the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Síðari kroníkubók 30
1 Síðan sendi Hiskía menn til alls Ísraels og Júda og ritaði einnig bréf til Efraíms og Manasse um að koma til musteris Drottins í Jerúsalem til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska.2 Réð konungur það af og höfuðsmenn hans og allur söfnuðurinn í Jerúsalem, að halda páska í öðrum mánuðinum.3 Því að um þetta leyti gátu þeir eigi haldið þá, sakir þess að eigi höfðu nægilega margir prestar helgað sig og lýðnum var eigi enn stefnt saman til Jerúsalem.4 Leist konungi og söfnuðinum öllum þetta rétt,5 og kváðu því svo á, að boða skyldi um allan Ísrael frá Beerseba til Dan, að menn skyldu koma til þess að halda Drottni, Guði Ísraels, páska í Jerúsalem, því að þeir höfðu eigi haldið þá eins fjölmennir og fyrir var mælt.6 Þá fóru hraðboðarnir með bréf frá konungi og höfuðsmönnum hans um allan Ísrael og Júda, og mæltu svo eftir boði konungs: "Þér Ísraelsmenn! Snúið aftur til Drottins, Guðs Abrahams, Ísaks og Ísraels, til þess að hann snúi sér að leifunum, er komist hafa undan af yður úr hendi Assýríukonungs.7 Verið eigi sem feður yðar og frændur, er sýndu ótrúmennsku Drottni, Guði feðra sinna, svo að hann ofurseldi þá eyðileggingunni, svo sem þér sjáið.8 Þverskallist því eigi svo sem feður yðar, réttið Drottni höndina og komið til helgidóms hans, er hann hefir helgað að eilífu, og þjónið Drottni, Guði yðar, svo að hin brennandi reiði hans megi hverfa frá yður.9 Því að ef þér snúið yður til Drottins, þá munu bræður yðar og synir finna miskunn hjá þeim, er hafa flutt þá burt hernumda, svo að þeir megi hverfa heim aftur til þessa lands. Því að náðugur og miskunnsamur er Drottinn, Guð yðar, og hann mun eigi snúa augliti sínu frá yður, ef þér snúið yður aftur til hans."10 Og hraðboðarnir fóru úr einni borginni í aðra í Efraím- og Manasselandi og allt til Sebúlons, en menn hlógu að þeim og gjörðu gys að þeim.11 Þó lægðu sig nokkrir menn af Asser, Manasse og Sebúlon, og komu til Jerúsalem.12 Einnig í Júda réð hönd Guðs, svo að hann gaf þeim eindrægni til þess að fylgja boði því, er konungur og höfuðsmennirnir höfðu látið út ganga að boði Drottins.
13 Síðan safnaðist fjöldi fólks saman í Jerúsalem til þess að halda hátíð hinna ósýrðu brauða í öðrum mánuði. Var það afar mikill söfnuður.14 Hófust þeir þá handa og afnámu ölturun, er voru í Jerúsalem, svo afnámu þeir og öll reykelsisölturun og fleygðu í Kídronlæk.15 Síðan slátruðu þeir páskalambinu á fjórtánda degi hins annars mánaðar, og prestarnir og levítarnir blygðuðust sín og færðu brennifórnir í musteri Drottins.16 Og þeir gengu fram á sinn ákveðna stað, eins og þeim var fyrir sett samkvæmt lögmáli guðsmannsins Móse. Stökktu prestarnir blóðinu, er þeir höfðu tekið við því hjá levítunum.17 Því að margir voru þeir í söfnuðinum, er eigi höfðu helgað sig, en levítarnir sáu um slátrun á páskalömbunum fyrir alla þá, er eigi voru hreinir, til þess að helga þau Drottni.18 Því að fjöldi lýðsins, margir úr Efraím, Manasse, Íssakar og Sebúlon höfðu eigi hreinsað sig, og neyttu eigi páskalambsins á þann hátt, sem fyrir er mælt, en Hiskía bað fyrir þeim og sagði: "Drottinn, sem er góður, fyrirgefi19 hverjum er leggur hug á að leita Guðs, Drottins, Guðs feðra sinna, enda þótt hann eigi sé svo hreinn sem sæmir helgidóminum."20 Og Drottinn bænheyrði Hiskía og þyrmdi lýðnum.
21 Svo héldu þá Ísraelsmenn, þeir er voru í Jerúsalem, hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með miklum fögnuði, og prestarnir og levítarnir lofuðu Drottin dag eftir dag af öllum mætti.22 Og Hiskía talaði vinsamlega við alla levítana, er sýndu góðan skilning á þjónustu Drottins. Átu þeir síðan hátíðarfórnina í sjö daga og slátruðu heillafórnum og lofuðu Drottin, Guð feðra sinna.23 Og allur söfnuðurinn réð það af að halda hátíð aðra sjö daga, og héldu þeir svo fagnaðarhátíð í sjö daga.24 Því að Hiskía Júdakonungur hafði gefið söfnuðinum þúsund naut og sjö þúsund sauði, og höfuðsmennirnir höfðu gefið söfnuðinum þúsund naut og tíu þúsund sauði. Og fjöldi presta helgaði sig.25 Svo fagnaði þá allur Júdasöfnuður og prestarnir og levítarnir og allur söfnuður þeirra, er komnir voru úr Ísrael, og útlendingarnir, er komnir voru úr Ísraelslandi, og þeir er bjuggu í Júda.26 Og mikill fögnuður var í Jerúsalem, því að síðan á dögum Salómons, sonar Davíðs Ísraelskonungs, hafði slíkt eigi borið við í Jerúsalem.27 Og levítaprestarnir stóðu upp og blessuðu lýðinn, og hróp þeirra var heyrt og bæn þeirra komst til hins heilaga bústaðar hans, til himins.