Christmas Day
free while helping to build churches and support pastors in Uganda.
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Síðari konungabók 23
1 Þá sendi konungur út menn til þess að safna til sín öllum öldungum í Júda og Jerúsalem.2 Og konungur gekk upp í musteri Drottins og með honum allir Júdamenn og Jerúsalembúar, svo og prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn, bæði ungir og gamlir, og hann las í áheyrn þeirra öll orð sáttmálsbókarinnar, er fundist hafði í musteri Drottins.3 Og konungur gekk að súlunni og gjörði þann sáttmála frammi fyrir Drottni, að fylgja Drottni og varðveita skipanir hans, fyrirmæli og lög af öllu hjarta og af allri sálu til þess að fullnægja þannig orðum sáttmála þessa, þau er rituð voru í þessari bók. Og allur lýðurinn gekkst undir sáttmálann.
4 Síðan bauð konungur Hilkía æðsta presti og óæðri prestunum og dyravörðunum að taka burt úr aðalhúsi musteris Drottins öll áhöld, þau er gjörð höfðu verið handa Baal og Aséru og öllum himinsins her. Og hann lét brenna þau fyrir utan Jerúsalem á Kídronvöllum, og askan af þeim var flutt til Betel.5 Hann rak og burt skurðgoðaprestana, er Júdakonungar höfðu skipað og fært höfðu reykelsisfórnir á fórnarhæðunum í borgum Júda og í grenndinni við Jerúsalem, svo og þá er fært höfðu Baal fórnir og sólinni, tunglinu, stjörnumerkjunum og öllum himinsins her.6 Hann lét flytja aséruna burt úr musteri Drottins, út fyrir Jerúsalem, og brenndi hana í Kídrondal, muldi hana mjölinu smærra og stráði duftinu á grafir múgamanna. 7 Þá braut hann og niður hús þeirra manna, er helgað höfðu sig saurlifnaði, þau er voru við musteri Drottins, þar sem konur ófu hjúpa á aséruna.8 Hann lét alla presta koma frá borgunum í Júda og afhelgaði fórnarhæðirnar, þar sem prestarnir höfðu fórnað, frá Geba til Beerseba. Hann braut og niður hæðir hafurlíkneskjanna, sem stóðu úti fyrir hliði Jósúa borgarstjóra, en það er á vinstri hönd, þá er inn er gengið um borgarhliðið.9 Þó máttu hæðaprestarnir eigi ganga upp að altari Drottins í Jerúsalem, heldur átu þeir ósýrð brauð meðal bræðra sinna.10 Hann afhelgaði brennslugrófina í Hinnomssonardal, til þess að enginn léti framar son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn Mólok til handa.11 Hann tók og burt hesta þá, sem Júdakonungar höfðu sett til vegsemdar sólinni við innganginn að musteri Drottins, nálægt herbergi Netan Meleks hirðmanns, sem var í forgarðinum. En vagna sólarinnar brenndi hann í eldi.12 Og ölturun, sem voru á þakinu yfir veggsvölum Akasar, er Júdakonungar höfðu reist, og ölturun, er Manasse hafði reist í báðum forgörðum musteris Drottins, reif konungur niður, og hann skundaði þaðan og kastaði öskunni af þeim í Kídrondal.13 Konungur afhelgaði og fórnarhæðirnar, sem voru fyrir austan Jerúsalem, sunnanvert við Skaðræðisfjall, og Salómon Ísraelskonungur hafði reist Astarte, viðurstyggð Sídoninga, og Kamos, viðurstyggð Móabíta, og Milkóm, svívirðing Ammóníta.14 Hann braut og sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar og fyllti staðinn, þar sem þær höfðu verið, með mannabeinum.15 Sömuleiðis altarið í Betel, fórnarhæðina, sem Jeróbóam Nebatsson hafði gjöra látið, sá er kom Ísrael til að syndga - einnig þetta altari og fórnarhæðina reif hann niður. Og hann brenndi aséruna og muldi hana mjölinu smærra.16 En er Jósía sneri sér við og sá grafirnar, sem voru þar á fjallinu, þá sendi hann menn og lét sækja beinin í grafirnar, brenndi þau á altarinu og afhelgaði það samkvæmt