Lectionary Calendar
Wednesday, December 25th, 2024
Christmas Day
Attention!
For 10¢ a day you can enjoy StudyLight.org ads
free while helping to build churches and support pastors in Uganda.
Click here to learn more!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Síðari Samúelsbók 3

1 Þegar ófriðurinn milli Sáls húss og Davíðs húss tók að gjörast langvinnur, þá efldist Davíðs hús meir og meir, en Sáls húsi hnignaði meir og meir.2 Davíð fæddust synir í Hebron: Frumgetinn sonur hans var Amnon, með Akínóam frá Jesreel.3 Annar sonur hans var Kíleab, með Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel, hinn þriðji Absalon, sonur Maöku, dóttur Talmaí, konungs í Gesúr,4 hinn fjórði Adónía, sonur Haggítar, hinn fimmti Sefatja, sonur Abítalar,5 og hinn sjötti Jitream, með Eglu, konu Davíðs. Þessir fæddust Davíð í Hebron.6 Meðan ófriðurinn stóð milli Sáls húss og Davíðs húss, var Abner öflugur fylgismaður Sáls húss.

7 Sál hafði átt hjákonu, er Rispa hét og var Ajasdóttir. Og Ísbóset, sonur Sáls, sagði við Abner: "Hví hefir þú gengið í eina sæng með hjákonu föður míns?"8 Abner reiddist mjög orðum Ísbósets og mælti: "Er ég sá hundshaus, að ég haldi með Júda? Enn í dag auðsýni ég elsku húsi Sáls, föður þíns, vandamönnum hans og vinum, og ég hefi ekki framselt þig í hendur Davíðs, og þó ásakar þú mig í dag um konumál.9 Guð gjöri mér það, er hann vill, nú og síðar: Eins og Drottinn hefir svarið Davíð, svo skal ég við hann gjöra:10 flytja konungdóminn frá húsi Sáls og reisa hásæti Davíðs yfir Ísrael og Júda, frá Dan til Beerseba."11 Hinn gat ekki svarað Abner einu orði af hræðslu við hann.12 Þá gjörði Abner sendimenn á fund Davíðs í Hebron með þessa orðsending: "Hvers er landið?" Og: "Gjör þú sáttmála við mig, þá mun ég veita þér fulltingi til að snúa öllum Ísrael til fylgis við þig."13 Davíð svaraði: "Gott og vel, ég vil gjöra sáttmála við þig. En eins krefst ég af þér: Þú skalt ekki líta ásjónu mína fyrr en þú færir mér Míkal, dóttur Sáls, þá er þú kemur til þess að líta ásjónu mína."14 Og Davíð gjörði sendimenn á fund Ísbósets, sonar Sáls, með þá orðsending: "Fá mér konu mína Míkal, er ég festi mér fyrir hundrað filistayfirhúðir."15 Þá sendi Ísbóset og lét taka hana frá manni hennar, Paltíel Laíssyni.16 Og maður hennar fylgdi henni með miklum gráti til Bahúrím. Þá sagði Abner við hann: "Farðu nú heim aftur!" Fór hann þá aftur heim.17 Abner hafði átt tal við öldunga Ísraels og sagt: "Þér hafið þegar fyrir löngu æskt þess, að Davíð yrði konungur yðar.18 Látið nú af því verða, því að Drottinn hefir sagt við Davíð: ,Fyrir hönd Davíðs, þjóns míns, mun ég frelsa lýð minn Ísrael af hendi Filista og af hendi allra óvina þeirra.'"19 Abner kom og að máli við Benjamíníta. Því næst hélt Abner á fund Davíðs í Hebron til þess að segja honum frá, hversu Ísrael og allt Benjamíns hús vildi allt vera láta.20 En er Abner kom til Davíðs í Hebron og með honum tveir tigir manna, þá gjörði Davíð Abner veislu og mönnunum, sem með honum voru.21 Þá sagði Abner við Davíð: "Ég vil taka mig til og fara og safna öllum Ísrael utan um herra minn, konunginn, til þess að þeir gjöri sáttmála við þig, og þú verðir konungur yfir öllum þeim, sem þín sála girnist." Síðan lét Davíð Abner burt fara í friði.

22 Rétt í þessu komu menn Davíðs og Jóab heim úr ránsferð, og fluttu þeir með sér mikið herfang. En Abner var þá ekki hjá Davíð í Hebron, því að hann hafði látið hann í burt fara í friði.23 Þegar Jóab nú kom og allur herinn, sem með honum var, færðu menn Jóab þessi tíðindi: "Abner Nersson kom hingað á konungs fund, og hann lét hann fara aftur burt í friði."24 Þá gekk Jóab fyrir konung og mælti: "Hvað hefir þú gjört? Abner hefir komið hingað til þín! Hví lést þú hann frjálsan í brott fara?25 Veistu ekki, að Abner Nersson hefir komið til þess að fleka þig og til þess að verða vísari um hátterni þitt og fá vitneskju um allt, sem þú hefir fyrir stafni?"26 Og er Jóab var genginn út frá Davíð, þá sendi hann menn eftir Abner, og þeir komu með hann aftur frá Sírabrunni. Davíð vissi ekki af þessu.27 En er Abner var aftur kominn til Hebron, veik Jóab honum á eintal afsíðis í borgarhliðinu og lagði hann þar í kviðinn, svo að hann beið bana af - til hefnda fyrir víg Asahels bróður síns.28 En er Davíð síðar frétti það, sagði hann: "Saklaus er ég og mitt ríki fyrir Drottni að eilífu af blóði Abners Nerssonar!29 Komi það yfir höfuð Jóabs og yfir alla ætt hans! Aldrei verði í ætt Jóabs þeirra vant, er rennsli hafa og líkþráir eru, sem ganga við hækju, falla fyrir sverði eða vantar brauð!"30 En Jóab og Abísaí bróðir hans myrtu Abner, af því að hann hafði drepið Asahel bróður þeirra hjá Gíbeon í bardaga.31 Og Davíð sagði við Jóab og allt fólkið, sem hjá honum var: "Rífið klæði yðar og gyrðist hærusekk og gangið kveinandi fyrir Abner!" En Davíð konungur gekk á eftir líkbörunum.32 Og þeir jörðuðu Abner í Hebron, og hóf þá konungur grát við gröf Abners, og allur lýðurinn grét líka.33 Og konungur orti þessi sorgarljóð eftir Abner: Varð þá Abner að deyja dauða guðleysingjans?34 Hendur þínar voru ekki bundnar, og fætur þínir voru ekki fjötraðir. Þú ert fallinn, eins og menn falla fyrir níðingum. Þá grét allur lýðurinn enn meira yfir honum.35 Allur lýðurinn kom og vildi fá Davíð til að neyta matar meðan enn var dagur, en Davíð sór og mælti: "Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef ég smakka brauð eða nokkuð annað fyrir sólarlag."36 Allur lýðurinn tók eftir því og líkaði þeim það vel. Reyndar líkaði öllum lýðnum vel allt það, sem konungurinn gjörði.37 Og allt fólkið og allur Ísrael sannfærðist um það á þeim degi, að konungur væri ekki valdur að vígi Abners Nerssonar.38 Konungur mælti og við menn sína: "Vitið þér ekki, að höfðingi og mikill maður er í dag fallinn í Ísrael?39 En ég má mín enn lítils, þótt ég sé smurður til konungs, og þessir menn, Serújusynir, eru mér yfirsterkari. Drottinn gjaldi þeim, sem níðingsverkið hefir unnið, svo sem hann á skilið fyrir níðingsverk sitt!"

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile