Lectionary Calendar
Wednesday, December 25th, 2024
Christmas Day
Attention!
StudyLight.org has pledged to help build churches in Uganda. Help us with that pledge and support pastors in the heart of Africa.
Click here to join the effort!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Síðari Samúelsbók 13

1 Nú segir frá því, að Absalon sonur Davíðs átti fríða systur, sem hét Tamar, og Amnon sonur Davíðs felldi hug til hennar.2 Og Amnon píndist svo, að hann varð sjúkur út af Tamar, systur sinni, því að hún var mey, og Amnon virtist eigi unnt að gjöra henni neitt.3 En Amnon átti vin, sem Jónadab hét, sonur Símea, bróður Davíðs. Jónadab þessi var mjög kænn maður.4 Og hann sagði við Amnon: "Hví megrast þú svo, konungsson, dag frá degi? Viltu ekki segja mér það?" Amnon sagði við hann: "Ég felli hug til Tamar, systur Absalons bróður míns."5 Þá sagði Jónadab við hann: "Leggst þú í rekkju og lát sem þú sért sjúkur, og þegar faðir þinn kemur til þess að vitja um þig, þá skaltu segja við hann: ,Lát Tamar systur mína koma og gefa mér að eta. Ef hún byggi til matinn fyrir augum mér, svo að ég gæti horft á, þá mundi ég eta úr hendi hennar.'"6 Síðan lagðist Amnon og lést vera sjúkur. En er konungur kom að vitja um hann, sagði Amnon við konung: "Lát Tamar systur mína koma og gjöra tvær kökur að mér áhorfandi, svo að ég megi eta þær úr hendi hennar."7 Þá sendi Davíð boð heim til Tamar og lét segja henni: "Far þú í hús Amnons bróður þíns og matreið handa honum."8 Þá gekk Tamar í hús Amnons bróður síns, en hann lá í rúminu. Og hún tók deig og hnoðaði og gjörði úr því kökur að honum áhorfandi og bakaði kökurnar.9 Og hún tók pönnuna og steypti úr henni frammi fyrir honum, en hann vildi ekki eta. Og Amnon mælti: "Látið alla ganga út frá mér." Og allir gengu út frá honum.10 Þá sagði Amnon við Tamar: "Kom þú með matinn inn í svefnhúsið, svo að ég megi eta úr hendi þinni." Og Tamar tók kökurnar, sem hún hafði gjört, og færði Amnon bróður sínum inn í svefnhúsið.11 En er hún rétti honum þær að eta, þreif hann til hennar og sagði við hana: "Kom þú og leggst með mér, systir mín!"12 En hún sagði við hann: "Nei, bróðir minn, svívirð mig eigi, því að slíkt viðgengst ekki í Ísrael. Frem þú eigi slíka óhæfu.13 Og hvað ætti ég af mér að gjöra með vansæmd mína? Og þú mundir talinn eitt hið versta varmenni í Ísrael. Tala þú heldur við konung, því að hann mun ekki synja þér um mig."14 En hann vildi ekki hlýða orðum hennar, heldur lét hana kenna aflsmunar og nauðgaði henni og lagðist með henni.15 En síðan fékk Amnon mjög mikla óbeit á henni, svo að hin mikla óbeit, er hann hafði á henni, var meiri en ástin, sem hann hafði haft á henni. Og Amnon sagði við hana: "Statt upp og haf þig á burt."16 Þá sagði hún við hann: "Nei, bróðir minn, því að þetta væri enn meira vonskuverk en það, er þú hefir á mér framið, að senda mig nú burt." En hann vildi ekki hlýða orðum hennar.17 Og hann kallaði á svein sinn, er þjónaði honum, og mælti: "Kom þessari konu burt frá mér út á götuna, og lokaðu dyrunum á eftir henni."18 En hún var í dragkyrtli, því að svo voru fyrrum konungsdætur klæddar, meðan þær voru meyjar. Og þjónn hans fór með hana út á götuna og lokaði dyrunum á eftir henni.19 Þá jós Tamar mold yfir höfuð sér og reif sundur dragkyrtilinn sem hún var í, lagði síðan hönd á höfuð sér og gekk hljóðandi burt.20 Og Absalon bróðir hennar sagði við hana: "Hefir Amnon bróðir þinn verið með þér? Þegi þú nú, systir mín, hann er bróðir þinn. Láttu þetta ekki á þig fá." Og Tamar dvaldi ein og yfirgefin í húsi Absalons bróður síns.

