Christmas Eve
free while helping to build churches and support pastors in Uganda.
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Síðari kroníkubók 13
1 Á átjánda ríkisári Jeróbóams varð Abía konungur yfir Júda.2 Þrjú ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka Úríelsdóttir frá Gíbeu. En þeir áttu í ófriði saman, Abía og Jeróbóam.3 Og Abía hóf ófriðinn með hraustu herliði, fjögur hundruð þúsundum einvalaliðs, en Jeróbóam fylkti til orustu á móti honum átta hundruð þúsundum einvalaliðs, hraustum köppum.4 Þá gekk Abía upp á Semaraímfjall í Efraímfjöllum og mælti: "Hlýðið á mig, Jeróbóam og allur Ísrael!5 Hvort vitið þér eigi að Drottinn, Ísraels Guð, veitti Davíð ævarandi konungdóm yfir Ísrael, honum og niðjum hans, með saltsáttmála?6 En Jeróbóam Nebatsson, þjónn Salómons, sonar Davíðs, hófst handa og gjörði uppreisn gegn herra sínum.7 Og að honum söfnuðust lausingjar og hrakmenni, og þeir urðu yfirsterkari Rehabeam syni Salómons, en Rehabeam var ungur og hugdeigur og fékk eigi veitt þeim viðnám.8 Og nú hyggist þér munu veita viðnám konungdómi Drottins, þeim er niðjar Davíðs hafa á hendi, af því að þér eruð mjög fjölmennir, og gullkálfarnir, þeir er Jeróbóam hefir gjöra látið yður að guðum, eru með yður.9 Hafið þér þá eigi rekið burt presta Drottins, niðja Arons, og levítana, og gjört yður presta að sið heiðinna þjóða? Hver sá, er kom til þess að láta fylla hönd sína með ungt naut og sjö hrúta, hann varð prestur falsguðanna.10 En vor Guð er Drottinn, vér höfum eigi yfirgefið hann, og niðjar Arons hafa á hendi prestþjónustu fyrir Drottin, og levítar hafa störf á hendi11 og færa Drottni á hverjum morgni og hverju kveldi brennifórnir og ilmreykelsi og leggja brauð í raðir á borðið úr skíru gulli og kveikja á hverju kveldi á gullstjakanum og lömpum hans. Því að vér gætum ákvæða Drottins, Guðs vors, en þér hafið yfirgefið hann.12 Og sjá! Guð er með oss í broddi fylkingar og prestar hans með hvellilúðrana til þess að blása til atlögu gegn yður. Þér Ísraelsmenn! Berjist eigi gegn Drottni, Guði feðra yðar, því að þér munuð engu fá framgengt."
13 En Jeróbóam lét þá, er lágu í launsátri, fara í kring til þess að koma að baki þeim. Voru þeir gagnvart Júdamönnum, en launsátursliðið að baki þeim.14 Og er Júdamenn sneru sér við, sáu þeir að þeim var búinn bardagi bæði að baki og að framan. Þá hrópuðu þeir til Drottins, og prestarnir þeyttu lúðrana,15 og Júdamenn æptu heróp, og er Júdamenn æptu heróp, þá laust Guð Jeróbóam og allan Ísrael í augsýn Abía og Júda.16 Og Ísraelsmenn flýðu fyrir Júdamönnum, og Guð gaf þá þeim á vald.17 Og Abía og lið hans felldu þá unnvörpum, svo að fimm hundruð þúsund einvalaliðs féllu af Ísraelsmönnum, vopnum vegnir.18 Þannig urðu Ísraelsmenn að lúta í lægra haldi um þær mundir, og Júdamenn urðu yfirsterkari, því að þeir studdust við Drottin, Guð feðra þeirra.19 En Abía veitti Jeróbóam eftirför og vann af honum borgir: Betel og þorpin umhverfis hana, Jesana og þorpin umhverfis hana og Efron og þorpin umhverfis hana.20 Og Jeróbóam var máttvana síðan, meðan Abía lifði, og Drottinn laust hann, svo að hann dó.21 En Abía efldist, og hann tók sér fjórtán konur og gat tuttugu og tvo sonu og sextán dætur.22 En það sem meira er að segja um Abía, athafnir hans og orð, það er ritað í Skýringum Íddós spámanns.