Lectionary Calendar
Tuesday, December 24th, 2024
Christmas Eve
Attention!
Tired of seeing ads while studying? Now you can enjoy an "Ads Free" version of the site for as little as 10¢ a day and support a great cause!
Click here to learn more!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Daníel 3

1 Nebúkadnesar konungur lét gjöra líkneski af gulli, sextíu álna á hæð og sex álna á breidd. Hann lét reisa það í Dúradal í Babel-héraði.2 Og Nebúkadnesar konungur sendi út menn til þess að stefna saman jörlunum, landstjórunum, landshöfðingjunum, ráðherrunum, féhirðunum, dómurunum, lögmönnunum og öllum embættismönnum í skattlöndunum, að þeir skyldu koma til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið.3 Þá söfnuðust saman jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir, ráðherrarnir, féhirðarnir, dómararnir, lögmennirnir og allir embættismenn í skattlöndunum til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið, og námu staðar frammi fyrir líkneskinu, er Nebúkadnesar hafði látið reisa.4 Þá kallaði kallarinn hárri röddu: "Svo er yður öllum boðið, hverrar þjóðar og hvaða landsmenn sem þér eruð og á hverja tungu sem þér mælið:5 Þegar er þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, þá skuluð þér falla fram og tilbiðja gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hefir reisa látið.6 En hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skal á samri stundu kastað verða inn í brennandi eldsofn."7 Þess vegna, undireins og allt fólkið heyrði hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna og alls konar hljóðfæra, þá féllu allir fram, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem voru, og tilbáðu gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið.

8 Fyrir því gengu og fram á sömu stundu kaldverskir menn og ákærðu Gyðingana.9 Þeir tóku svo til máls og sögðu við Nebúkadnesar konung: "Konungurinn lifi eilíflega!10 Þú hefir, konungur, skipað svo fyrir, að hver maður skuli, þá er hann heyrir hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, falla fram og tilbiðja gull-líkneskið,11 og að hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skuli kastað inn í brennandi eldsofn.12 Nú eru hér nokkrir Gyðingar, er þú hefir gjört að sýslumönnum yfir Babel-héraði, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Þessir menn virða þig að engu, konungur. Þeir dýrka ekki þína guði og tilbiðja ekki gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið."13 Þá fylltist Nebúkadnesar reiði og heift og bauð að leiða fram þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, og voru þessir menn leiddir fyrir konunginn.14 Nebúkadnesar tók til máls og sagði við þá: "Er það af ásettu ráði, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, að þér dýrkið ekki minn guð og tilbiðjið ekki gull-líkneskið, sem ég hefi reisa látið?15 Ef þér nú eruð viðbúnir, jafnskjótt og þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, að falla fram og tilbiðja líkneski það, er ég hefi gjöra látið, þá nær það ekki lengra. En ef þér tilbiðjið það ekki, þá skal yður samstundis verða kastað inn í eldsofn brennandi, og hver er sá guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?"16 Þá svöruðu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó og sögðu við Nebúkadnesar konung: "Vér þurfum ekki að svara þér einu orði upp á þetta.17 Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur.18 En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið."

19 Þá fylltist Nebúkadnesar heiftarreiði við þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, svo að ásjóna hans afmyndaðist, og hann skipaði að kynda ofninn sjöfalt heitara en vanalegt var að kynda hann.20 Og hann bauð rammefldum mönnum, sem voru í her hans, að binda þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim inn í brennandi eldsofninn.21 Síðan voru þessir menn bundnir í nærfötum sínum, kyrtlum, skikkjum og öðrum klæðnaði sínum og þeim kastað inn í hinn brennandi eldsofn.22 Og sökum þess að skipun konungs var svo strengileg, en ofninn kyntur ákaflega, þá varð eldsloginn að bana mönnunum, sem báru þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó.23 En þeir þrír menn, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, féllu bundnir niður í hinn brennandi eldsofn.24 Þá varð Nebúkadnesar konungur forviða og spratt upp skyndilega. Hann tók til máls og sagði við ráðgjafa sína: "Höfum vér ekki kastað þremur mönnum fjötruðum inn í eldinn?" Þeir svöruðu konunginum og sögðu: "Jú, vissulega, konungur!"25 Hann svaraði og sagði: "Ég sé þó fjóra menn ganga lausa inni í eldinum, án þess að nokkuð hafi orðið þeim að grandi, og er ásýnd hins fjórða því líkust sem hann sé sonur guðanna."26 Þá gekk Nebúkadnesar að dyrum hins brennandi eldsofns, tók til máls og sagði: "Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þjónar hins hæsta Guðs, gangið út og komið hingað!" Þá gengu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó út úr eldinum.27 Og jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir og ráðgjafar konungs söfnuðust saman og sáu, að eldurinn hafði ekki unnið á líkama þessara manna og að hárið á höfði þeirra var ekki sviðnað, að ekkert sá á nærfötum þeirra og enginn eldseimur fannst af þeim.

28 Þá tók Nebúkadnesar til máls og sagði: "Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sem sendi engil sinn og frelsaði þjóna sína, er treystu honum og óhlýðnuðust boði konungsins, en lögðu líkami sína í sölurnar, til þess að þeir þyrftu ekki að dýrka né tilbiðja neinn annan guð en sinn Guð.29 Nú gef ég út þá skipun, að hver sá, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem er, er mælir lastmæli gegn Guði þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sá skal höggvinn verða sundur og hús hans gjört að sorphaug, því að enginn annar guð er til, sem eins getur frelsað og hann."30 Síðan hóf konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó til stórra mannvirðinga í Babel-héraði.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile