Christmas Eve
free while helping to build churches and support pastors in Uganda.
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Daníel 1
1 Á þriðja ríkisári Jójakíms konungs í Júda kom Nebúkadnesar konungur í Babýlon til Jerúsalem og settist um hana.2 Og Drottinn gaf Jójakím Júdakonung á vald hans og nokkuð af áhöldum Guðs húss, og hann flutti þau til Sínearlands í musteri guðs síns, og áhöldin flutti hann í fjárhirslu guðs síns.3 Og konungur bauð Aspenasi hirðstjóra að velja meðal Ísraelsmanna, bæði af konungsættinni og af höfðingjunum,4 sveina nokkra, er engin líkamslýti hefðu og væru fríðir sýnum, vel að sér í hvers konar vísindum, fróðir og vel viti bornir og hæfir til að þjóna í konungshöllinni, og kenna þeim bókmenntir og tungu Kaldea.5 Og konungur ákvað þeim daglegan skammt frá konungsborði og af víni því, er hann sjálfur drakk, og bauð að uppala þá í þrjú ár, og að þeim liðnum skyldu þeir þjóna frammi fyrir konunginum.6 Og meðal þeirra voru af Júdamönnum þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja.7 En hirðstjórinn breytti nöfnum þeirra og kallaði Daníel Beltsasar, Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed-Negó.
8 En Daníel einsetti sér að saurga sig ekki á matnum frá konungsborði né á víni því, er konungur drakk, og beiddist þess af hirðstjóra, að hann þyrfti ekki að saurga sig.9 Og Guð lét Daníel verða náðar og líknar auðið hjá hirðstjóranum.10 En hirðstjórinn sagði við Daníel: "Ég er hræddur um að minn herra konungurinn, sem tiltekið hefir mat yðar og drykk, sjái yður fölari í bragði en aðra sveina á yðar aldri, og verðið þér svo þess valdandi, að ég fyrirgjöri lífi mínu við konunginn."11 Þá sagði Daníel við tilsjónarmanninn, er hirðstjórinn hafði sett yfir þá Daníel, Hananja, Mísael og Asarja:12 "Gjör tilraun við oss þjóna þína í tíu daga og lát gefa oss kálmeti að eta og vatn að drekka.13 Skoða síðan yfirbragð vort og yfirbragð sveina þeirra, er eta við konungsborð, og gjör því næst við oss eftir því, sem þér þá líst á oss."14 Og hann veitti þeim bón þessa og gjörði tilraun við þá í tíu daga.15 Og að tíu dögum liðnum reyndust þeir fegurri ásýndum og feitari á hold en allir sveinarnir, sem átu við konungsborð.16 Eftir það lét tilsjónarmaðurinn bera burt matinn og vínið, sem þeim hafði verið ætlað, og gaf þeim kálmeti.
17 Og þessum fjórum sveinum gaf Guð kunnáttu og skilning á alls konar rit og vísindi, en Daníel kunni og skyn á alls konar vitrunum og draumum.18 Og er liðinn var sá tími, er konungur hafði tiltekið, að þá skyldi leiða á sinn fund, þá leiddi hirðstjórinn þá fyrir Nebúkadnesar.19 Og konungur átti tal við þá, en eigi fannst neinn af þeim öllum slíkur sem þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja, og gengu þeir í þjónustu konungs.20 Og í öllum hlutum, sem viturleik og skilning þurfti við að hafa og konungur spurði þá um, reyndust þeir tíu sinnum fremri en allir spásagnamenn og særingamenn í öllu ríki hans.21 Og Daníel dvaldist þar allt til fyrsta árs Kýrusar konungs.