Lectionary Calendar
Wednesday, December 25th, 2024
Christmas Day
Attention!
For 10¢ a day you can enjoy StudyLight.org ads
free while helping to build churches and support pastors in Uganda.
Click here to learn more!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Fyrri Samúelsbók 4

1 Orð Samúels kom til alls Ísraels. Og Ísrael fór í móti Filistum til hernaðar, og settu þeir herbúðir sínar hjá Ebeneser, en Filistar settu herbúðir sínar hjá Afek.2 Og Filistar fylktu liði sínu gegn Ísrael, og hallaðist bardaginn: Ísrael beið ósigur fyrir Filistum, og þeir felldu í valinn á vígvellinum um fjögur þúsund manns.3 Og er lýðurinn kom aftur í herbúðirnar, þá sögðu öldungar Ísraels: "Hví hefir Drottinn látið oss bíða ósigur í dag fyrir Filistum? Vér skulum sækja sáttmálsörk Drottins til Síló, og þegar hún er komin hér meðal vor, mun hún frelsa oss af hendi óvina vorra."4 Þá sendi lýðurinn menn til Síló, og þeir tóku þaðan sáttmálsörk Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum. Báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, fóru með sáttmálsörk Guðs.5 En þegar sáttmálsörk Drottins kom í herbúðirnar, þá laust allur Ísrael upp svo miklu fagnaðarópi, að jörðin dundi.6 Þegar Filistar heyrðu óminn af fagnaðarópinu, sögðu þeir: "Hvað merkir þetta glymjandi fagnaðaróp í herbúðum Hebrea?" Og er þeir urðu þess vísir, að örk Drottins væri komin í herbúðirnar,7 þá urðu þeir skelkaðir, því að þeir hugsuðu: "Guð er kominn til þeirra í herbúðirnar," og sögðu: "Vei oss, því að slíkt hefir aldrei áður til borið!8 Vei oss! Hver mun frelsa oss af hendi þessara voldugu guða? Það voru þessir guðir, sem lustu Egypta með alls konar plágum í eyðimörkinni.9 Herðið ykkur upp og verið menn, Filistar, svo að þér verðið ekki ánauðugir Hebreum, eins og þeir hafa verið yður ánauðugir. Verið því menn og berjist!"

10 Og Filistar börðust, og Ísrael hafði ósigur, og þeir flýðu, hver heim til sín. Og mannfallið var mjög mikið: féllu af Ísrael þrjátíu þúsundir fótgangandi manna.11 Og Guðs örk var tekin, og báðir synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, létu lífið.

12 Benjamíníti nokkur hljóp úr orustunni og kom til Síló þennan sama dag í rifnum klæðum og með mold á höfði sér.13 Og er hann kom, sjá, þá sat Elí á stól við hliðið og starði út á veginn, því að hann var hugsjúkur um örk Guðs. Og er maðurinn kom að segja þessi tíðindi í borginni, þá tók öll borgin að kveina.14 En er Elí heyrði óminn af harmakveininu, sagði hann: "Hvað merkir þessi háreysti?" Og maðurinn hraðaði sér og kom og sagði Elí tíðindin.15 En Elí var níutíu og átta ára gamall og augu hans stirðnuð, svo að hann mátti ekki sjá.16 Og maðurinn sagði við Elí: "Ég kem úr orustunni, ég flýði í dag úr orustunni." Þá sagði Elí: "Hvernig hefir það gengið, sonur minn?"17 Maðurinn, sem tíðindin flutti, svaraði og mælti: "Ísrael er flúinn fyrir Filistum, og líka var mikið mannfall meðal fólksins, og einnig eru báðir synir þínir, þeir Hofní og Pínehas, dauðir, og Guðs örk er tekin."18 En er hann nefndi Guðs örk, þá féll Elí aftur á bak úr stólnum við hliðið og hálsbrotnaði, og varð það hans bani, því að hann var gamall maður og þungur. En hann hafði verið dómari í Ísrael í fjörutíu ár.

19 Tengdadóttir hans, kona Pínehasar, var þunguð og komin að falli, og er hún heyrði tíðindin, að Guðs örk væri tekin og tengdafaðir hennar og maður dauðir, þá hné hún niður og fæddi, því að jóðsóttin kom yfir hana.20 En er hún var komin í dauðann, sögðu konurnar, er yfir henni stóðu: "Óttast ekki, því að þú hefir son fætt." En hún svaraði engu og gaf því engan gaum,21 heldur nefndi sveininn Íkabóð og sagði: "Horfin er vegsemdin frá Ísrael" - vegna þess að Guðs örk var tekin, og vegna tengdaföður síns og manns síns.22 Hún sagði: "Horfin er vegsemdin frá Ísrael, því að Guðs örk er tekin."

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile