Christmas Day
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Fyrra Þessaloníkubréf 3
1 Þar kom, að vér þoldum ekki lengur við og réðum þá af að verða einir eftir í Aþenu,2 en sendum Tímóteus, bróður vorn og aðstoðarmann Guðs við fagnaðarerindið um Krist, til að styrkja yður og áminna í trú yðar,3 svo að enginn láti bifast í þrengingum þessum. Þér vitið sjálfir, að þetta er oss ætlað.4 Þegar vér vorum hjá yður, þá sögðum vér yður fyrir, að vér mundum verða að þola þrengingar. Það kom líka fram, eins og þér vitið.5 Því þoldi ég ekki lengur við og sendi Tímóteus til að fá að vita um trú yðar, hvort freistarinn kynni að hafa freistað yðar og erfiði vort orðið til einskis.
6 En nú er hann aftur kominn til vor frá yður og hefur borið oss gleðifregn um trú yðar og kærleika, að þér ávallt munið eftir oss með hlýjum hug og yður langi til að sjá oss, eins og oss líka til að sjá yður.7 Sökum þessa höfum vér, bræður, huggun hlotið vegna trúar yðar þrátt fyrir alla neyð og þrengingu.8 Nú lifum vér, ef þér standið stöðugir í Drottni.9 Hvernig getum vér nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði, er vér höfum af yður frammi fyrir Guði vorum?10 Og vér biðjum nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá yður og bæta úr því, sem trú yðar er áfátt.
11 Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg vorn til yðar.12 En Drottinn efli yður og auðgi að kærleika hvern til annars og til allra, eins og vér berum kærleika til yðar.13 Þannig styrkir hann hjörtu yðar, svo að þér verðið óaðfinnanlegir og heilagir frammi fyrir Guði, föður vorum, við komu Drottins vors Jesú ásamt öllum hans heilögu.