the Week of Proper 28 / Ordinary 33
free while helping to build churches and support pastors in Uganda.
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Síðari Samúelsbók 20
1 Þar var staddur óþokki nokkur, sem Seba hét Bíkríson, Benjamíníti. Hann þeytti lúðurinn og sagði: "Vér eigum enga hlutdeild í Davíð og engan erfðahlut í Ísaísyni. Hver fari heim til sín, Ísrael!"2 Þá gengu allir Ísraelsmenn undan Davíð og á hönd Seba Bíkrísyni, en Júdamenn fóru með konungi sínum frá Jórdan til Jerúsalem.3 Þegar Davíð kom til hallar sinnar í Jerúsalem, lét konungur taka hjákonurnar tíu, er hann hafði skilið eftir til þess að gæta hallarinnar, og setti þær í varðhald og ól þar önn fyrir þeim, en eigi hafði hann samfarir við þær. Lifðu þær þannig innibyrgðar til dauðadags sem ekkjur lifandi manna.
4 Því næst sagði konungur við Amasa: "Kalla þú saman Júdamenn áður þrjár sólir eru af lofti. Ver þá og sjálfur hér."5 Lagði nú Amasa af stað til þess að kalla saman Júda. En er honum seinkaði fram yfir þann tíma, er til var tekinn við hann,6 sagði Davíð við Abísaí: "Nú mun Seba Bíkríson vinna oss enn meira tjón en Absalon. Tak þú menn herra þíns og veit honum eftirför, svo að hann nái ekki víggirtum borgum og veiti oss þungar búsifjar."7 Lögðu þá af stað með honum menn Jóabs og Kretar og Pletar og kapparnir allir. Lögðu þeir af stað frá Jerúsalem til þess að veita Seba Bíkrísyni eftirför.8 En er þeir voru hjá stóra steininum, sem er hjá Gíbeon, mætti Amasa þeim. Jóab var klæddur brynjukufli sínum og gyrtur sverði utan yfir hann, og voru sverðsslíðrin fest við lend honum. Hljóp sverðið úr slíðrunum og féll til jarðar.9 Þá sagði Jóab við Amasa: "Líður þér vel, bróðir minn?" Greip Jóab þá hægri hendinni í skegg Amasa, sem hann vildi kyssa hann.10 En Amasa hafði ekki tekið eftir sverðinu, er Jóab hafði í vinstri hendi sér. Lagði Jóab því í kvið honum, svo að út féllu iðrin. Eigi lagði hann til hans aftur, því að hann var þegar dauður. Jóab og Abísaí, bróðir hans, fóru eftir Seba Bíkrísyni.11 En einn af mönnum Jóabs stóð kyrr hjá Amasa og kallaði: "Hver sá sem hefir mætur á Jóab og aðhyllist Davíð, hann fylgi Jóab!"12 En Amasa lá og veltist í blóði sínu á miðjum veginum, og er maðurinn sá, að allt liðið stóð kyrrt, dró hann Amasa til hliðar út af veginum og varp yfir hann klæði, er hann sá, að hver maður nam staðar, sem að honum kom.13 En er hann hafði komið honum burt af veginum, fylgdi hver maður Jóab til þess að veita Seba Bíkrísyni eftirför.
14 Seba fór um allar ættkvíslir Ísraels, allt til Abel Bet Maaka, og allir Bíkrítar söfnuðust saman og fóru með honum.15 En Jóab og menn hans komu og umkringdu hann í Abel Bet Maaka og hlóðu virkisvegg gegn borginni upp að varnargarðinum. Gekk nú allt liðið, er með Jóab var, sem ákafast fram í því að brjóta múrinn.16 Þá kallaði kona nokkur vitur af borginni: "Heyrið, heyrið! Segið við Jóab: ,Kom þú hingað, ég vil tala við þig.'"17 Þá gekk hann til hennar, og konan mælti: "Ert þú Jóab?" Hann kvað svo vera. Og hún sagði við hann: "Hlýð þú á orð ambáttar þinnar!" Hann svaraði: "Ég heyri."18 Þá mælti hún á þessa leið: "Forðum var það haft að orðtæki: ,Spyrjið að því í Abel, og þá var málið á enda kljáð.'19 Vér erum meðal hinna friðsömu og trúu í Ísrael, en þú leitast við að gjöreyða borg og móður í Ísrael. Hví spillir þú arfleifð Drottins?"20 Jóab svaraði og sagði: "Það er fjarri mér! Ég vil engu spilla og engu eyða.21 Eigi er þessu svo farið, heldur hefir maður nokkur frá Efraímfjöllum, sem Seba heitir, Bíkríson, lyft hendi sinni gegn Davíð konungi. Framseljið hann einan, og mun ég þegar hverfa frá borginni." Þá sagði konan við Jóab: "Sjá, höfði hans skal kastað verða til þín yfir múrinn."22 Síðan talaði konan af viturleik sínum við alla borgarbúa, svo að þeir hjuggu höfuð af Seba Bíkrísyni og fleygðu því út til Jóabs. Þá lét hann blása liðinu frá borginni, og fór hver heim til sín, en Jóab sneri aftur til Jerúsalem til konungs.
23 Jóab var fyrir öllum hernum, Benaja Jójadason fyrir Kretum og Pletum.24 Adóníram var yfir kvaðarmönnum, Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari,25 Seja var kanslari, Sadók og Abjatar prestar.26 Enn fremur var Íra Jaíríti prestur hjá Davíð.