Christmas Day
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Postulasagan 8
1 Sál lét sér vel líka líflát hans. Á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu nema postularnir.2 Guðræknir menn greftruðu Stefán og höfðu sorgarathöfn mikla.3 En Sál gjörði sér allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.
4 Þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.5 Filippus fór norður til höfuðborgar Samaríu og prédikaði Krist þar.6 Menn hlýddu með athygli á orð Filippusar, þegar þeir heyrðu hann tala og sáu táknin, sem hann gjörði.7 Margir höfðu óhreina anda, og fóru þeir út af þeim með ópi miklu. Og margir lama menn og haltir voru læknaðir.8 Mikill fögnuður varð í þeirri borg.9 Maður nokkur, Símon að nafni, var fyrir í borginni. Hann lagði stund á töfra og vakti hrifningu fólksins í Samaríu. Hann þóttist vera næsta mikill.10 Allir flykktust til hans, háir og lágir, og sögðu: "Þessi maður er kraftur Guðs, sá hinn mikli."11 En því flykktust menn um hann, að hann hafði lengi heillað þá með töfrum.12 Nú trúðu menn Filippusi, þegar hann flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki og nafn Jesú Krists, og létu skírast, bæði karlar og konur.13 Meira að segja Símon tók trú. Hann var skírður og gjörðist mjög fylgisamur Filippusi. Og er hann sá tákn og mikil kraftaverk gjörast, var hann frá sér numinn.
14 Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu, að Samaría hefði tekið við orði Guðs, sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes.15 Þeir fóru norður þangað og báðu fyrir þeim, að þeir mættu öðlast heilagan anda,16 því að enn var hann ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú.17 Nú lögðu þeir hendur yfir þá, og fengu þeir heilagan anda.18 En er Símon sá, að heilagur andi veittist fyrir handayfirlagning postulanna, bauð hann þeim fé og sagði:19 "Gefið einnig mér þetta vald, að hver sá, er ég legg hendur yfir, fái heilagan anda."20 En Pétur svaraði: "Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú, fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé.21 Eigi átt þú skerf né hlut í þessu, því að hjarta þitt er ekki einlægt gagnvart Guði.22 Snú því huga þínum frá þessari illsku þinni og bið Drottin, að þér mætti fyrirgefast hugsun hjarta þíns,23 því ég sé, að þú ert fullur gallbeiskju og í fjötrum ranglætis."24 Símon sagði: "Biðjið þér fyrir mér til Drottins, að ekkert komi það yfir mig, sem þér hafið mælt."25 Er þeir höfðu nú vitnað og talað orð Drottins, sneru þeir aftur áleiðis til Jerúsalem og boðuðu fagnaðarerindið í mörgum þorpum Samverja.
26 En engill Drottins mælti til Filippusar: "Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa." Þar er óbyggð.27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann.29 Andinn sagði þá við Filippus: "Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum."30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: "Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?"31 Hinn svaraði: "Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?" Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum.33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: "Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?"35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.36 Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: "Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?"37 (OMITTED TEXT)38 Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.39 En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar.40 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.