the Week of Proper 28 / Ordinary 33
Click here to learn more!
Read the Bible
Heilögum Biblíunni
Fyrri kroníkubók 11
1 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til Davíðs í Hebron og sögðu: "Sjá, vér erum hold þitt og bein!2 Þegar um langa hríð, meðan Sál var konungur, hefir þú verið fyrir Ísrael, bæði þegar hann lagði af stað í stríð og þegar hann kom heim. Auk þess hefir Drottinn, Guð þinn, við þig sagt: ,Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar Ísraels, og þú skalt vera höfðingi yfir þjóð minni Ísrael!'"3 Þá komu allir öldungar Ísraels til konungsins í Hebron, og Davíð gjörði við þá sáttmála í Hebron, frammi fyrir augliti Drottins, og þeir smurðu Davíð til konungs yfir Ísrael eftir orði Drottins fyrir munn Samúels.4 Og Davíð og allur Ísrael fór til Jerúsalem, það er Jebús, og þar voru Jebúsítar landsbúar.5 Þá sögðu Jebúsbúar við Davíð: "Þú munt eigi komast hér inn!" En Davíð tók vígið Síon, það er Davíðsborg.6 Þá mælti Davíð: "Hver sá, er fyrstur vinnur sigur á Jebúsítum, skal verða höfuðsmaður og herforingi!" Gekk þá fyrstur upp Jóab Serújuson og varð höfuðsmaður.7 Því næst settist Davíð að í víginu, fyrir því nefndu menn það Davíðsborg.8 Og hann víggirti borgina allt í kring, frá Milló og alla leið umhverfis, en aðra hluta borgarinnar hressti Jóab við.9 Og Davíð efldist meir og meir, og Drottinn allsherjar var með honum.
10 Þessir eru helstir kappar Davíðs, er öfluglega studdu hann til konungstignar, ásamt öllum Ísrael, til þess að gjöra hann að konungi samkvæmt boði Drottins til Ísraels.11 Og þetta er talan á köppum Davíðs: Jasóbeam Hakmóníson, höfðingi þeirra þriggja. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum í einu.12 Honum næstur er Eleasar Dódóson, Ahóhíti. Hann var meðal kappanna þriggja.13 Hann var með Davíð í Pas Dammím, en Filistar höfðu safnast þar saman til orustu. En þar var akurspilda, alsprottin byggi. En er fólkið flýði fyrir Filistum,14 námu þeir staðar í spildunni miðri, náðu henni og unnu sigur á Filistum. Veitti Drottinn þannig mikinn sigur.15 Einu sinni fóru þrír af höfðingjunum þrjátíu til Davíðs í hamrinum, í Adúllamvíginu, en her Filista lá í herbúðum í Refaímdal.16 Þá var Davíð í víginu, en varðsveit Filista var þá í Betlehem.17 Þá þyrsti Davíð og sagði: "Hver vill sækja mér vatn í brunninn í Betlehem, sem er þar við hliðið?"18 Þá brutust þeir þrír gegnum herbúðir Filista, jusu vatn úr brunninum í Betlehem, sem er þar við hliðið, tóku það og færðu Davíð. En Davíð vildi ekki drekka það, heldur dreypti því Drottni til handa19 og mælti: "Guð minn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt. Ætti ég að drekka blóð þessara manna, er hættu lífi sínu, því að með því að hætta lífi sínu sóttu þeir það." Og hann vildi ekki drekka það. Þetta gjörðu kapparnir þrír.20 Abísaí, bróðir Jóabs, var fyrir þeim þrjátíu. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum og var frægur meðal þeirra þrjátíu.21 Af þeim þrjátíu var hann í heiðri hafður og var foringi þeirra, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki.22 Benaja Jójadason, hraustmenni, frægur fyrir afreksverk sín, var frá Kabseel. Hann drap báða sonu Aríels frá Móab. Hann sté ofan í brunn og drap þar ljón einn dag, er snjóað hafði.23 Hann drap og egypskan mann tröllaukinn, fimm álna háan. Egyptinn hafði spjót í hendi, digurt sem vefjarrif, en hann fór á móti honum með staf, reif spjótið úr hendi Egyptans og drap hann með hans eigin spjóti.24 Þetta gjörði Benaja Jójadason. Hann var frægur meðal kappanna þrjátíu.25 Af þeim þrjátíu var hann í heiðri hafður, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki. Davíð setti hann yfir lífvörð sinn.26 Og hraustu kapparnir voru: Asahel, bróðir Jóabs, Elhanan Dódóson frá Betlehem,27 Sammót frá Harór, Heles frá Palon,28 Íra Íkkesson frá Tekóa, Abíeser frá Anatót,29 Sibbekaí frá Húsa, Ílaí frá Ahó,30 Maharaí frá Netófa, Heled Baanason frá Netófa,31 Íttaí Ríbaíson frá Gíbeu í Benjamíns ættkvísl, Benaja frá Píraton,32 Húraí frá Nahale Gaas, Abíel frá Araba,33 Asmavet frá Bahúrím, Eljahba frá Saalbón,34 Hasem frá Gíson, Jónatan Sageson frá Harar,35 Ahíam Sakarsson frá Harar, Elífal Úrsson,36 Hefer frá Mekera, Ahía frá Palon,37 Hesró frá Karmel, Naaraí Esbaíson,38 Jóel, bróðir Natans, Míbhar Hagríson,39 Selek Ammóníti, Nahraí frá Beerót, skjaldsveinn Jóabs Serújusonar,40 Íra frá Jattír, Gareb frá Jattír,41 Úría Hetíti, Sabad Ahlaíson,42 Adína Sísason, niðji Rúbens, höfðingi Rúbensniðja, og þrjátíu manns með honum,43 Hanan Maakason og Jósafat frá Meten,44 Ússía frá Astera, Sama og Jeíel Hótamssynir frá Aróer,45 Jedíael Simríson og Jóha Tísíti, bróðir hans,46 Elíel frá Mahanaím og Jeríbaí og Jósavja Elnaamssynir og Jítma Móabíti,47 Elíel, Óbeð og Jaasíel frá Mesóbaja.