Lectionary Calendar
Wednesday, December 25th, 2024
Christmas Day
Attention!
StudyLight.org has pledged to help build churches in Uganda. Help us with that pledge and support pastors in the heart of Africa.
Click here to join the effort!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Síðari konungabók 4

1 Ein af konum spámannasveinanna kallaði til Elísa og mælti: "Þjónn þinn, maðurinn minn, er dáinn, og þú veist, að þjónn þinn óttaðist Drottin. Nú er lánssalinn kominn til að taka báða drengina mína sér að þrælum."2 En Elísa sagði við hana: "Hvað á ég að gjöra fyrir þig? Seg þú mér, hvað þú átt til heima." Hún svaraði: "Ambátt þín á ekkert til heima, nema krús með olífuolíu."3 Þá mælti hann: "Far þú þá og fá til láns ílát utan húss hjá öllum nágrönnum þínum, tóm ílát, og heldur fleiri en færri.4 Gakk því næst inn og loka dyrunum á eftir þér og sonum þínum og hell í öll þessi ílát og set þau frá þér jafnóðum og þau fyllast."5 Gekk hún þá burt frá honum. Og hún lokaði dyrunum á eftir sér og sonum sínum. Þeir báru að henni, en hún hellti í.6 En er ílátin voru full, sagði hún við son sinn: "Fær mér enn ílát." Hann sagði við hana: "Það er ekkert ílát eftir." Þá hætti olífuolían að renna.7 Fór hún þá og sagði guðsmanninum frá, en hann sagði: "Far þú nú og sel olíuna og gjald skuld þína, en haf til viðurlífis þér og sonum þínum það, sem afgangs verður."

8 Það bar til einn dag, að Elísa gekk yfir til Súnem. Þar var auðug kona, og lagði hún að honum að þiggja mat hjá sér. Og í hvert sinn, sem hann fór um, gekk hann þar inn til að matast.9 Og hún sagði við mann sinn: "Heyrðu, ég sé að það er heilagur guðsmaður, sem stöðuglega fer um hjá okkur.10 Við skulum gjöra lítið loftherbergi með múrveggjum og setja þangað rúm og borð og stól og ljósastiku, svo að hann geti farið þangað, þegar hann kemur til okkar."11 Einn dag kom Elísa þar, gekk inn í loftherbergið og lagðist þar til svefns.12 Síðan sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún gekk fyrir hann.13 Þá sagði hann við Gehasí: "Seg þú við hana: ,Þú hefir haft alla þessa fyrirhöfn fyrir okkur, hvað á ég að gjöra fyrir þig? Þarft þú að láta tala máli þínu við konung eða við hershöfðingjann?'" Hún svaraði: "Ég bý hér á meðal ættfólks míns."14 Þá sagði Elísa við Gehasí: "Hvað á ég þá að gjöra fyrir hana?" Gehasí mælti: "Jú, hún á engan son, og maður hennar er gamall."15 Þá sagði Elísa: "Kalla þú á hana." Og hann kallaði á hana, og hún nam staðar í dyrunum.16 Þá mælti hann: "Að ári um þetta leyti munt þú faðma að þér son." En hún mælti: "Nei, herra minn, þú guðsmaður, skrökva þú eigi að ambátt þinni."17 En konan varð þunguð og ól son næsta ár í sama mund, eins og Elísa hafði heitið henni.

