Lectionary Calendar
Wednesday, December 25th, 2024
Christmas Day
Attention!
Tired of seeing ads while studying? Now you can enjoy an "Ads Free" version of the site for as little as 10¢ a day and support a great cause!
Click here to learn more!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Fyrri konungabók 9

1 Þá er Salómon hafði lokið að byggja musteri Drottins og konungshöllina og allt annað, er hann fýsti að gjöra,2 þá vitraðist Drottinn honum í annað sinn, eins og hann hafði vitrast honum í Gíbeon.3 Og Drottinn sagði við hann: "Ég hefi heyrt bæn þína og grátbeiðni, sem þú barst fram fyrir mig. Ég hefi helgað þetta hús, sem þú hefir reist, með því að ég læt nafn mitt búa þar að eilífu, og augu mín og hjarta skulu dvelja þar alla daga.4 Ef þú nú gengur fyrir augliti mínu, eins og Davíð faðir þinn gjörði, í hreinskilni hjartans og einlægni, svo að þú gjörir allt, sem ég hefi fyrir þig lagt, og heldur lög mín og ákvæði,5 þá vil ég staðfesta hásæti konungdóms þíns yfir Ísrael að eilífu, eins og ég hét Davíð föður þínum, er ég sagði: ,Eigi skal þig vanta eftirmann í hásæti Ísraels.'6 En ef þér snúið baki við mér, þér og synir yðar, og varðveitið eigi boðorð mín og lög, þau er ég hefi lagt fyrir yður, en farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim,7 þá mun ég uppræta Ísrael úr því landi, sem ég gaf þeim, og húsinu, sem ég hefi helgað nafni mínu, mun ég burt snara frá augliti mínu, og Ísrael skal verða að orðskvið og spotti meðal allra þjóða.8 Og þetta hús, svo háreist sem það er - hver sem gengur fram hjá því, honum mun blöskra og hann mun blístra. Og er menn spyrja: ,Hvers vegna hefir Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús?'9 munu menn svara: ,Af því að þeir yfirgáfu Drottin, Guð sinn, er leiddi feður þeirra af Egyptalandi, og héldu sér að öðrum guðum, féllu fram fyrir þeim og þjónuðu þeim. Fyrir því hefir Drottinn leitt yfir þá alla þessa ógæfu.'"

10 Að tuttugu árum liðnum, þá er Salómon hafði reist bæði húsin, musteri Drottins og konungshöllina -11 en Híram konungur í Týrus hafði hjálpað Salómon um sedrusvið, kýpresvið og gull, eins og hann vildi -, þá gaf Salómon konungur Híram tuttugu borgir í Galíleuhéraði.12 Og Híram fór frá Týrus til þess að skoða borgirnar, er Salómon hafði gefið honum, en honum líkuðu þær ekki.13 Þá sagði hann: "Hvaða borgir eru þetta, sem þú hefir gefið mér, bróðir?" Fyrir því hafa þær verið kallaðar Kabúlhérað fram á þennan dag.14 En Híram sendi konungi hundrað og tuttugu talentur gulls.

15 Svo stóð á vinnuskyldu þeirri, er Salómon konungur lagði á til þess að byggja musteri Drottins og höll sína, Milló og múra Jerúsalem, Hasór, Megiddó og Geser:16 Faraó Egyptalandskonungur hafði farið herferð og unnið Geser og lagt eld í hana, en drepið Kanaanítana, sem bjuggu í borginni, og síðan gefið hana dóttur sinni, konu Salómons, í heimanmund.17 En Salómon reisti Geser að nýju - og Neðri Bethóron,18 og Baalat og Tamar í óbyggðinni í landinu,19 og allar vistaborgirnar, sem Salómon átti, og vagnliðsborgirnar og riddaraborgirnar, og allt sem Salómon fýsti að byggja í Jerúsalem, á Líbanon og í öllu ríki sínu:20 Allt það fólk, sem eftir var af Amorítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum, sem eigi heyrðu til Ísraelsmönnum,21 niðjar þeirra, sem enn voru eftir í landinu og Ísraelsmenn eigi höfðu getað helgað banni - á þá lagði Salómon skylduvinnu, og er svo enn í dag.22 En af Ísraelsmönnum gjörði Salómon enga að þrælum, en þeir voru hermenn, embættismenn hans, hershöfðingjar hans, vagnkappar hans og foringjar fyrir vagnliði hans og riddaraliði.23 Æðstu fógetarnir, er settir voru yfir verk Salómons, voru fimm hundruð og fimmtíu að tölu. Höfðu þeir eftirlit með mönnum þeim, er að verkinu unnu.24 Óðara en dóttir Faraós var farin úr Davíðsborg í hús sitt, það er hann hafði reist handa henni, byggði hann Milló.25 Þrisvar sinnum á ári fórnaði Salómon brennifórnum og heillafórnum á altarinu, er hann hafði reist Drottni, og færði auk þess reykelsisfórnir á því altari, sem stóð frammi fyrir Drottni. Þannig fullgjörði hann musterið.26 Salómon konungur lét og smíða skip í Esjón Geber, sem liggur hjá Elat á strönd Rauðahafs, í Edómlandi.27 Og Híram sendi á skipin menn sína, farmenn vana sjómennsku, ásamt mönnum Salómons.28 Og þeir fóru til Ófír og sóttu þangað gull - fjögur hundruð og tuttugu talentur - og færðu það Salómon konungi.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile