Lectionary Calendar
Wednesday, December 25th, 2024
Christmas Day
Attention!
Tired of seeing ads while studying? Now you can enjoy an "Ads Free" version of the site for as little as 10¢ a day and support a great cause!
Click here to learn more!

Read the Bible

Heilögum Biblíunni

Fyrri konungabók 6

1 Á fjögur hundruð og áttugasta ári frá því, er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi, fjórða árið, sem Salómon ríkti yfir Ísrael, í sívmánuði - það er öðrum mánuðinum - reisti hann Drottni musterið.2 Musterið, sem Salómon konungur reisti Drottni, var sextíu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð.3 Forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tuttugu álnir á breidd fram með musterisendanum og tíu álnir á dýpt fram af musterinu.4 Hann gjörði glugga á musterið með föstum grindum fyrir.5 Og upp að musterisveggnum hringinn í kring reisti hann þriggja hæða hliðarhús - upp að musterisveggjunum, hringinn í kringum aðalhúsið og innhúsið og gjörði stúkur allt í kring.6 Fyrsta hæð þessa hliðarhúss var fimm álnir á breidd, miðhæðin sex álnir á breidd, og efsta hæðin sjö álnir á breidd, því að hann hafði sett stalla utan á musterið hringinn í kring, til þess að bitarnir skyldu ekki ganga inn í musterisveggina.7 Þegar musterið var reist var byggt úr steinum, sem höfðu verið höggnir til, er grjótið var tekið, svo að hvorki heyrðist hamarshljóð né axar, né nokkurs annars járntóls, meðan á byggingu musterisins stóð.8 Dyrnar á fyrstu hæð hliðarhússins voru á suðurhlið musterisins, og var gengið upp um hringstiga upp á miðhæðina og þaðan upp á efstu hæð.9 Þannig reisti hann musterið og lauk við það og þakti musterið með bjálkum og þiljum úr sedrusviði.10 Hann reisti hliðarhús utan um allt musterið, fimm álnir á hæð hver hæð, og tengdi þau við musterið með sedrusviði.

11 Þá kom orð Drottins til Salómons svolátandi:12 "Þú hefir byggt þetta hús. Ef þú gengur eftir boðorðum mínum og breytir eftir lögum mínum og varðveitir allar skipanir mínar með því að ganga eftir þeim, þá mun ég efna heit mitt við þig, er ég gaf Davíð föður þínum,13 og ég mun búa meðal Ísraelsmanna og eigi yfirgefa lýð minn Ísrael."14 Þannig byggði Salómon musterið og lauk við það.

15 Salómon þiljaði musterisveggina að innan með sedrusviði. Frá gólfi hússins upp að loftbjálkum þiljaði hann það að innan með viði og lagði gólf í húsið úr kýpresviðarborðum.16 Og hann þiljaði tuttugu álnir aftan af húsinu neðan frá gólfi og upp undir bjálka með sedrusviði. Gjörði hann þannig úr því að innan innhús, það er Hið allrahelgasta.17 Húsið var fjörutíu álnir, það er aðalhúsið fyrir framan innhúsið.18 Innan á musterinu var sedrusviður, útskorinn með hnöppum og blómstrum. Var það allt af sedrusviði, og sá hvergi í stein.19 Hann bjó út innhús, Hið allrahelgasta, inni í musterinu, til þess að þangað mætti flytja sáttmálsörk Drottins.20 Og fyrir framan innhúsið - en það var tuttugu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði það skíru gulli - gjörði hann altari af sedrusviði.21 Salómon lagði musterið með skíru gulli að innan, og dró gullfestar fyrir kórinn og lagði hann gulli.22 Og allt húsið lagði hann gulli - algjörlega allt húsið. Einnig lagði hann gulli allt altarið, sem tilheyrði innhúsinu.23 Hann gjörði í innhúsinu tvo kerúba af olíuviði, tíu álna háa.24 Hvor vængur annars kerúbsins var fimm álnir, og hvor vængur hins kerúbsins fimm álnir, svo að tíu álnir voru frá enda annars vængsins til enda hins vængsins.25 Báðir kerúbarnir voru tíu álnir, báðir voru þeir jafnstórir og eins að gerð.26 Annar kerúbinn var tíu álnir á hæð, svo og hinn kerúbinn.27 Og hann setti kerúbana upp inni í Hinu allrahelgasta, og breiddu þeir út vængina, svo að annar vængur annars nam við vegginn og hinn vængur hins kerúbsins nam við hinn vegginn, en í miðju húsinu námu vængir þeirra hvor við annan.28 Og hann lagði kerúbana gulli.29 Hann lét skera út á veggina hringinn í kring kerúba, pálma og blómfléttur, inni og fyrir utan.30 Gólf hússins lagði hann og gulli, inni og fyrir utan.31 Fyrir dyr innhússins lét hann gjöra vængjahurð úr olíuviði. Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafirnir mynduðu fimmhyrning.32 Á báðar vængjahurðirnar, sem voru úr olíuviði, lét hann skera kerúba, pálma og blómfléttur og leggja gulli, en kerúbana og pálmana lagði hann slegnu gulli.33 Og fyrir dyr aðalhússins lét hann sömuleiðis gjöra ferstrenda dyrastafi af olíuviði34 og tvær vængjahurðir af kýpresviði. Var hvor vængurinn um sig gjörður af tveimur hlerum, er léku á hjörum.35 Og hann lét skera kerúba, pálma og blómfléttur á þá og lagði það gulli, sem út var skorið.36 Hann gjörði vegginn um innri forgarðinn úr þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum.37 Á fjórða ári var grundvöllurinn lagður að húsi Drottins, í sívmánuði.38 Og á ellefta ári, í búlmánuði - það er áttunda mánuðinum - var húsið fullgjört í öllum greinum, með öllu sem því tilheyrði. Í sjö ár var hann að byggja það.

 
adsfree-icon
Ads FreeProfile