the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Fimmta Mósebók 32
1 Hlustið, þér himnar, því að nú mun ég mæla, og jörðin hlýði á mál munns míns!2 Kenning mín streymi sem regn, ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúrir á grængresið og sem þungaregn á jurtirnar.3 Ég vil kunngjöra nafn Drottins: Gefið Guði vorum dýrðina!4 Bjargið - fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.5 Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim, rangsnúin og rammspillt kynslóð.6 Ætlið þér að launa Drottni þannig, þú heimska og óvitra þjóð? Er hann ekki faðir þinn, sá er skóp þig, sá er gjörði þig og myndaði?
7 Minnstu fyrri tíða, hyggið að árum liðinna alda! Spyr föður þinn, að hann megi fræða þig, gamalmenni þín, að þau megi segja þér frá!8 Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona.9 Því að hlutskipti Drottins er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans.10 Hann fann hann í eyðimerkurlandi og í óbyggðum, innan um öskrið á öræfunum. Hann verndaði hann, hugði að honum, hann varðveitti hann sem sjáaldur auga síns.11 Eins og örn, sem vekur upp hreiður sitt og svífur yfir ungum sínum, svo útbreiddi hann vængi sína, tók hann upp og bar hann á flugfjöðrum sínum.12 Drottinn einn leiddi hann, og enginn annar guð var með honum.13 Hann lét hann fram bruna á hæðum landsins og lét hann njóta ávaxtar akursins. Hann lét hann sjúga hunang úr klettunum og olífuolíu úr tinnusteinunum.14 Hann ól hann á kúarjóma og sauðamjólk, ásamt feitu kjöti af dilkum og hrútum. Hann gaf honum Basan-uxa og kjarnhafra, ásamt nýrnafeiti hveitisins. Þrúgnablóð drakkst þú sem kostavín.
15 En Jesjúrún varð feitur og sparkaði aftur undan sér, - feitur varðst þú, digur og sællegur! Þá hafnaði hann Guði, skapara sínum, og fyrirleit bjarg hjálpræðis síns.16 Þeir vöktu vandlæti hans með útlendum guðum, egndu hann til reiði með andstyggðum.17 Þeir færðu fórnir vættum, sem ekki eru Guð, guðum, sem þeir höfðu eigi þekkt, nýjum guðum, nýlega upp komnum, er feður yðar höfðu engan beyg af.18 Um bjargið, sem þig hafði getið, hirtir þú ekki og gleymdir þeim Guði, sem þig hafði alið.
19 Drottinn sá það og hafnaði þeim af gremju við sonu sína og dætur.20 Og hann sagði: Ég vil byrgja auglit mitt fyrir þeim, ég ætla að sjá, hver afdrif þeirra verða. Því að þeir eru rangsnúin kynslóð, börn, sem engin tryggð er í.21 Þeir hafa vakið vandlæti mitt með því, sem ekki er Guð, egnt mig til reiði með hinum fánýtu goðum sínum. Nú mun ég vekja vandlæti þeirra með því, sem ekki er þjóð, egna þá til reiði með heiðnum lýð.22 Því að eldur kviknaði í nösum mér, og hann logar lengst niður í undirheima, eyðir jörðina og ávöxtu hennar og kveikir í undirstöðum fjallanna.23 Ég vil hrúga yfir þá margs konar böli, eyða á þá öllum örvum mínum.24 Þótt þeir séu megraðir af hungri og tærðir af sýki og eitraðri sótt, þá mun ég hleypa tönnum villidýranna á þá, ásamt eitri þeirra, er í duftinu skríða.25 Sverðið mun eyða þeim úti fyrir, en hræðslan í húsum inni, bæði yngismönnum og meyjum, brjóstmylkingum og gráhærðum öldungum.