orði Drottins, því er guðsmaðurinn hafði boðað, sá er boðaði þessa hluti.17 Síðan sagði hann: "Hvaða legsteinn er þetta, sem ég sé?" Og borgarmenn svöruðu honum: "Það er gröf guðsmannsins, sem kom frá Júda og boðaði þessa hluti, sem þú hefir nú gjört, gegn altarinu í Betel."18 Þá mælti hann: "Látið hann vera, enginn ónáði bein hans!" Þannig létu þeir bein hans og bein spámannsins, sem kominn var frá Samaríu, vera í friði.19 Auk þess afnam Jósía öll hæðahofin, sem voru í borgum Samaríu, þau er Ísraelskonungar höfðu reist til þess að egna Drottin til reiði, og fór alveg eins með þau eins og hann hafði gjört í Betel.20 Og hann slátraði öllum hæðaprestunum, sem þar voru, á ölturunum og brenndi mannabein á þeim. Síðan sneri hann aftur til Jerúsalem.21 Konungur bauð öllum lýðnum á þessa leið: "Haldið Drottni Guði yðar páska, eins og ritað er í sáttmálsbók þessari."22 Engir slíkir páskar höfðu haldnir verið frá því á dögum dómaranna, er dæmt höfðu í Ísrael, né heldur alla daga Ísraelskonunga og Júdakonunga,23 en á átjánda ríkisári Jósía konungs voru Drottni haldnir þessir páskar í Jerúsalem. 24 Enn fremur eyddi Jósía þeim mönnum, er höfðu þjónustuanda, svo og spásagnamönnum, húsgoðum og skurðgoðum og öllum þeim viðurstyggðum, er sáust í Júda og Jerúsalem, til þess að fullnægja fyrirmælum lögmálsins, þeim er rituð voru í bókinni, sem Hilkía prestur hafði fundið í musteri Drottins.
25 Og hans maki hafði enginn konungur verið á undan honum, er svo hafði snúið sér til Drottins af öllu hjarta sínu, allri sálu sinni og öllum mætti sínum, alveg eftir lögmáli Móse, og eftir hann kom enginn honum líkur.26 Þó lét Drottinn eigi af sinni brennandi heiftarreiði, af því að reiði hans var upptendruð gegn Júda vegna allrar þeirrar móðgunar, er Manasse hafði egnt hann með.27 Og Drottinn mælti: "Ég vil einnig afmá Júda frá augliti mínu eins og ég hefi afmáð Ísrael, og ég vil hafna þessari borg, er ég hefi útvalið, Jerúsalem, og musterinu, er ég sagði um, að nafn mitt skyldi vera þar."28 Það sem meira er að segja um Jósía og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.29 Á hans dögum fór Faraó Nekó Egyptalandskonungur herför móti Assýríukonungi austur að Efratfljóti. Þá fór Jósía konungur í móti honum, en Nekó drap hann í Megiddó, þegar er hann sá hann.30 Óku menn hans honum dauðum frá Megiddó, fluttu hann til Jerúsalem og grófu hann í gröf hans. En landslýðurinn tók Jóahas Jósíason og smurði hann og tók hann til konungs í stað föður hans.
31 Jóahas var tuttugu og þriggja ára að aldri, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna.32 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört höfðu forfeður hans.33 Faraó Nekó lét fjötra hann í Ribla í Hamathéraði, til þess að hann skyldi eigi framar ríkja í Jerúsalem, og lagði skattgjald á landið, hundrað talentur silfurs og tíu talentur gulls.34 Og Faraó Nekó gjörði Eljakím Jósíason að konungi í stað Jósía föður hans og breytti nafni hans í Jójakím, en tók Jóahas með sér, og fór hann til Egyptalands og dó þar.35 Jójakím greiddi Faraó silfur og gull. Hann varð að leggja skatt á landið til þess að geta goldið fé það, er Faraó krafðist. Heimti hann silfrið og gullið saman af landslýðnum, eftir því sem jafnað hafði verið niður á hvern og einn, til þess að geta greitt Faraó Nekó það.36 Jójakím var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Sebúdda Pedajadóttir og var frá Rúma.37 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört höfðu forfeður hans.