Lectionary Calendar
Wednesday, December 25th, 2024
Christmas Day
Attention!
Tired of seeing ads while studying? Now you can enjoy an "Ads Free" version of the site for as little as 10¢ a day and support a great cause!
Click here to learn more!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Síðari Samúelsbók 15

1 Eftir þetta bar það til, að Absalon fékk sér vagna og hesta og fimmtíu menn, sem fyrir honum hlupu.2 Og hann lagði það í vana sinn að nema staðar snemma morguns við veginn, sem lá inn að borgarhliðinu. Og hann kallaði á hvern þann mann, er í máli átti og fyrir því leitaði á konungs fund til þess að fá úrskurð hans, og mælti: "Frá hvaða borg ert þú?" Og segði hann: "Þjónn þinn er af einni ættkvísl Ísraels,"3 þá sagði Absalon við hann: "Sjá, málefni þitt er gott og rétt, en konungur hefir engan sett, er veiti þér áheyrn."4 Og Absalon sagði: "Ég vildi óska að ég væri skipaður dómari í landinu, svo að hver maður, sem ætti í þrætu eða hefði mál að sækja, gæti komið til mín. Þá skyldi ég láta hann ná rétti sínum."5 Og þegar einhver kom til hans til þess að lúta honum, rétti hann fram höndina, dró hann að sér og kyssti hann.6 Svo gjörði Absalon við alla Ísraelsmenn, þá er leituðu á konungs fund til þess að fá úrskurð hans. Og þann veg stal Absalon hjörtum Ísraelsmanna.

7 Og það bar til fjórum árum síðar, að Absalon sagði við konung: "Leyf mér að fara og efna heit mitt í Hebron, það er ég hefi gjört Drottni.8 Því að þjónn þinn gjörði svolátandi heit, þá er hann dvaldist í Gesúr á Sýrlandi: ,Ef Drottinn flytur mig aftur til Jerúsalem, þá skal ég þjóna Drottni.'"9 Konungur svaraði honum: "Far þú í friði!" Lagði hann þá af stað og fór til Hebron.10 En Absalon gjörði menn á laun til allra ættkvísla Ísraels með svolátandi orðsending: "Þegar þér heyrið lúðurhljóm, þá segið: ,Absalon er konungur orðinn í Hebron!'"11 Með Absalon fóru tvö hundruð manns úr Jerúsalem, er hann kvaddi til farar með sér. Fóru þeir í grandleysi og vissu ekki, hvað undir bjó.12 Og er Absalon var að fórnum, sendi hann eftir Akítófel Gílóníta, ráðgjafa Davíðs, til Gíló, ættborgar hans. Og samsærið magnaðist og æ fleiri og fleiri menn gengu í lið með Absalon.

13 Nú komu menn til Davíðs og sögðu honum: "Hugur Ísraelsmanna hefir snúist til Absalons."14 Þá sagði Davíð við alla þjóna sína, þá er með honum voru í Jerúsalem: "Af stað! Vér skulum flýja, því að öðrum kosti munum vér ekki komast undan Absalon. Hraðið yður, svo að hann komi ekki skyndilega og nái oss, færi oss ógæfu að höndum og taki borgina herskildi."15 Þjónar konungs svöruðu honum: "Alveg eins og minn herra konungurinn vill, sjá, vér erum þjónar þínir."16 Þá lagði konungur af stað og allt hans hús með honum. En konungur lét tíu hjákonur eftir verða til þess að gæta hússins.17 Konungur lagði af stað og allir þjónar hans með honum. Og þeir námu staðar við ysta húsið,18 en allt fólkið og allir Kretar og Pletar gengu fram hjá honum. Enn fremur gengu allir menn Íttaís frá Gat, sex hundruð manns, er komnir voru með honum frá Gat, fram hjá í augsýn konungs.19 Þá sagði konungur við Íttaí frá Gat: "Hvers vegna fer þú og með oss? Snú aftur og ver með hinum konunginum, því að þú ert útlendingur og meira að segja útlægur gjör úr átthögum þínum.20 Þú komst í gær, og í dag ætti ég að fá þig til að reika um með oss, þar sem ég verð að fara þangað sem verkast vill. Snú þú aftur og haf með þér sveitunga þína. Drottinn mun auðsýna þér miskunn og trúfesti."21 En Íttaí svaraði konungi: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, og svo sannarlega sem minn herra konungurinn lifir: Á þeim stað, sem minn herra konungurinn verður - hvort sem það verður til dauða eða lífs, - þar mun og þjónn þinn verða."22 Þá sagði Davíð við Íttaí: "Jæja, far þú þá fram hjá." Þá fór Íttaí frá Gat fram hjá og allir hans menn og öll börnin, sem með honum voru.23 En allt landið grét hástöfum, meðan allt fólkið gekk fram hjá. En konungur stóð í Kídrondal, meðan allt fólkið gekk fram hjá honum í áttina til olíutrésins, sem er í eyðimörkinni.

24 Þar var og Sadók, og Abjatar og allir levítarnir með honum. Báru þeir sáttmálsörk Guðs. Og þeir settu niður örk Guðs, uns allur lýðurinn úr borginni var kominn fram hjá.25 Og konungur sagði við Sadók: "Flyt þú örk Guðs aftur inn í borgina. Finni ég náð í augum Drottins, mun hann leiða mig heim aftur og láta mig sjá sjálfan sig og bústað sinn.26 En ef hann hugsar svo: ,Ég hefi ekki þóknun á þér,' - þá er ég hér, gjöri hann við mig sem honum gott þykir."27 Þá mælti konungur við Sadók höfuðprest: "Far þú aftur til borgarinnar í friði og Akímaas sonur þinn og Jónatan sonur Abjatars - báðir synir ykkar með ykkur.28 Hyggið að! Ég ætla að hafast við hjá vöðunum í eyðimörkinni, þar til er mér kemur frá yður tíðindasögn."29 Síðan fluttu þeir Sadók og Abjatar örk Guðs aftur til Jerúsalem og dvöldust þar.30 Davíð gekk upp Olíufjallið. Fór hann grátandi og huldu höfði. Hann gekk berfættur, og allt fólkið, sem með honum var, huldi höfuð sín og gekk grátandi.

31 Og er Davíð bárust þau tíðindi, að Akítófel væri meðal þeirra, er samsærið höfðu gjört við Absalon, þá sagði Davíð: "Gjör þú, Drottinn, ráð Akítófels að heimsku."32 En er Davíð var kominn efst upp á fjallið, þar sem menn voru vanir að tilbiðja Guð, þá mætti honum Húsaí Arkíti í rifnum kyrtli og með mold á höfði sér.33 Davíð sagði við hann: "Farir þú með mér, verður þú mér til þyngsla.34 En ef þú fer aftur til borgarinnar og segir við Absalon: ,Þér vil ég þjóna, konungur. Föður þínum hefi ég áður þjónað, en nú vil ég þjóna þér,' - þá getur þú ónýtt ráð Akítófels fyrir mig.35 Þar hefir þú hjá þér prestana Sadók og Abjatar. Allt sem þú fréttir úr konungshöllinni, skalt þú segja prestunum Sadók og Abjatar.36 Þeir hafa þar hjá sér báða sonu sína, Sadók Akímaas og Abjatar Jónatan. Látið þá færa mér öll þau tíðindi, sem þér fáið."37 Síðan fór Húsaí, stallari Davíðs, til borgarinnar. Absalon fór og til Jerúsalem.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile