Christmas Eve
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Síðari kroníkubók 33
1 Manasse var tólf ára gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem.2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar sem þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.3 Hann reisti af nýju fórnarhæðirnar, er Hiskía faðir hans hafði rífa látið, reisti Baölunum ölturu og lét gjöra asérur, dýrkaði allan himinsins her og þjónaði þeim.4 Hann reisti og ölturu í musteri Drottins, því er Drottinn hafði um sagt: "Í Jerúsalem skal nafn mitt búa að eilífu!"5 Og hann reisti ölturu fyrir allan himinsins her í báðum forgörðum musteris Drottins.6 Hann lét og sonu sína ganga gegnum eldinn í Hinnomssonardal, fór með spár og fjölkynngi og töfra og skipaði særingamenn og spásagna. Hann aðhafðist margt það, sem illt var í augum Drottins og egndi hann til reiði.7 Hann setti skurðgoðið, er hann hafði gjöra látið, í musteri Guðs, er Guð hafði sagt um við Davíð og Salómon son hans: "Í þessu húsi og í Jerúsalem, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels, vil ég láta nafn mitt búa að eilífu.8 Og ég vil eigi framar láta Ísrael fara landflótta úr landi því, er ég gaf feðrum þeirra, svo framarlega sem þeir gæta þess að breyta að öllu svo sem ég hefi boðið þeim, að öllu eftir lögmáli því og lögum og ákvæðum, er gefin voru fyrir Móse."9 En Manasse leiddi Júda og Jerúsalembúa afvega, svo að þeir breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum.10 Og Drottinn talaði til Manasse og til lýðs hans, en þeir gáfu því engan gaum.
11 Þá lét Drottinn hershöfðingja Assýríukonungs ráðast að þeim; þeir tóku Manasse höndum með krókum, bundu hann eirfjötrum og fluttu hann til Babýlon.12 En er hann var í nauðum staddur, reyndi hann að blíðka Drottin, Guð sinn, og lægði sig mjög fyrir Guði feðra sinna.13 Og er hann bað hann, þá bænheyrði Drottinn hann. Hann heyrði grátbeiðni hans og lét hann hverfa heim aftur til Jerúsalem í ríki sitt. Komst þá Manasse að raun um, að Drottinn er Guð.14 Eftir þetta reisti hann ytri múr fyrir Davíðsborg að vestanverðu við Gíhon í dalnum, og þangað að, er gengið er inn í Fiskhliðið, reisti hann í kringum Ófel, og gjörði hann mjög háan. Hann setti og herforingja í allar kastalaborgir í Júda.15 Þá útrýmdi hann og útlendu guðunum og líkneskinu úr musteri Drottins, svo og öllum ölturunum, er hann hafði reisa látið á musterisfjalli Drottins og í Jerúsalem, og fleygði þeim út fyrir borgina.16 En altari Drottins reisti hann við, og færði á því heillafórnir og þakkarfórnir, og Júdamönnum bauð hann að þjóna Drottni, Guði Ísraels.17 En þó færði lýðurinn enn þá fórnir á hæðunum, en samt aðeins Drottni, Guði sínum.18 Það sem meira er að segja um Manasse og bæn hans til Guðs hans, svo og orð sjáandanna, er töluðu til hans í nafni Drottins, Guðs Ísraels, það er ritað í Sögu Ísraelskonunga.19 En um bæn hans og hvernig hann var bænheyrður, og um allar syndir hans og ótrúmennsku, svo og um staðina, þar sem hann reisti fórnarhæðir og setti asérur og líkneski, áður en hann lægði sig, um það er ritað í sögu sjáandanna.20 Og Manasse lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í höll sinni. Og Amón sonur hans tók ríki eftir hann.
21 Amón hafði tvo um tvítugt, þá er hann varð konungur, og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem.22 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans. Öllum skurðgoðunum, er Manasse faðir hans hafði gjöra látið, færði Amón margar fórnir og þjónaði þeim.23 En hann lægði sig eigi fyrir Drottni, svo sem gjört hafði Manasse faðir hans, heldur jók hann á sök sína.24 Þjónar hans gjörðu samsæri í gegn honum, og drápu hann í höll hans.25 En landslýðurinn drap alla mennina, er gjört höfðu samsæri gegn Amón konungi. Síðan tók landslýðurinn Jósía son hans til konungs eftir hann.