26 Ég mundi segja: Ég vil blása þeim burt, afmá minning þeirra meðal mannanna! -27 ef ég óttaðist ekki, að mér mundi gremjast við óvinina, að mótstöðumenn þeirra mundu leggja það út á annan veg, að þeir mundu segja: Hönd vor var á lofti, og það var ekki Drottinn, sem gjörði allt þetta!28 Því að þeir eru ráðþrota þjóð, og hjá þeim eru engin hyggindi.29 Ef þeir væru vitrir, þá mundu þeir sjá þetta, hyggja að, hver afdrif þeirra munu verða.30 Hvernig gæti einn maður elt þúsund og tveir rekið tíu þúsundir á flótta, ef bjarg þeirra hefði ekki selt þá, ef Drottinn hefði ekki ofurselt þá?31 Því að bjarg þeirra er ekki eins og vort bjarg - um það geta óvinir vorir dæmt.32 Því að vínviður þeirra er af vínviði Sódómu, af akurlöndum Gómorru. Vínber þeirra eru eitruð vínber, þrúgur þeirra beiskar.33 Vín þeirra er höggormsólyfjan og banvænt nöðrueitur.34 Er þetta ekki geymt hjá mér, innsiglað í forðabúrum mínum?35 Mín er hefndin og mitt að endurgjalda, þá er þeir gjörast valtir á fótum. Því að glötunardagur þeirra er nálægur, og það ber óðfluga að, er fyrir þeim liggur.36 Drottinn mun rétta hluta þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína, þá er hann sér, að öll hjálp er úti og enginn er framar til, þræll né frelsingi.37 Þá mun hann segja: Hvar eru nú guðir þeirra, bjargið, er þeir leituðu hælis hjá,38 sem átu feiti fórna þeirra og drukku vín dreypifórna þeirra? Rísi þeir nú upp og hjálpi yður, veri þeir yður nú hlíf!
39 Sjáið nú, að ég, ég er hann, og að enginn guð er til nema ég! Ég deyði og ég lífga, ég særi og ég græði, og enginn getur frelsað af minni hendi.40 Því að ég lyfti hendi minni til himins og segi: Svo sannarlega sem ég lifi eilíflega, -41 þegar ég hefi hvesst mitt blikandi sverð, og ég legg hönd á dóminn, þá mun ég efna hefnd við mótstöðumenn mína og endurgjalda þeim, er hata mig!42 Ég vil gjöra örvar mínar drukknar af blóði, og sverð mitt skal hold eta - af blóði veginna manna og hertekinna, af höfði fyrirliða óvinanna.43 Vegsamið, þjóðir, lýð hans! því að hann hefnir blóðs þjóna sinna. Hann efnir hefnd við mótstöðumenn sína og friðþægir fyrir land síns lýðs.
44 Móse kom og flutti lýðnum öll orð þessa kvæðis í heyranda hljóði, hann og Hósea Núnsson.45 Og er Móse hafði lokið að mæla öll þessi orð til alls Ísraels,46 sagði hann við þá: "Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag, til þess að þér getið brýnt þau fyrir börnum yðar, svo að þau gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.47 Því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar, og fyrir þetta orð munuð þér lifa langa ævi í landinu, sem þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."48 Þann hinn sama dag talaði Drottinn við Móse og sagði:49 "Far þú þarna upp á Abarímfjall, upp á Nebófjall, sem er í Móabslandi gegnt Jeríkó, og lít yfir Kanaanland, sem ég gef Ísraelsmönnum til eignar.50 Og þú skalt deyja á fjallinu, er þú fer upp á, og safnast til þíns fólks, eins og Aron bróðir þinn dó á Hórfjalli og safnaðist til síns fólks,51 af því að þið sýnduð mér ótrúmennsku mitt á meðal Ísraelsmanna hjá Meríbavötnum við Kades í Síneyðimörk, af því að þið helguðuð mig ekki meðal Ísraelsmanna.52 Því að handan yfir skalt þú fá að líta landið, en inn í landið, sem ég gef Ísraelsmönnum, skalt þú ekki komast."