18 Þegar sveinninn var kominn á legg, gekk hann einn dag til föður síns, út til kornskurðarmannanna.19 Þá sagði hann við föður sinn: "Æ, höfuðið á mér, höfuðið á mér!" En faðir hans sagði við svein sinn: "Ber þú hann til móður sinnar."20 Og hann tók hann og færði hann móður hans, og hann sat í kjöltu hennar til hádegis, þá dó hann.21 Þá gekk hún upp, lagði hann í rekkju guðsmannsins, lokaði að honum og gekk burt.22 Þá kallaði hún á mann sinn og sagði við hann: "Send þú mér einn af sveinunum og eina ösnu. Ég ætla sem skjótast að fara til fundar við guðsmanninn og koma síðan aftur."23 En hann mælti: "Hvers vegna ætlar þú að fara til hans í dag? Það er hvorki tunglkomudagur né hvíldardagur." Hún mælti: "Það gjörir ekkert til!"24 Síðan söðlaði hún ösnuna og sagði við svein sinn: "Rektu nú hart! Linaðu eigi á, uns ég segi þér."25 Síðan fór hún og kom til guðsmannsins á Karmelfjalli. En er guðsmaðurinn sá hana álengdar, sagði hann við Gehasí, svein sinn: "Þetta er konan frá Súnem!26 Hlaup þú nú á móti henni og seg við hana: ,Hvernig líður þér, hvernig líður manni þínum, hvernig líður drengnum?'" Hún svaraði: "Okkur líður vel."27 En er hún kom á fjallið til guðsmannsins, tók hún um fætur honum. Þá gekk Gehasí að og vildi hrinda henni frá. En guðsmaðurinn mælti: "Láttu hana vera, því að hún er harmþrungin mjög, og Drottinn hefir leynt mig því og eigi látið mig vita það."28 Þá mælti hún: "Hefi ég beðið herra minn um son? Sagði ég ekki: ,Drag mig ekki á tálar?'"29 Þá sagði hann við Gehasí: "Gyrð þú lendar þínar, tak staf minn í hönd þér og far af stað. Þó að einhver mæti þér, þá heilsaðu honum ekki, og þó að einhver heilsi þér, þá taktu ekki undir við hann, og legg staf minn yfir andlit sveinsins."30 En móðir sveinsins mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, þá fer ég ekki frá þér." Stóð hann þá upp og fór með henni.31 Gehasí var farinn á undan þeim og hafði lagt stafinn yfir andlit sveinsins, en þar var steinhljóð og ekkert lífsmark. Þá sneri hann við í móti honum og sagði honum svo frá: "Ekki vaknar sveinninn!"32 Þegar Elísa kom inn í húsið, þá lá sveinninn dauður í rekkju hans.33 Þá gekk hann inn og lokaði dyrunum að þeim báðum og bað til Drottins.34 Síðan steig hann upp í og lagðist yfir sveininn, lagði sinn munn yfir hans munn, sín augu yfir hans augu og sínar hendur yfir hans hendur og beygði sig yfir hann. Hitnaði þá líkami sveinsins.35 Þá kom hann aftur, gekk einu sinni aftur og fram um húsið, fór síðan upp og beygði sig yfir hann. Þá hnerraði sveinninn sjö sinnum. Því næst lauk hann upp augunum.36 Þá kallaði Elísa á Gehasí og sagði: "Kalla þú á súnemsku konuna." Og hann kallaði á hana, og hún kom til hans. Þá sagði hann: "Tak við syni þínum!"37 Þá kom hún og féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og fór burt.

38 Elísa kom aftur til Gilgal meðan hallæri var í landinu. Og er spámannasveinarnir sátu frammi fyrir honum, sagði hann við svein sinn: "Settu upp stóra pottinn og sjóð rétt matar handa spámannasveinunum."39 Þá gekk einn út í hagann að tína jurtir og fann villivafteinung og tíndi á honum yfirhöfn sína fulla af villi-agúrkum, fór síðan heim og brytjaði þær í matarpottinn, því að þeir þekktu þær ekki.40 Síðan helltu þeir upp fyrir mennina til að eta. En er þeir brögðuðu á matnum, hljóðuðu þeir upp yfir sig og sögðu: "Dauðinn er í pottinum, þú guðsmaður!" og þeir gátu ekki etið það.41 En hann mælti: "Komið með mjöl!" Og hann kastaði því í pottinn. Síðan sagði hann: "Hell nú upp fyrir fólkið, að það megi eta." Þá var ekkert skaðvænt í pottinum.42 Maður kom frá Baal Salísa og færði guðsmanninum frumgróðabrauð, tuttugu byggbrauð og mulið korn í mal sínum. Og Elísa sagði: "Gefðu fólkinu það að eta."43 En þjónn hans mælti: "Hvernig get ég borið þetta hundrað mönnum?" Hann svaraði: "Gefðu fólkinu það að eta. Því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa."44 Þá lagði hann það fyrir þá, en þeir neyttu og gengu frá leifðu, eins og Drottinn hafði sagt.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile