði ummæli þessa fólks, er þeir töluðu við þig. Er það allt vel mælt, sem þeir sögðu.29 Ó, að þeir hefðu slíkt hugarfar, að þeir óttuðust mig og varðveittu allar skipanir mínar alla daga, svo að þeim vegni vel og börnum þeirra um aldur og ævi.30 Far þú og seg þeim: ,Hverfið aftur í tjöld yðar!'31 En þú, þú skalt standa hér hjá mér meðan ég legg fyrir þig allar þær skipanir, lög og ákvæði, sem þú átt að kenna þeim, svo að þeir breyti eftir þeim í því landi, sem ég gef þeim til eignar."32 Gætið því þess að gjöra svo sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður. Víkið eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri.33 Gangið í öllu þann veg, sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður, svo að þér megið lífi halda og yður vegni vel og þér lifið lengi í landinu, sem þér fáið til eignar.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile