the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to join the effort!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Fyrri Samúelsbók 24
1 (24:2) Og þegar Sál kom aftur úr herförinni móti Filistum, báru menn honum tíðindi og sögðu: "Sjá, Davíð er í Engedí-eyðimörk."2 (24:3) Þá tók Sál þrjár þúsundir manns, einvalalið úr öllum Ísrael, og lagði af stað til að leita Davíðs og hans manna austan í Steingeitahömrum.3 (24:4) Og hann kom að fjárbyrgjunum við veginn. Þar var hellir, og gekk Sál inn í hann erinda sinna. En Davíð og hans menn höfðu lagst fyrir innst í hellinum.4 (24:5) Þá sögðu menn Davíðs við hann: "Nú er dagurinn kominn, sá er Drottinn talaði um við þig: ,Sjá, ég mun gefa óvin þinn í hendur þér, svo að þú getir við hann gjört það, er þér vel líkar.'" Og Davíð stóð upp og sneið leynilega lafið af skikkju Sáls.5 (24:6) En eftir á sló samviskan Davíð, að hann hafði sniðið lafið af skikkju Sáls.6 (24:7) Og hann sagði við menn sína: "Drottinn láti það vera fjarri mér, að ég gjöri slíkt við herra minn, Drottins smurða, að ég leggi hönd á hann, því að Drottins smurði er hann."7 (24:8) Og Davíð átaldi menn sína harðlega og leyfði þeim ekki að ráðast á Sál. Sál stóð upp og gekk út úr hellinum og fór leiðar sinnar.8 (24:9) Þá reis Davíð upp og gekk út úr hellinum og kallaði á eftir Sál: "Minn herra konungur!" Þá leit Sál aftur, en Davíð hneigði andlit sitt til jarðar og laut honum.
9 (24:10) Og Davíð sagði við Sál: "Hví hlýðir þú á tal þeirra manna, sem segja: ,Sjá, Davíð situr um að vinna þér mein'?10 (24:11) Sjá, nú hefir þú sjálfur séð, hversu Drottinn gaf þig í mínar hendur í dag í hellinum. Og menn eggjuðu mig á að drepa þig, en ég þyrmdi þér og hugsaði með mér: ,Ég skal eigi leggja hendur á herra minn, því að Drottins smurði er hann.'11 (24:12) En líttu á, faðir, já líttu á lafið af skikkju þinni í hendi mér. Af því, að ég sneið lafið af skikkju þinni og drap þig ekki - af því mátt þú skynja og skilja, að ég bý eigi yfir illsku og svikum og að ég hefi eigi syndgað á móti þér. En þú situr um að ráða mig af dögum.12 (24:13) Drottinn dæmi milli mín og þín, og Drottinn hefni mín á þér, en hendur legg ég ekki á þig.13 (24:14) Eins og gamalt máltæki segir: ,Ills er af illum von,' en hendur legg ég ekki á þig.14 (24:15) Hvern eltir Ísraelskonungur? Hvern ofsækir þú? Dauðan hund, eina fló!15 (24:16) Drottinn sé dómari og dæmi okkar í milli og sjái til og flytji mál mitt og reki réttar míns í hendur þér."
16 (24:17) Þegar Davíð hafði mælt þessum orðum til Sáls, þá kallaði Sál: "Er það ekki þín rödd, Davíð sonur minn?" og Sál tók að gráta hástöfum.17 (24:18) Og hann mælti til Davíðs: "Þú ert réttlátari en ég, því að þú hefir gjört mér gott, en ég hefi gjört þér illt.18 (24:19) Og þú hefir í dag aukið á það góða, sem þú hefir auðsýnt mér, þar sem Drottinn seldi mig í þínar hendur, en þú drapst mig ekki.19 (24:20) Því að hitti einhver óvin sinn, mun hann þá láta hann fara leiðar sinnar í friði? En Drottinn mun umbuna þér þennan dag góðu, fyrir það sem þú gjörðir mér.20 (24:21) Og sjá, nú veit ég, að þú munt konungur verða og að konungdómur Ísraels mun staðfestast í þinni hendi.21 (24:22) Vinn mér því eið að því við Drottin, að þú skulir ekki uppræta niðja mína eftir mig og ekki afmá nafn mitt úr ætt minni."22 (24:23) Og Davíð vann Sál eið að því. Fór Sál því næst heim til sín, en Davíð og menn hans fóru upp í fjallvígið.