21 Þegar Davíð konungur frétti allt þetta, varð hann reiður mjög, en hann vildi eigi hryggja Amnon son sinn, því að hann elskaði hann, af því að hann var frumgetningur hans.22 En Absalon mælti eigi orð við Amnon, hvorki illt né gott, því að Absalon hataði Amnon fyrir það, að hann hafði svívirt Tamar systur hans.23 Tveimur árum síðar bar svo við, að Absalon lét klippa sauði sína í Baal Hasór, sem er hjá Efraím, og bauð hann til öllum sonum konungs.24 Absalon gekk og fyrir konung og mælti: "Sjá, þjónn þinn lætur nú klippa sauði sína, og bið ég að konungurinn og þjónar hans komi með þjóni þínum."25 En konungur sagði við Absalon: "Nei, sonur minn, eigi skulum vér allir fara, svo að vér gjörum þér eigi átroðning." Og þótt Absalon legði að honum, vildi hann ekki fara, en bað hann vel fara.26 Þá sagði Absalon: "Fyrst þú vilt ekki fara, þá leyf þú að Amnon bróðir minn fari með oss." Konungur svaraði honum: "Hví skal hann með þér fara?"27 En Absalon lagði fast að honum. Lét hann þá Amnon fara með honum og alla konungssonu. Absalon gjörði veislu, svo sem konungsveisla væri.28 Og hann lagði svo fyrir sveina sína: "Gefið gætur, þegar Amnon gjörist hreifur af víninu og ég segi við yður: ,Drepið Amnon!' - þá skuluð þér vega hann. Óttist ekki, það er ég, sem lagt hefi þetta fyrir yður. Verið hugrakkir og sýnið karlmennsku."29 Og sveinar Absalons gjörðu svo við Amnon sem Absalon hafði fyrir þá lagt. Þá spruttu allir synir konungs upp, stigu á bak múlum sínum og flýðu.

30 Meðan þeir voru á leiðinni, kom sú fregn til konungs, að Absalon hefði drepið alla sonu konungs og að enginn þeirra væri eftir skilinn.31 Þá stóð konungur upp og reif sundur klæði sín og lagðist á jörðu, og allir þjónar hans, þeir er stóðu umhverfis hann, rifu sundur klæði sín.32 Þá tók Jónadab, sonur Símea, bróður Davíðs, til máls og sagði: "Herra minn, hugsa þú ekki, að þeir hafi drepið alla hina ungu menn, sonu konungsins, því að Amnon einn er dauður, enda vissi á illt svipurinn, sem legið hefir um munn Absalons, síðan er Amnon nauðgaði Tamar systur hans.33 Minn herra konungurinn láti þetta því eigi á sig fá og hugsi ekki, að allir synir konungsins séu dauðir. Nei, Amnon einn er dauður."34 Absalon flýði. En er varðsveininum varð litið upp, sá hann margt manna koma ofan fjallið á veginum til Hórónaím. Varðmaðurinn kom og sagði konungi frá og mælti: "Ég sá menn koma af veginum til Hórónaím niður undan fjallinu."35 Þá sagði Jónadab við konung: "Sjá, þar koma synir konungsins. Svo hefir allt til gengið, sem þjónn þinn sagði."36 Og er hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá komu synir konungs og grétu hástöfum. Konungur og þjónar hans tóku þá að gráta ákaflega.37 Absalon flýði og fór til Talmaí Ammíhúðssonar konungs í Gesúr. Og konungur harmaði son sinn alla daga.38 Absalon flýði og fór til Gesúr og var þar í þrjú ár.39 En konungur þráði að fara til Absalons, því að hann hafði huggast látið yfir því, að Amnon var dáinn.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile