Lectionary Calendar
Saturday, November 23rd, 2024
the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Attention!
StudyLight.org has pledged to help build churches in Uganda. Help us with that pledge and support pastors in the heart of Africa.
Click here to join the effort!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Postulasagan 20

1 Þegar þessum látum linnti, sendi Páll eftir lærisveinunum, uppörvaði þá og kvaddi síðan og lagði af stað til Makedóníu.2 Hann fór nú um þau héruð og uppörvaði menn með mörgum orðum. Síðan hélt hann til Grikklands.3 Dvaldist hann þar þrjá mánuði. Þá bjóst hann til að sigla til Sýrlands, en þar eð Gyðingar brugguðu honum launráð, tók hann til bragðs að hverfa aftur um Makedóníu.4 Í för með honum voru þeir Sópater Pýrrusson frá Beroju, Aristarkus og Sekúndus frá Þessaloníku, Gajus frá Derbe, Tímóteus og Asíumennirnir Týkíkus og Trófímus.5 Þeir fóru á undan og biðu vor í Tróas.6 En vér sigldum eftir daga ósýrðu brauðanna frá Filippí og komum til þeirra í Tróas á fimmta degi. Þar stóðum vér við í sjö daga.

7 Fyrsta dag vikunnar, er vér vorum saman komnir til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis.8 Mörg ljós voru í loftstofunni, þar sem vér vorum saman komnir.9 Ungmenni eitt, Evtýkus að nafni, sat í glugganum. Seig á hann svefnhöfgi, er Páll ræddi svo lengi, og féll hann sofandi ofan af þriðja lofti. Hann var liðinn, þegar hann var tekinn upp.10 Páll gekk ofan, varpaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði: "Verið stilltir, það er líf með honum."11 Fór hann síðan upp, braut brauðið og neytti og talaði enn lengi, allt fram í dögun. Að svo búnu hélt hann brott.12 En þeir fóru með sveininn lifandi og hugguðust mikillega.

13 Vér fórum á undan til skips og sigldum til Assus. Þar ætluðum vér að taka Pál. Svo hafði hann fyrir lagt, því hann vildi fara landveg.14 Þegar hann hafði hitt oss í Assus, tókum vér hann á skip og héldum til Mitýlene.15 Þaðan sigldum vér daginn eftir og komumst til móts við Kíos. Á öðrum degi fórum vér til Samos og komum næsta dag til Míletus.16 En Páll hafði sett sér að sigla fram hjá Efesus, svo að hann tefðist ekki í Asíu. Hann hraðaði ferð sinni, ef verða mætti, að hann kæmist til Jerúsalem á hvítasunnudag.

17 Frá Míletus sendi hann til Efesus og boðaði til sín öldunga safnaðarins.18 Þegar þeir komu til hans, sagði hann við þá: "Þér vitið, hvernig ég hef hagað mér hjá yður alla tíð frá þeim degi, er ég kom fyrst til Asíu.19 Ég þjónaði Drottni í allri auðmýkt, með tárum og í raunum, sem að mér hafa steðjað af launráðum Gyðinga.20 Þér vitið, að ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum21 og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.22 Og nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af andanum. Ekki veit ég, hvað þar mætir mér,23 nema að heilagur andi birtir mér í hverri borg, að fjötrar og þrengingar bíði mín.24 En mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.25 Nú veit ég, að þér munuð ekki framar sjá mig, engir þér, sem ég hef komið til og boðað ríkið.26 Þess vegna vitna ég fyrir yður nú í dag, að ekki er mig um að saka, þótt einhver glatist,27 því að ég hef boðað yður allt Guðs ráð og ekkert dregið undan.28 Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.29 Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni.30 Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.31 Vakið því og verið þess minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár.32 Og nú fel ég yður Guði og orði náðar hans, sem máttugt er að uppbyggja yður og gefa yður arfleifð með öllum þeim, sem helgaðir eru.33 Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns.34 Sjálfir vitið þér, að þessar hendur unnu fyrir öllu því, er ég þurfti með og þeir, er með mér voru.35 Í öllu sýndi ég yður, að með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ,Sælla er að gefa en þiggja.'"

36 Þegar hann hafði þetta mælt, féll hann á kné og baðst fyrir ásamt þeim öllum.37 Allir tóku að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann.38 Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann. Síðan fylgdu þeir honum til skips.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile